Friday, October 18, 2013

kertaarinn

Mig hafði í einhver ár langað til þess að eignast kertaarinn. Var búin að gúggla af og til hingað og þangað arna til sölu og fann aðallega fólk sem hafði gert geigvænlega lukku á að kaupa notaða. Samt fann ég aldrei neitt sjálf, þ.e. neitt á "eðlilegu" verði. Þegar Dossa í Skreytum hús fann sinn varð ég náttúrulega vitstola yfir þessu öllu saman og setti leitina í fimmta gír. Þá fann ég meðal annars þennan (man því miður ekki hvaðan hann er og fljótlegt gúggl hjálpaði mér ekkert, sýnist viðkomandi vera hættur. En það virðist vera upphífandi bissness í þessu hjá öðrum svo örvæntið ekki):



Hann var klárlega í áttina og kostaði töluvert minna en undanfarar hans sem ég hafði rekist á, gott ef það var ekki 45 þúsund krónur. Eeeeen mér fannst hann ekki alveg nógu stór og fannst þetta vera dáldið dýrt, þó að þetta væri vissulega ódýrara en margt annað sem ég hafði rekist á á rannsóknarferðum mínum um netið.

Þannig að ég ákvað barasta að smíða míns eigins. Ég byrjaði á að teikna hann upp í SketchUp, gróflega, reiknaði svo út hæðir og breiddir og þvíumlíkt og skrifaði það skilmerkilega niður í Wordskjal. Þessi plögg fór ég síðan með niður í Byko ásamt smá afgangsbút sem ég átti af 2 cm MDF-i og vinir mínir þar söguðu niður fyrir mig það sem ég þurfti. Þar sem að hönnunin mín er ekki beint í minni kantinum þurfti ég náttúrulega að kaupa meira MDF og auðvitað endaði ég á að fara með meiri afgang með mér heim heldur en það sem ég hafði farið með í upphafi og ætlaði að vera ó svo klár að nýta. Allt í lagi með það, ég get alltaf búið til eitthvað úr því seinna. 



Litlu spýturnar eru afgangar með gríðarleg framtíðarplön sem verða vonandi framkvæmd sem fyrst :)

Ég plataði síðan unnusta vinkonu minnar til þess að koma og smíða arinninn saman fyrir mig. Hann skrúfaði allt saman ásamt því að líma öll samskeyti og boraði skrúfurnar niður svo að þær sjást ekki eftir sparstl. Það var alveg ágætis handavinna og tók einhverja klukkutíma en hófst að lokum og þegar hann fór stóð þetta ferliki í stofunni minni:


Til þess að þið áttið ykkur betur á stærðinni er ég hér með höndina inni í bakhlutanum öðrum megin, þetta er alveg flennistórt:



Snemmendis daginn eftir plataði ég svo pabba til þess að koma og kenna mér að spars...t...sla(?) ásamt því að aðstoða mig við að festa upp skrautlistana. Skrautlistarnir eru einfaldlega kverklistar úr frauðplasti sem ég keypti í Húsasmiðjunni (það voru til nokkrar tegundir). Sökum stærðar þurfti ég alls þrjá slíka. Nú þegar búið var að sparstla tvisvar og festa listana upp leit gripurinn einhvern veginn svona út:



Og þá þurfti ég að bíða fram á miðnætti en þá mátti ég byrja að mála. Ég málaði með lakki úr Húsasmiðjunni - það er svo agalega sniðugt að því leytinu til að það er grunnur í því og þess vegna á kona að geta byrjað að mála án þess að þurfa að eyða of miklum tíma í tímafreka undirbúningsvinnu. Eftir um það bil tveggja tíma vinnu áttaði ég mig nú samt á því að víst hefði ég þurft að grunna af því að MDF-ið drekkur svo endalaust í sig, sérstaklega á samskeytum og brúnum og þar var í rauninni eins og ég hefði bara gleymt að fara yfir:



Alveg ágætlega pirrandi svona þegar maður ætlar að klára allan heiminn yfir blánóttina. En ég reyndi að segja mér að þar sem ég hefði beðið eftir þessu svona lengi hlyti ég að geta beðið aðeins lengur. Morguninn eftir hringdi ég síðan (snöktandi) í pabba sem kom og hjálpaði mér að sparstla meira og meira, meira í dag en í gær og þá vorum við komin á þetta stig:



Þá fóru hlutirnir að gerast örlítið hraðar og ég gat andað léttar. Eftir að hafa leyft greyinu að þorna, kaupa aðra dós af lakkinu og fara enn eina umferðina yfir í viðbót leit hann svona út:


(Hann er rennblautur á myndinni þó að það sjáist ekki, ég gat bara ekki beðið með að monta mig af honum lengur en það). Ég leyfði honum svo að þorna í einhverja daga áður en ég byrjaði að hlaða dóti á hann. Í dag, nokkrum mánuðum og ca milljón breytingum síðar, lítur dásemdin svona út:


Þarna er ýmislegt í gangi. Svo að ég lýsi því svona eins og þetta sé hópmynd af grunnskólabörnum - aftari röð frá vinstri: Tveir iittala pokar í römmum frá Ikea, pokana fékk ég hjá Gogga Hannah þegar ég datt í ljósanæturtilboð frá þeim um daginn. Við hliðina á þeim er svo strigakransinn góði. Fremri röð frá vinstri: Minni gerðin af kertastjaka keyptur í Púkó & Smart, minningabox úr gleri frá MyConceptstore, X-ið er keypt í Ilva og kórónan fallega fannst í Blómastofu Friðfinns. Luktirnar fann ég í fyrirheitna landinu - Ikea (og kostuðu skít á priki miðað við verð annars staðar). Í stærri luktinni eru sjálftýndir könglar og lítill hnöttur úr Púkó & Smart.

Kertin í arninum sjálfum eru síðan dáldið héðan og þaðan og ég verð að viðurkenna að ég kveiki mjög sjaldan á svona mörgum í einu því það kemur svo mikill hiti frá þeim. Vonandi breytist það eftir að það verður kaldara í veðri. Kertabakkinn og glervasinn eru úr Ikea og spýtukubbana keypti ég í Húsasmiðjunni. Ég er síðan bara með hitt og þetta þarna, núna er ég með litlar krukkur undan rifsberjasultu sem ég fékk með jólagjöfinni minni í vinnunni með sprittkertum í og krukku undan salsa með litlu kubbakerti. Oft enda þarna kubbakerti sem eru orðin of lítil til að hafa í stjaka og er samt hægt að brenna ponsumeira.

Innkaupalisti fyrir kertaarinn:
- 2 cm MDF 14,000 kr.
- Kverklistar 1,200 kr. stykkið
- Spartsl (fríkeypis frá pabba en ugglaust ekki svo dýrt)
- Kítti 1,500 kr. ca
- 2 dósir CombiColor lakk (þyrfti væntanlega minna ef grunnað er áður) 3,995 kr. dósin
- Pensil og tilheyrandi verkfæri fyrir spartsl og kítti átti ég til eða fékk fríkeypis hjá pabba
- Þolinmæði

Allt í allt kostaði þetta rétt undir 30,000 kr. sem er mjög vel sloppið miðað við aldur og fyrri störf. Fyrir handlagna er þetta lítið mál og í raun bara skemmtilegt helgarverkefni fyrir fjölskylduna. Áhugasamir mega endilega hafa samband við mig til þess að fá teikningarnar mínar ef þeir vilja :)

24.10.14: setti teikningarnar mínar barasta hingað: gussi.is/kertaarinn/mál.pdf og hér er skýringarmynd sem hjálpaði mér mikið: http://gussi.is/kertaarinn/kertaarinn.jpg - ég bið ykkur um að dreifa ekki teikningunum heldur benda fólki frekar á að þær séu hér svo að ég fái ókeypis flettingar í staðinn og þá verða allir glaðir :)

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)