Sunday, October 27, 2013

borðstofukósýheit: framhald

Við annan enda borðstofuborðsins er ég með dökkbrúnan, ágætlega massívan skenk sem er líklega upprunalega fenginn í Míru (eða einhverri sambærilegri búð) en ég keypti hann notaðan á Barnalandi á fimmþúsundkall. Klárlega ein bestu kaup sem ég hef gert. Ég plataði litla bróður minn til þess að fara með mér í bæinn að ná í hann á jeppanum sem mamma og pabbi áttu þá, Nissan Patrol. Stuttu síður var hann svo seldur fyrir mikið minni jeppa og síðan þá hefur stórum breytingum á innbúinu mínu snarfækkað ... ekkert má maður.

Skenkurinn stendur uppi við vegg og fyrir ofan hann hanga tvær myndir keyptar í 1928, búð sem ég sakna mikið. Verð að viðurkenna að ég er komin með nett ógeð á þessum myndum og langar dálítið mikið í spegil í staðinn, sona langan og mjóan. Held að það gæti orðið dáldið kúl. En þangað til hanga Marilyn og Audrey þarna ennþá í góðum fíling. 

Í gær sýndi ég ykkur þessar myndir af borðstofuborðinu og á henni glittir í ævintýralandið fyrir aftan borðið:



(ég gleymdi náttúrulega að segja frá lampaskerminum sem að er fyrir ofan borðið. Þegar ég flutti hingað var þarna viðbjóðslegur gulhvítur skermur úr plasti, grútdrullugur. Á síðasta ári skipti ég honum síðan (loksins) út fyrir þennan einfalda og stóra skerm úr Ikea og munurinn var þvílíkt mikill. Ljós geta haft svo mikil og góð áhrif á umhverfi sitt).

En aftur að máli málanna

Skenkurinn býður semsagt upp á mikla möguleika í skreytingum og venjulega eru uppstillingarnar á honum og borðinu tengdari. Ég var bara svo æst fyrir því að skreyta með strigaböndunum og skrapp&gaman dótinu og fannst það einhvern veginn ekki passa með mjúku litunum og rómantísku stemmningunni sem er á skenknum:



Er súpersátt við þetta eins og þetta er í dag og efast um að ég breyti þessu eitthvað að ráði fyrr en ég fer að jólast (dreym). Þarna er mikið í gangi og því betra að skoða hvað actually er þarna með nærmyndum:

Þarna er ég með aftast glervasa keyptan í Garðheimum, í honum er risastórt hvítt blóm og perlur (lovely). Undir öllu kertastjakaflóðinu er ég með tvær geymslubækur, sú stærri er úr Blómaval og sú minni úr MyConceptstore. Blúndukertin ofan á keypti ég í Ilva - hafði lengi ætlað mér að gera eitthvað svipað sjálf en fann þau svo þarna tilbúin á 70% afslætti og gat ekki ekki keypt þau. Kertastjakarnir tveir aftast eru úr Púkó & smart - var heillengi að ákveða hvort ég ætti að kaupa þá eða ekki, keypti þá ekki og fór. Þegar ég átti síðan leið þar aftur (alveg óvart) einhverjum vikum síðar voru þeir ennþá til og þá á 50% afslætti. Og auðvitað keypti ég þá í það skiptið. Ég batt síðan utan um þá gráa litla flauelsborða úr Skrapp & gaman (sakn). Litlu styttuna af fallegu, góðu börnunum sem eru að lesa saman fékk ég í skóinn þegar ég var bara lítið pons, kannski 8 ára, og þykir ótrúlega vænt um hana. Svo er ég þarna með litla batterísseríu til þess að fullkomna kósýheitin. Þarna er að vísu, ólíkt aðstæðunum á borðinu, alveg hægt að vera með hefðbundna seríu en ég er nýbúin að færa þá sem var þarna annað. Svo að batterísserían verður að duga í bili, og hún stendur sig alveg ágætlega.


Hægra megin á borðinu er ég með tvo stjaka úr Ikea (fann þá í skilavöruhorninu góða svo að þeir voru hundódýrir). Hef oft verið að vandræðast með hvar ég á að hafa þá, mér finnst þeir mjög fallegir en a) þeir eru hvítir og ég er hálfóvön því að eiga hvíta hluti og b) þeir eru jafnháir og koma því að mér finnst stundum hálfundarlega út saman. Þarna setti ég annan þeirra ofan á tvær bækur (og það mjög skemmtilegar bækur nota bene) og við það breytist allt. Bækurnar gefa andrúmsloftinu á borðinu mikið líf, sérstaklega þessi grænbláa. Ég er venjulega ekki mikið fyrir liti eins og þessa sem eru á borðinu, ljósgræna, ljósbláa og ljósbleika en þarna finnst mér þetta virka fullkomlega og rammast vel í eina heild. Ég leyfði svo húsastyttunni minni að vera með þarna - mig minnir endilega að mamma hafi keypt hana einhvern tímann handa mér þegar ég var lítil, ég hef alltaf verið svo skotin í svona húsum og fundist hálfleiðinlegt að eiga ekki heima í svoleiðis. Við hliðina á húsinu er síðan kerti sem að ég fékk í fermingargjöf - það var annað rautt glas innan í sem brotnaði náttúrulega en þetta hvíta nýtur sín ágætlega eitt og sér. Utan um allt saman vafði ég að lokum hjartabandi (veit ekki hvað annað ég ætti að kalla þetta) sem lafir líka dálítið út af borðinu, þau eru til í Ikea í silfruðu og gylltu og eru upprunalega ætluð sem pakkaskraut. Hjá mér hafa þau fengið ýmsan tilgang, ég er til dæmis með á einum stað hangandi í gardínu og finnst það koma mjög vel út.

Svo eru þarna undir borðplötunni tvær skúffur sem nýtast afskaplega illa því þær eru svo litlar (ég hef sjaldan verið mikið fyrir að pæla í praktískum hliðum hluta sem ég kaupi þegar mér finnast þeir fallegir, það er augljóslega óþarfi) EN þar undir kemur síðan hilla og hana er vel hægt að nota í marga sniðuga hluti. Núna er ég með þar stóra körfu sem ég keypti í Ilva og kassa undan vínflöskum sem pabbi fékk gefins og ég fékk að eiga:



Í körfunni eiga heimili allir dúkar, löberar og diskamottur sem ég á. Þessir hlutir áttu sér fyrir engan sérstakan samastað og voru hálfpartinn dreifðir út um allt - í skúffum og skápum - þangað til ég átti mig á þessari lausn. Mjög þægilegt að hafa allt saman og svona við höndina svo að kona áttar sig betur á hvað er til. Maður á ekki að fela fallega hluti ofan í skúffum :)



(sorrí mamma, ég lofa að skila þessum bleikrauðgulfjólubláröndótta asap)

Hérna er svo kassinn úr vínbúðinni sem er eiginlega meira eins og stór bakki. Hann er hægt að nota í marga sniðuga hluti en þarna er hann í raun bara hirsla. Ég breiddi ofan á hann klukkustreng sem ég fékk frá mömmu til þess að fela það sem er í honum, finnst litirnir svo fallegir og finnst þetta sniðugt. Bakkakassinn er upprunalega bara ómeðhöndlaður, ljós viður en ég penslaði hann með blöndu af te-i, stálull og balsamikediki  (passið að hafa vel loftað út við þess háttar framkvæmdir, lyktin af þessari blöndu er viðbjóður) til þess að fá gamalt lúkk á hann. Finnst þetta voðalega kósý:



Vinstra megin við borðstofuborðið er ég með glerskáp sem ég keypti notaðan af systur vinkonu minnar og gerði hann að mínum með svörtu lakki og nýjum höldum. En fannst ekki hægt að hafa færslu eftir færslu með frásögnum af því hvernig ég lakka alla hluti í heiminum svarta svo að ég kem mögulega betur að því síðar!


Munið eftir að læka mig :)

knús

Saturday, October 26, 2013

borðstofukósýheit

Ég er búin að fá eitthvað af fyrirspurnum og athugasemdum um hvort að ég geri ekkert annað en að föndra, smíða, breyta og skreyta þar sem undanfarnar færslur ýta mögulega undir þá ímynd af mér. Það er alls ekki þannig (því miður), heldur eru þetta allt hlutir sem ég er búin að gera á töluvert löngum tíma. Í dag ætla ég hins vegar að sýna ykkur eitthvað nýtt og einfalt - uppstillingar í borðstofunni.

Eldhúsið mitt gerir ekki ráð fyrir borði inni svo að borðstofuborðið mitt er í rauninni líka eldhúsborð. En þar sem ég bý ein (og er löt) er aldrei borðað við það nema eitthvað sé um að vera og gestir í heimsókn. Dagsdaglega stendur það þess vegna bara hreint og fínt og hálftilgangslaust nema að vera fallegt fyrir augun. Og fallegt er það! Týpískt pinnaborð, upphaflega í eigu Ingunnar Sigríðar móðurömmu minnar og Karls afa míns, frá þeim fór það til Vignis frænda míns og Guðbjargar konunnar hans alla leið til Danmerkur og frá þeim fékk ég það síðan, fyrir sex árum síðan. Ef að borð gætu talað...

Ég er yfirleitt með týpískt löber- og bakkacombó á því en skipti reglulega um löber og hlutir í bakkanum fá sjaldan að vera þar mikil lengur en viku, hálfan mánuð. Bakkinn, keyptur í Ilva, er hins vegar nánast alltaf á borðinu þar sem hann er það stór að ég get ekki notað hann annars staðar. Í dag lítur það svona út:





Í staðinn fyrir týpísku stólana sem fylgja borðinu er ég með stóla sem ég keypti notaða af vinkonu minni þegar hún flutti til Bretlands og er mjög ánægð með þá þó að þeir séu sumir dálítið illa farnir. Ólíkt þessum upprunalegu er mjög þægilegt að sitja í þeim sem að mér finnst skipta miklu máli.

Uppstillingin ofan á borðinu er síðan svona:


Bakkinn var heldur ljótur þegar ég keypti hann og ég er búin að mála hann að innan tvisvar. Finnst sniðugt að setja diskamottu í botninn á honum bæði til þess að verja hann og eins til þess að set the mood. Ég vildi hafa hlutleysi á móti gleri og silfri og valdi þess vegna frekar daufa diskamottu, á myndinni virðist hún að vísu allt of mikið út í grænt (ég er ekki mikið fyrir græna og gula liti) en í raun er hún meira út í hermannabrúnt. Sumsé, hlutlaus og í raun meira eins og akkerri fyrir það sem kemur ofan á.

Svo koma þarna með fimm karöflur keyptar bæði í Góða hirðinum og Kompunni (keflvíska Góða hirðinum) á slikk. Þær skreytti ég með bandi úr striganum sem ég notaði á strigakransinn minn og litlum fallegum hlutum sem komu saman úr Skrapp og gaman (æææðisleg búð sem er því miður búið að loka) og á einum þeirra hanga eyrnalokkar sem Ingunn amma átti. Mér finnst skemmtilegast að nota í svona hluti sem ég á til fyrir og innihalda jafnvel góðar minningar:



Sem upphækkun nota ég fjórar Laxness bækur - mér finnst frábært að nota bækur í uppstillingar og skreytingar þar sem hæðamunur getur oft gert mikið fyrir augun og eins eru þær oft fallegar á litinn. Glerið skreytir mikið svo að bækurnar eru hálfhlutlausar undir en samt ekki alveg því gyllingin á kiljunum blingar allt vel upp (ég vona að fólk taki ekki mjög illa í að ég tali um Laxness og noti svo orð eins og bling í sömu málsgrein). Nú, svo er ég með fimmarma kertastjakann minn þarna með (hann fékkst að sjálfsögðu í Ilva) og á honum tjillar lítill ungi sem bróðir minn fékk utan á pakka þegar hann stúdentaðist í vor. Okkur mér fannst tilvalið að ég fengi hann í láni þar sem ég held mikið upp á rautt og eins af því að ég hef sökum smæðar oft verið kölluð ungi (Ingunn -> Unginn). Síðast en ekki síst er þarna lítið djásn sem ég keypti í sumar, rammi úr einni af uppáhaldsbúðunum mínum, MyConceptstore:



Í rammanum eru myndir teknar i ferð með Þórdísi vinkonu minni á jökulsárlónið núna í ágúst, þangað förum við árlega til þess að kíkja á flugeldasýninguna sem frændur mínir í björgunarsveit Austur-Skaftfellinga halda (þessi sýning er möst fyrir alla sem hafa fanatískan áhuga á flugeldum!). Að lokum er þarna ég með litla batterísseríu úr Ikea sem umvefur allt og gefur öllu svo fallegan ljóma. Alveg magnað hvað seríur geta gert mikið og maður felur svo bara batteríin á bakvið.

Í heildina (þið verðið að afsaka léleg gæði myndanna, ég er ennþá að læra hvernig á að taka myndir fyrir blogg):


Vonandi gefur þetta einhverjum hugmyndir um fleiri hugmyndir að fallegum hlutum (hugmyndception)!

knús

Thursday, October 24, 2013

a little trip to bedfordshire

Þá er komið að tímaflakki um svefnherbergið mitt með áherslu á kommóðurnar þrjár sem eru þar og misnotkun minni á þeim í gegnum tíðina. Tvær þeirra gegna hlutverki náttborða en sú þriðja er stærri og þar geymi ég hluti og föt sem ekki eru hengd á herðartré (Kaninn hefur ekki hillur í fataskápum enda er það eflaust bara óþarfi). Þetta eru allt húsgögn úr Rúmfatalagernum, upphaflega úr ómeðhöndluðum við sem ég er síðan búin að meðhöndla töluvert oft.

Ég hef náttúrulega bæsað náttborðin bæði töluvert oft og annað meira að segja mikið oftar en hitt. Það keypti ég sjálf eftir fermingu minnir mig og hafði inni í herberginu mínu sem hirslu og síðar náttborð. Fyrst í stað var það bæsað karamellubrúnt en þegar ég flutti það með mér á Eggertsgötuna bæsaði ég það aftur palesanderbrúnt. Þegar ég fékk íbúðina hérna uppfrá vantaði mig síðan stóra kommóðu sökum áðurgreindrar ástæðu og hjónin sem ég keypti hana af (í gegnum Barnaland, en ekki hvað) áttu síðan af tilviljun alveg eins kommóðu og ég hafði notað sem náttborð og mig minnir að ég hafi fengið hana aukalega á í kringum þúsundkall. Þau leyfðu mér svo líka að kippa með þriðju kommóðunni sem var töluvert minni til þess að fylla upp í skottið á bílnum. Mjög drjúg ferð þar. Við flutningana hingað bæsuðum við pabbi síðan allar þessar kommóður rauðbrúnar og í fyrstu leit svefnherbergið svona út, það glittir í stærri kommóðuna þarna fremst:



Ekki láta ykkur bregða þó að allt virðist þarna á skakk og skjön miðað við síðustu færslu - íbúðin er nebblega með tvö RISAstór herbergi og í fyrstu svaf ég í því stærra en það er líklegast í kringum 18 fermetrar (er núna nýtt sem hobbíherbergi / herbergið hans Hannesar og nefnist í daglegu tali draugaherbergið). Þetta fyrirkomulag var alveg ágætt en veggirnir gulu byrjuðu strax á degi eitt að pirra mig ákaflega. Ég ákvað þannig að af-gula íbúðina og keypti svart eðalbæs úr Ikea. Bæsið þakti húsgögnin alveg einstaklega illa, sér í lagi kommóðuna sem ég hafði fengið frá hjónunum af Barnalandi þar sem hún var lökkuð fyrir og erfitt að ná því af. Að öðru leyti kom þetta bara ágætlega út, í það minnsta minnkaði sumarbústaðarstemmningin töluvert þegar ég tók vegglímmiðablómin af, hengdi myndirnar upp í staðinn og setti rauð koddaver á miðjupúðana. Þessi mynd er tekin þremur mánuðum eftir innflutning:


Það er nánast óþarfi að taka fram hvaðan allt er - á þessum tíma verslaði ég eingöngu í Ikea og myndirnar, myndarammarnir og lamparnir eru öll ættleidd þaðan. Þetta lúkk hélst í kringum ár en haustið 2010 ákvað ég á þriðjudagskvöldi að svissa herbergjunum, aðallega af því að a) ofnarnir þann veturinn virkuðu illa og stærra herbergið er með tveimur útveggjum á meðan minna herbergið, sem rúmið var fært í er aðeins með einum og þar af leiðandi hlýrra og b) Hjalti hélt að ég gæti ekki fært rúmið sjálf. Að sjálfsögðu var það ekkert mál og ég vippaði húsgögnunum auðveldlega á milli herbergjanna og var búin að raða öllu upp í bókahilluna og tengja tölvuna og allt vel fyrir miðnætti. Feis! Þá leit þetta svona út:



Anar gardínuvængurinn hefur greinilega eitthvað verið fyrir mér í þessum látum þar sem hann virðist vera að detta af. Þetta fyrirkomulag fannst mér strax mikið huggulegra því þó að herbergið sé tæknilega séð ekki mikið minna ef miðað er við stærð á gólfleti virðist það samt vera það og þá fannst mér auðveldara að gera það notalegt. Þetta hélst síðan nánast óbreytt (fyrir utan vegglímmiðann minn sem ég fékk í afmælisgjöf 2011 frá félaga mínum sem þá rak vegglímmiðafyrirtæki) svona allt þar til snemma árs 2012. Þá hafði mikið gengið á, ég neyddist til þess að losa mig við kött sem ég átti vegna ofnæmis og í framhaldi af því þurfti að þrífa íbúðina og allt í henni frá A til Ö (36 bandarískar þvottavélar, takk fyrir takk). Svefnherbergið var því í þvottahúsinu í einn dag á meðan gólfteppin voru djúphreinsuð:


Nú þegar öllu var raðað upp eftir þetta fannst mér í eðlilegu framhaldi ekki geta gengið að hafa herbergið svona eins áfram og í framhaldi af því ákvað ég að lakka allt heila klabbið háglans svart (með sama lakki og ég lakkaði kertaarinninn minn). Hér eru náttborðin tilbúin í meikóverið:


Eins og þið mögulega sjáið eru þær alls ekki eins á litinn og þetta var meginástæða þess að ég ákvað að lakka í stað þess að bæsa (í milljónasta skiptið). Svarta Ikeabæsið var mjög ljótt á kommóðunni sem hafði verið lökkuð fyrir og ég hafði í óþolinmæði- og bræðiskasti meira að segja látið vera að lakka alla leið niður þá hliðina á kommóðunni sem ég vissi að myndi snúa að rúminu og því ekki sjást. Ég tók höldurnar af, pússaði létt yfir þær og eyddi svo einum seinniparti eða svo í að henda lakkinu á. Það er frábært að vinna með þetta lakk, sér í lagi að því leytinu til að það þekur svo vel og auðveldlega og vinnan við þetta var þess vegna mjög skemmtileg.

Nú eftir að lakkið var þornað og allt komið á sinn stað var ég mjög ánægð ... í kannski tvo daga. Fannst ennþá wow-factorinn vanta og íhugaði mikið hvernig ég gæti á praktískan hátt blingað herbergið vel upp á sem auðveldastan máta. Svarið við þeirri spurningu vissi ég innra með mér og hafði vitað það, dreymt það og séð það fyrir mér í langan tíma. Eftir að hafa melt það með mér í nokkra langa og erfiða daga ákvað ég að ég væri tilbúin fyrir alvörufullorðinsfjárfestingu og splæsti í þessum:


Ég hef fengið gríðarlega mikinn mótbyr frá vinum mínum vegna þessara kaupa, eitthvað um að eðlilegt fólk kaupi ekki lampa á svo og svo mikinn pening. MÉR ER ALVEG SAMA! Bourgie fór síðan á sinn stað (vinstra náttborðið), ég smíðaði gafl og keypti nýjar höldur á litlu kommóðurnar. Var í fyrstu að leita að einhverju úberblinguðu eins og þessu sem við Þórdís (Ingunn's Little Helper) fundum í Borð fyrir tvo:


En ég endaði á litlum, plain, glærum höldum úr Snúðar & Snældur í staðinn. Þá var heildarlúkkið komið og ég sátt í bili:


Ofan á kommóðunni má hægra megin sjá mögulega stærsta íslenska BedHead safnið (allt er þetta bráðnauðsynlegt!) ásamt litlum skartgripabakkaturni sem ég fékk í jólagjöf en veit að hann var keypti í Ilva. Vinstra megin er ég með lítinn bakka úr blasti, tvo svarta kertastjaka og eina litla kertakrukku - allt saman keypt í Ilva. Perlufestin kemur frá annarri hvorri ömmu minni, mér finnst fátt fallegra þessa dagana en að skreyta með perlum. Glögg augu sjá síðan mögulega myndina fyrir aftan á speglinum, þetta er nokkurra mánaða Ingunn í fyrstu Ikeaferðinni sinni (af mörgum) :) Spegilinn fékk ég gefins frá fyrri leigjanda íbúðarinnar, alltaf að græða sko. Hef ennþá ekki gert neit við hann annað en að festa á hann sömu fiðrildin og eru á strigakransinum mínum, en er svona að melta það með mér hvort hann þurfi ekki smá meikóver. Lemur í kjós!



Á náttborðinu lampamegin er ég með tvo litla kertasjaka sem ég fékk í jólagjöf á síðasta ári - þeir eru keyptir í Ilvu. Á hinu er ég með tvo stóra kertastjaka sem ég keypti af Barnalandi og lítinn bakka sem ég fann í Kompunni (keflvíski Góði hirðirinn) fyrir einhverjum vikum síðan og er mjög ánægð með, þægilegt að henda af sér skartgripum á hann.

Sjáiði bara hvað þetta er mikill draumur ha! 


Brúnu púðarnir eru eldgamlir, ég held að ég hafi verið í kringum 8 ára þegar ég fékk þá. Þeir voru hræðilega gul/fjólublá/svarskræpóttir (tíundi áratugurinn í hnotskurn) en mamma saumaði utan um þá fyrir mig þegar ég flutti á Eggertsgötuna og notaði til þess afgangsefni úr gardínunum sem ég var með þar og er líka með hér. Hvítu púðarnir eru úr Ikea, rauði hringlaga púðinn er úr The Pier (á annan svartan sem er alls ekki síðri) og langa, mjóa púðann sem sést eiginlega ekkert í keypti mamma handa mér í einhverjum útlöndum. Rúmteppið sést því miður ekki nógu vel en það er úr Ilva og ég er ennþá ruglklikkaðsmegaánægð með það - þó að ég mætti náttúrulega alveg notað það oftar :)

Ég er með plön um að kaupa ný púðaver utan um brúnu púðana því þeir eru orðnir frekar ljótir og dálítið þreytulegir og þá mun ég mögulega skipta á hinum líka þar sem litapallettan mun að einhverju leyti breytast. Mig langar líka rosalega mikið að fá mér þunnar gardínur undir þær brúnu sem eru fyrir - eldhúsglugginn á næstu íbúð er hérna í vinkil við minn glugga og það sést svo auðveldlega inn sem mér finnst ekki alveg vera að gera sig. Að öðru leyti er ég ennþá þónokkuð sátt við þetta eins og er og stefni ekki á neinar stórar breytingar í bili, þó að þannig plön geti auðvitað mjög auðveldlega breyst. Svo er ég náttúrulega líka með smá diy dúllerí á veggnum á móti rúminu - en það ætla ég að sýna ykkur seinna!


Munið eftir like-takkanum!
knús

Tuesday, October 22, 2013

to the bedmobile

Þá er komið að litlum rúnti um svefnherbergið mitt. Það er líklega ekkert herbergi í íbúðinni sem hefur fengið jafnmikla athygli og þó að breytingarnar þar inni séu kannski ekki áberandi fyrir eðlilegt fólk finnst mér litlir hlutir eins og nýr púði eða vegglímmiði geta gert kraftaverk. Í dag kemur frásögnin af því hvernig ég bjó til gordjössgordjöss rúmgaflinn minn.

Rúmið mitt, keypt notað á barnalandi (já það má og er ekkert endilega ógeðslegt svo lengi sem heimilið sem það er ættleitt af er reyklaust og snyrtilegt), er frá RB og er 180*200 cm (ég er gróflega 162 á hæð svo að þetta rétt dugir mér). Ég keypti það þegar ég flutti hingað árið 2009 og er hæstánægð með það. Þó hef ég alltaf slefað yfir rúmum með einhvers konar himnasæng eða stólpum eða bara einhverju dúlleríi yfirhöfuð:


Já, ég er dáldið mikil miðaldaprinsessa inn við beinið.

Rúmið mitt er upprunalega mjög plain, stór boxdýna og tvær dýnur ofan á sem eru renndar saman og fjórir fætur úr ljósum við. Með pífulaki og ágætis úrvali af púðum varð það smám saman svona (ég mun koma með nánara ferli af þeim breytingum síðar so stay tuned!):


Bara frekar huggó sona - en mér fannst samt vanta punktinn yfir i-ið. Er alls ekki hrifin af málningunni sem er hérna á allri íbúðinni, sama hversu praktísk hún er, svo því minna sem sést í veggina - því hamingjusamari verð ég. Og já, þetta er Kartell lampi með skökkum skermi ;)

Ég fór þess vegna á stúfana út um allan bæ til þess að nálgast hitt og þetta sem myndi vanta við framkvæmdirnar. Innkaupalistinn minn varð eftirfarandi:

- 2 cm MDF plata
- Svampdýna eða sæng
- Gervileður
- Pabbi og heftibyssan hans

Byko seldi mér MDF plöturnar (þær sömu og ég notaði í kertaarinninn minn) - þær eru í tvennu lagi, 90*140 cm. Pabba til mikillar gleði kom ég þeim náttúrulega alls ekki inn í litla stelpubílinn minn svo að hann kom með:


TIl þess að gaflinn verði ekki hrikalega ókósý og harður er æskilegt að hafa eitthvað utan um plöturnar áður en klæðningin er sett á. Ég hafði séð fullt af fólki setja svampdýnur sem er náttúrulega kjörið en þær voru dálítið fyrir ofan budget-ið mitt svo að ég skrapp í Ikea og keypti tvær sumarsængur hjá þeim á í kringum þúsundkall stykkið. Þær eru 150*200 cm svo að þær ná vel utan yfir MDF-plöturnar.

Þá tók við verðkönnun á gervileðri og ég hringdi út um allan bæ til þess að athuga málin (þessi símtöl áttu sér stað í vinnunni og samstarfskona mín sagði mér eftir á að henni hefði alltaf heyrst ég vera að spyrjast fyrir um gervilimi en ekki gervileður og var mjög gáttuð á öllu saman). Gervileðrið reyndist ódýrast í Föndru svo að þangað var förinni heitið næst. Ég keypti tvo metra af því og það rétt dugði.

Þá var komið að því að allir þessir hlutir yrðu góðir vinir með heftibyssunni. Við lögðum leðrið á gólfið og pössuðum að það væri allt slétt og fínt. Þar ofan á komu síðan sængurnar og ofan á þær komu MDF plöturnar: 


(Takið sérstaklega eftir fallega fallega gólfteppinu mínu sem var nýdjúphreinsað þegar þetta var tekið)

Nú pabbi mundaði síðan heftibyssuna af stakri snilld og örskotstund síðar var kominn gafl á rúmið mitt:


Rúmið er hátt en gaflinn er MJÖG hár og mætti eiginlega ekki vera hærri. En eins og alltaf þegar ég fer út í framkvæmdir vildi ég gera þetta almennilega og miðaði þess vegna bara við að gaflinn yrði eitthvað fyrir neðan vegglímmiðann. Það er mjög auðvelt að þrífa gervileðrið og ég mæli mjög með því einmitt þess vegna.

Þetta er eina myndin sem ég á af rúminu tekin þennan sama dag og hún lýsir stemmningunni mjög vel, ég mátti ekki vera að því að laga til áður en ég tók myndina því ég var svo spennt yfir öllu saman. Til þess að bæta fyrir þessi gríðarlegu óreiðu ætla ég að enda þetta á nýjustu myndinni sem er tekin af því en hún er tekin bara áðan. Ég ætla ekki að fara í smáatriði um það sem er á myndinni strax heldur er þetta meira eins og tease fyrir næstkomandi færslur og mér finnst hún meira að segja hálfvegis ekkert í samhengi við það sem ég er búin að vera að tala um því það er eitt og hálft ár frá því að myndin fyrir ofan var tekin. Kertastjakarnir hægra megin eru að vísu nýkomnir þangað aftur og þess vegna virðist breytingin ekki mikil en fyrir mér er þetta næstum því allt annað herbergi (vona að ég sé ekki að uppljóstra of mikið hvað ég á auðvelt með að tapa allri lógík yfir svona löguðu).


Það væri mjög auðveldlega hægt að skreyta gaflinn á einhvern hátt með því að sauma í hann hnappa eða eitthvað þvíumlíkt en ég ákvað að gera það ekki, vildi frekar hafa hann plain og bæta skrauti við síðar meir ef ég fengi leið á honum. Enn sem komið er hefur það ekki gerst og ég er mjög sátt við hann.

ps. Ég er búin að uppgötva af hverju það er ekki hægt að commenta. Málið er að maður virðist þurfa að vera með google+ til þess að allt ui-ið virki almennilega og google hefur bitið það í sig að nafnið mitt sé ekki alvöru nafn og vill þess vegna ekki skrá mig. Er að vinna í þessu! Þangað til megið þið endilega like-a færslurnar mínar :)

Sunday, October 20, 2013

draumur um íbúð

Ég er búin að eiga við oggulítið vandamál að stríða í dag. Málið er að undanfarna viku var doldið leti í gangi og ég ekki alveg að nenna að sinna hinu og þessu sem ég þyrfti helst að sinna vildi ég halda uppi heiðri mínum sem myndarleg húsmóðir. Dagurinn í dag hefur þess vegna farið í að þvo þvotta og þar sem ég er þurrkaralaus er öll íbúðin þakin hálfrökum þvotti sem vill ekki þorna hversu fallega sem ég bið (pabbi er á leiðinni að hengja upp snúrur fyrir mig, ég er búin að kaupa fallega rauð snúrubönd og allt!). Á meðan þessu hefur staðið hef ég látið mig dreyma um fallegar íbúðir sem ég myndi frekar vilja búa í.

Í þessum pósti ætla ég að deila með ykkur örlítilli veiki sem ég hef uppgötvað að býr innra með mér. Ég er alveg ágætis þáttasjúklingur, svona rétt eins og hver önnur manneskja, og eyði því ágætlega miklum tíma í að horfa á stöff eins og Big Bang Theory, Modern Family, How I Met Your Mother (já, ennþá), Community og Cougar Town. Málið er sumsé að stundum stend ég mig að því að vera að veita heimilum persónanna meiri athygli heldur en því sem er í raun að gerast í þáttunum. 

Gott dæmi um þetta er þegar ég horfði um daginn óvart á alla seríuna af Makalaus - brilliant þættir (not) sem gefa mjög raunhæft sjónarhorn á hugarheim einhleypra, íslenskra kvenna (not). Lilja, aðalsögu"hetjan" býr í gömlu, þriggja hæða, sjúklegaobboðslegaklikkaðslega bárujárnshúsi í miðbæ Reykjavíkur (dreym) sem búið er að gera upp (dreym). Íbúðin er á tveimur hæðum (dreym), gengið inn á aðalhæðinni og svo er kjallarinn nýttur sem eitt stórt rými fyrir svefnherbergi (dreeeym), risastórum sérsmíðum skápum (dreymdreym), tvískiptu fataherbergi og baðherbergi (dreymdreymDREYMDREEEEEYM):



Finnst útveggurinn með hleðsluáfeðinni á baðherberginu svo geðveikt kósý og töff og hann nær áfram inn í svefnherbergið sem er með dökkbleiku-ish þema.

Ég íhugaði að taka skjáskot af sýnishornum af svefnherberginu úr þáttunum sjálfum og eyddi ágætum tíma í að finna að rétta skjáskotið en a) það er líklega ekki löglegt og b) ég fann ekkert þar sem aðalpersónan var hagandi sér á viðeigandi hátt fyrir jafndömulega heimasíðu og bloggið mitt er. Fyrir áhugasama vil ég benda á að hreinlega horfa á þættina, þeir eru svosem ekkert mannskemmandi og frænkur mínar úr Pascal Pinon sjá meira að segja um tónlistina. 

Það á nú samt líklega engin sjónvarpsþáttaíbúð í íbúðina hennar Carrie í Sex and the City:


(Alveg magnað hvað stúdíóíbúðir eru stórar í Ameríkunni ;)

nú eða íbúðinni sem Monica og Rachel bjuggu í þegar þær léku í Friends:


og þó að ég sé með dálitla fóbíu fyrir skærum litum þá finnst mér íbúðin sem Penny leigir í Big Bang Theory alveg kreisí flott líka: 


... hún mætti nú samt alveg taka til greyið.

Að öðrum orðum átti ég alveg dásamlega helgi (eiginlega bara sólahring samt) með foreldrum mínum sem höfðu leigt bústað í Munaðarnesinu. Við prjónuðum, borðuðum góðan mat, tókum rúnt í Húsafell og borðuðum meiri góðan mat. Á leiðinni heim kom ég síðan við hjá vinafólki mínu og það setti algjörlega punktinn yfir i-ið hvað skemmtanagildi varðar. Eins á ég orðið hálferfitt með að sitja kyrr heima án þess að hugsa um jóladótið mitt sem er ennþá allt í felum inni í geymslu svo að það var gott að yfirgefa íbúðina. En þetta styttist allt saman :)

Friday, October 18, 2013

kertaarinn

Mig hafði í einhver ár langað til þess að eignast kertaarinn. Var búin að gúggla af og til hingað og þangað arna til sölu og fann aðallega fólk sem hafði gert geigvænlega lukku á að kaupa notaða. Samt fann ég aldrei neitt sjálf, þ.e. neitt á "eðlilegu" verði. Þegar Dossa í Skreytum hús fann sinn varð ég náttúrulega vitstola yfir þessu öllu saman og setti leitina í fimmta gír. Þá fann ég meðal annars þennan (man því miður ekki hvaðan hann er og fljótlegt gúggl hjálpaði mér ekkert, sýnist viðkomandi vera hættur. En það virðist vera upphífandi bissness í þessu hjá öðrum svo örvæntið ekki):



Hann var klárlega í áttina og kostaði töluvert minna en undanfarar hans sem ég hafði rekist á, gott ef það var ekki 45 þúsund krónur. Eeeeen mér fannst hann ekki alveg nógu stór og fannst þetta vera dáldið dýrt, þó að þetta væri vissulega ódýrara en margt annað sem ég hafði rekist á á rannsóknarferðum mínum um netið.

Þannig að ég ákvað barasta að smíða míns eigins. Ég byrjaði á að teikna hann upp í SketchUp, gróflega, reiknaði svo út hæðir og breiddir og þvíumlíkt og skrifaði það skilmerkilega niður í Wordskjal. Þessi plögg fór ég síðan með niður í Byko ásamt smá afgangsbút sem ég átti af 2 cm MDF-i og vinir mínir þar söguðu niður fyrir mig það sem ég þurfti. Þar sem að hönnunin mín er ekki beint í minni kantinum þurfti ég náttúrulega að kaupa meira MDF og auðvitað endaði ég á að fara með meiri afgang með mér heim heldur en það sem ég hafði farið með í upphafi og ætlaði að vera ó svo klár að nýta. Allt í lagi með það, ég get alltaf búið til eitthvað úr því seinna. 



Litlu spýturnar eru afgangar með gríðarleg framtíðarplön sem verða vonandi framkvæmd sem fyrst :)

Ég plataði síðan unnusta vinkonu minnar til þess að koma og smíða arinninn saman fyrir mig. Hann skrúfaði allt saman ásamt því að líma öll samskeyti og boraði skrúfurnar niður svo að þær sjást ekki eftir sparstl. Það var alveg ágætis handavinna og tók einhverja klukkutíma en hófst að lokum og þegar hann fór stóð þetta ferliki í stofunni minni:


Til þess að þið áttið ykkur betur á stærðinni er ég hér með höndina inni í bakhlutanum öðrum megin, þetta er alveg flennistórt:



Snemmendis daginn eftir plataði ég svo pabba til þess að koma og kenna mér að spars...t...sla(?) ásamt því að aðstoða mig við að festa upp skrautlistana. Skrautlistarnir eru einfaldlega kverklistar úr frauðplasti sem ég keypti í Húsasmiðjunni (það voru til nokkrar tegundir). Sökum stærðar þurfti ég alls þrjá slíka. Nú þegar búið var að sparstla tvisvar og festa listana upp leit gripurinn einhvern veginn svona út:



Og þá þurfti ég að bíða fram á miðnætti en þá mátti ég byrja að mála. Ég málaði með lakki úr Húsasmiðjunni - það er svo agalega sniðugt að því leytinu til að það er grunnur í því og þess vegna á kona að geta byrjað að mála án þess að þurfa að eyða of miklum tíma í tímafreka undirbúningsvinnu. Eftir um það bil tveggja tíma vinnu áttaði ég mig nú samt á því að víst hefði ég þurft að grunna af því að MDF-ið drekkur svo endalaust í sig, sérstaklega á samskeytum og brúnum og þar var í rauninni eins og ég hefði bara gleymt að fara yfir:



Alveg ágætlega pirrandi svona þegar maður ætlar að klára allan heiminn yfir blánóttina. En ég reyndi að segja mér að þar sem ég hefði beðið eftir þessu svona lengi hlyti ég að geta beðið aðeins lengur. Morguninn eftir hringdi ég síðan (snöktandi) í pabba sem kom og hjálpaði mér að sparstla meira og meira, meira í dag en í gær og þá vorum við komin á þetta stig:



Þá fóru hlutirnir að gerast örlítið hraðar og ég gat andað léttar. Eftir að hafa leyft greyinu að þorna, kaupa aðra dós af lakkinu og fara enn eina umferðina yfir í viðbót leit hann svona út:


(Hann er rennblautur á myndinni þó að það sjáist ekki, ég gat bara ekki beðið með að monta mig af honum lengur en það). Ég leyfði honum svo að þorna í einhverja daga áður en ég byrjaði að hlaða dóti á hann. Í dag, nokkrum mánuðum og ca milljón breytingum síðar, lítur dásemdin svona út:


Þarna er ýmislegt í gangi. Svo að ég lýsi því svona eins og þetta sé hópmynd af grunnskólabörnum - aftari röð frá vinstri: Tveir iittala pokar í römmum frá Ikea, pokana fékk ég hjá Gogga Hannah þegar ég datt í ljósanæturtilboð frá þeim um daginn. Við hliðina á þeim er svo strigakransinn góði. Fremri röð frá vinstri: Minni gerðin af kertastjaka keyptur í Púkó & Smart, minningabox úr gleri frá MyConceptstore, X-ið er keypt í Ilva og kórónan fallega fannst í Blómastofu Friðfinns. Luktirnar fann ég í fyrirheitna landinu - Ikea (og kostuðu skít á priki miðað við verð annars staðar). Í stærri luktinni eru sjálftýndir könglar og lítill hnöttur úr Púkó & Smart.

Kertin í arninum sjálfum eru síðan dáldið héðan og þaðan og ég verð að viðurkenna að ég kveiki mjög sjaldan á svona mörgum í einu því það kemur svo mikill hiti frá þeim. Vonandi breytist það eftir að það verður kaldara í veðri. Kertabakkinn og glervasinn eru úr Ikea og spýtukubbana keypti ég í Húsasmiðjunni. Ég er síðan bara með hitt og þetta þarna, núna er ég með litlar krukkur undan rifsberjasultu sem ég fékk með jólagjöfinni minni í vinnunni með sprittkertum í og krukku undan salsa með litlu kubbakerti. Oft enda þarna kubbakerti sem eru orðin of lítil til að hafa í stjaka og er samt hægt að brenna ponsumeira.

Innkaupalisti fyrir kertaarinn:
- 2 cm MDF 14,000 kr.
- Kverklistar 1,200 kr. stykkið
- Spartsl (fríkeypis frá pabba en ugglaust ekki svo dýrt)
- Kítti 1,500 kr. ca
- 2 dósir CombiColor lakk (þyrfti væntanlega minna ef grunnað er áður) 3,995 kr. dósin
- Pensil og tilheyrandi verkfæri fyrir spartsl og kítti átti ég til eða fékk fríkeypis hjá pabba
- Þolinmæði

Allt í allt kostaði þetta rétt undir 30,000 kr. sem er mjög vel sloppið miðað við aldur og fyrri störf. Fyrir handlagna er þetta lítið mál og í raun bara skemmtilegt helgarverkefni fyrir fjölskylduna. Áhugasamir mega endilega hafa samband við mig til þess að fá teikningarnar mínar ef þeir vilja :)

24.10.14: setti teikningarnar mínar barasta hingað: gussi.is/kertaarinn/mál.pdf og hér er skýringarmynd sem hjálpaði mér mikið: http://gussi.is/kertaarinn/kertaarinn.jpg - ég bið ykkur um að dreifa ekki teikningunum heldur benda fólki frekar á að þær séu hér svo að ég fái ókeypis flettingar í staðinn og þá verða allir glaðir :)