Saturday, October 25, 2014

aftur?

Er búin að vera að íhuga undanfarna daga og vikur (ekki stöðugt, en samt af og til) hvort það væri ekki ágætis hugmynd og spark í framkvæmdarass að fara að blogga aftur. Finnst tilhugsunin dálítið spennandi og hef eiginlega enga afsökun fyrir því að gera það ekki.

Frá því að ég skrifaði síðustu færslu hafa milljón hlutir gerst. Ég er orðin ljóshærð, komin í sambúð og frá og með mánudeginum mun ég vinna í Reykjavíkinni (þó í sömu vinnu og ég hef verið í undanfarin ár). Þetta er mikið af breytingum í lífi einnar stelpukonu og ég hef ekki gefið mér nógu mikinn tíma í að breyta og skreyta eins og ég gerði áður. Og svo óttaðist ég pínu hvað sambýlismaðurinn myndi segja þegar hann sæi mig draga kassa (í fleirtölu) af kertastjökum út úr geymslunni og eyða heilu föstudagskvöldi í að stara á borðstofuborðið bæði standandi og sitjandi við það því bæði sjónarhornin þurfa að virka. Augljóst mál.

En það er síðan akkúrat það sem ég gerði síðasta föstudag. Ég eyddi heilu föstudagskvöldi (og smá af laugardeginum) í að raða kertastjökum, það var yndislegt og virtist bara falla í góðan jarðveg. Svo að ég kannski fer að hætta að nota þetta sem afsökun og actually sinna þessu áhugamáli mínu :)

Mér finnst held ég alltaf skemmtilegast að raða dóti á kertaarinninn:



Hann var búin að standa dálítið í stað, eins og allt hitt, síðastliðið hálft ár. Þegar ég eignaðist síðan fallega glerkassakertastjakann frá House Doctor fyrir kertin fjögur fékk ég óvænta þörf til þess að breyta. Ofan í hann setti ég þrjá litla hnetti sem mér finnst koma einstaklega vel út. Þar við hliðina eru Bloomingville kertabollar ofan á Nietzsche - I-ið átti ég fyrir en G-ið fann ég eftir afar þráláta leit eftir að sambýlismaðurinn flutti inn. Fór næstum að grenja þegar ég fann það, mjög svalt móment. Þar við hliðina er svo Aalto vasinn minn með litlu kertastjakabræðrunum sínum ofan á bók um jörðina - einhvern veginn endar þessi vasi alltaf ofan á þessari bók. Þar við hliðina kemur svo týpískt glerbox með perlufestum í, keypt í MyConcept store og kertastjakana stóru á endanum fann ég á bland.is fyrir löngu.

Ég eeeeelska orðaborðann sem ég keypti í Mjólkurbúinu. Finnst eini gallinn eiginlega vera að það er ekki nóg af stöfum því mig langar að gera of mikið. Og að það eru engir tölustafir.

Glögg augu sjá mögulega að ég er með risaútgáfuna af Ikeabæklingnum á stofuborðinu mínu. Já, ég tók þátt í leik. Og vann! Finnst ég sjaldan hafa átt jafnmikið skilið að vinna eitthvað. Og þess vegna fær hann að vera þarna undir Festivo stjökunum mínum.

Glögg augu sjá jafnvel líka að tækjaeign heimilisins hefur aukist til muna frá því að ég birti síðast mynd af stofunni minni, miðað við fjarstýringaflotann þarna á borðinu. Það er mikið púsluspil þegar tveir fullorðnir (?) einstaklingar hefja sambúð en við tókumst á við allar hindranir sem upp komu með stillingu og virðingu. Ég fékk þrefalt stærra skápapláss en hann, hann fékk að hafa alltof stóra sjónvarpið sitt áfram og við seldum mitt (minna, eldra og með færri tengimöguleikum) í staðinn. Ég fékk að halda öllum húsgögnunum mínum í nánast algjörlega óbreyttri mynd og varla lyfta fingri við flutningana svo ég myndi ekki brjóta nögl, hann flutti til Keflavíkur og fer með rútu og strætó í Reykjavíkina á hverjum degi til að vinna. Mjög sanngjörn skipti.

Ég hlýt að hafa gert eitthvað afskaplega göfugt í fyrra lífi.

Að öllu gríni sleppt er ég dáldið spennt fyrir því að byrja að blogga aftur. Gerði mér meira að segja ferð í Ikea í gær, keypti í föndur og er búin að framkvæma það og allt og held ég sé bara sátt. Vonandi finn ég nenn til þess að búa til aðra færslu og segja frá því.


- Góða helgi :) -

Ps - ef einhver hefur löngun á að búa til síns eigins kertaarinn þá hef ég sett teikningarnar mínar að mínum hingað: gussi.is/kertaarinn/mál.pdf og hér er skýringarmynd sem hjálpaði mér mikið: http://gussi.is/kertaarinn/kertaarinn.jpg - frekari upplýsingar um hvernig ég (með aðstoð annarri mér færari) bjó gripinn til má finna í færslu frá 18. október 2013. Ég bið ykkur um að dreifa ekki teikningunum heldur benda fólki frekar á að þær séu hér svo að ég fái ókeypis flettingar í staðinn og þá verða allir ofsaglaðir :)