Saturday, February 28, 2015

döpur í hjarta

Stalst í smá leiðangur (á internetinu auðvitað) með það í huga að splæsa í nokkur naglalökk. Engin af þeim sem mig langaði í voru til. Alveg alls engin. Veit ekki hvort ég á að gráta eða gleðjast yfir því hvað ég hlýt að vera með góðan smekk.

Nenniði að slefa aðeins með mér takk.





Eins og gefur mögulega að sjá eru þau öll eiginlega alveg eins. Samt ekki. Alls ekki.

Ég fæ engar prósentur af þessu en ég get í alvöru ekki lofsamað þetta naglalakk nóg. Ég er alls ekki góð í að setja á mig naglalakk sjálf (er samt öll að koma til sko) en þetta er á svo allt öðru kalíberi en önnur lökk. Finnst það ekkert síðra en OPI og samt er það tvisvar sinnum ódýrara. Það eina sem ég hef út á það að setja er að burstinn er helst til lítill miðað við já OPI en ég er alveg tilbúin til þess að láta það slæda.

Fann samt alveg nokkur í staðinn fyrir þessi sem mig langaði í. Engar áhyggjur.

Sjitt hvað það er hættulegt að vera svona ein heima á kvöldin.

Wednesday, February 11, 2015

ég skal naglalakka allan heiminn elsku mamma

Ég er mikill aðdáandi naglalakka og eflaust skipta þau nokkrum tugum sem ég á og ég nota í alvöru undarlega mikið af þeim. Heilu kvöldin fara oft í að finna fallegar samsetningar á hinum ýmsu lökkum og svo afrekaði ég fyrir jól að læra að setja alls konar skraut á neglurnar líka. Mjög notalegt að dunda við þetta á meðan ég horfi á eitthvað í sjónvarpinu eða hlusta á Taylor Swift.

Ég er líka mikill aðdáandi þess að eiga lykla að íbúð og ég nota þá jafnvel oftar en ég nota naglalökkin mín. Bæði til þess að komast inn í sameignina og svo líka til þess að komast inn í sjálfa íbúðina. Til þess nota ég sitthvorn lykilinn - sem kemur sér mögulega bara ágætlega þar sem það eru aðrir íbúar í blokkinni og þeir eru líka með lykil að sameigninni. Annars kæmust þeir sko ekkert inn til sín.

Allavega. Þessir tveir lyklar voru alveg eins, eða þú veist, allt að því, og það var ekki alveg að henta mér komandi heim að pissa á mig eða með fangið fullt af pokum úr Bónus (ókei þetta síðasta er svo mikil lygi, ég versla ekki lengur í Bónus heldur Krónunni) (og unnustinn ber alltaf alla poka, hann krefst þess. Því hann er karlmaður). Ótalmörgum sinnum hef ég staðið við aðra hvora hurðina skjálfandi úr kulda að reyna að átta mig á því hvorn lykilinn ég ætti að nota. Nánast jafnoft hef ég klúðrað því og í um það bil helming skiptanna hef ég misst lyklakippuna í gólfið / jörðina af bræði.

Mér datt þess vegna í hug að sameina þessar tvær ástríður í lífi mínu: naglalökk og lykla.

Var þetta mjög fyrirsjáanlegt?



Svarti lykillinn er með Totally in the dark by OPI - svart með svörtu glimmeri, ég sendi fólk sko til útlanda að fjárfesta í því fyrir mig.
Bleiki lykilinn er mikið bleikari en á myndinni, hann er með bleiku/kopar glimmernaglalakki frá Barry M (fyrir naglalakksaðdáendur verð ég að benda á www.fotia.is - þetta eru ÆÐISLEG lökk, þorna ótrúlega hratt og eru svo falleg og á mjög viðráðanlegu verði). Vildi aðeins meira glimmer en var fyrir svo að ég fór tvær umferðir yfir með bleiku lakki sem Rut mín keypti handa mér í París.
Hvíti lykillinn er með Solitaire by OPI - uppáhaldsnaglalakkið mitt þessa dagana (mjög hentugt í Frozen þemaðar neglur (let it gooooo)) en það fór því miður ekki nógu vel á lyklinum og ég ætla aðeins að endurhugsa það við tækifæri.
Fjólublái lykilinn er með First Class Desires by OPI - ég vil virkilega fá að vera með í þessari nefnd sem finnur öll þessi nöfn fyrir OPI naglalökk. Gæti örugglega komið með frábærar hugmyndir.



Er bara ágætlega sátt með útkomuna. Byrjaði fyrst á að frístæla þetta bara en fattaði svo að það er langbest að setja límband á þann partinn af lyklinum sem fer inn í skráargatið. Bæði svo að skilin á naglalakkinu séu snyrtilegri og eins svo að það kroppist síður af þegar kona notar lykilinn.

Bauð unnustanum í framhaldi af þessu að fara yfir hans lykla en hann vildi meina að ég ætti ekki rétta litinn fyrir hann (ósýnilegan og óáþreifanlegan). Pfff.

Íbúðin er öll að koma til. Fórum þriðju ferðina okkar á Sorpu í gær og það létti ótrúlega mikið á öllu. Fæ vinkonur mínar í frumsýningu hingað á föstudaginn og hlakka mikið til (ekki bara af því að við erum að fara á 50 shades of Grey). Birti mögulega djúsí myndir af að minnsta kosti stofunni í næstu færslu.

Ókei bæ.

Wednesday, February 4, 2015

ef ég nenni

Smá update af ruslahaugnum í Breiðholtinu. Já, þetta er ennþá ruslahaugur. Já, ég hlakka til að þetta verði ekki ruslahaugur. Já, ég nenni ekki að taka upp úr fleiri kössum.

Sem er afar sérstakt í ljósi þess að það eru eiginlega bara skemmtilegir kassar eftir. Þið vitið, kassar merktir Random House Doctor dót og Kertastjakar og Hnettir og Fleiri kertastjakar og og og (Iittala dótið var sko borið hingað inn fyrst af öllu og er sko löngu komið upp inn í glerskáp).

Það eina sem ég nenni að gera er að þvo þvott. Þvottavélin okkar og (nýi) þurrkarinn eru í sameignarþvottahúsinu sem er á sömu hæð og við og bara sex skref í burtu. Allar hinar íbúðirnar eru með tengi fyrir þvottavél svo að þetta er í raun mitt eigið 20 fermetra þvottahús með milljón snúrum. Bjóst við því að ég myndi ekki sofa fyrir því að vita af blautum þvotti í allra augnsýn en þetta vandist afskaplega fljótt. Fyrir utan að ég einhvern veginn efast ákaflega um að fólk hafi almennt áhuga á að skoða annarra manna handklæði og boli (ég fer sko með nærfötin hingað inn og skelli þeim bara á næsta ofn, það er alltílæ).

Svo að það er allt saman mjög spennandi.

Ég myndi birta myndir af ástandinu en það er of depressing og ég skammast mín dálítið fyrir það. Sér í lagi fyrir sængurnar úr gestarúminu sem eru alveg óvart búnar að finna sér stað í öðrum sófanum (hinn er ennþá fullur af kössum) - þær eru samt löglega afsakaðar þar sem verðandi húsbandið er veikt og skelfur af kulda sama hvaða hitastig er hérna inni.

Síðast þegar hann varð veikur - fyrir rétt rúmum mánuði síðan - bað hann mín.

Ég bíð spennt eftir að sjá hvað gerist núna.

- knús -