Saturday, November 9, 2013

förum í bað!

Ég er búin að eiga alveg yndislega en mjög busy viku meðal annars við að undirbúa íbúðina fyrir inspectióné frá yndislegubestudúllusamstarfskonum mínum sem komu hingað á fimmtudaginn. Við áttum saman alveg ótrúlega skemmtilegt kvöld þar sem var borðað, drukkið og hlegið saman eins og okkar er von og vísa. Hápunktur kvöldsins var síðan þegar yngismær Sigríður Klingenberg mætti á svæðið (heim til MÍN!), fékk okkur til þess að hlæja, læra hluti um okkur sjálfar og lífið almennt. Það var sko mjög sátt-við-lífið Ingunn sem fór að sofa það kvöld (og ekki-alveg-jafn-sátt-við-lífið Ingunn sem vaknaði daginn eftir en við förum ekki að eyða púðri í það, stundum þarf maður bara að fá lánað af skemmtilegheitum næsta dags til þess að hafa extra gaman).

Í undanhaldi þessarar heimsóknar var ég semsagt örlítið búin að umvelta íbúðinni, samt alveg á lógískan hátt, og hápunktur þess voru líklega breytingarnar á baðherberginu. Aðallega samt af því að ég var búin að hugsa um þær svo lengi. Eins og áður hefur komið fram bý ég á gamla herstöðvarsvæðinu í (amerískri) leiguíbúð og þess vegna er mjög takmarkað það sem ég má gera við íbúðina. Baðherbergið hefur af þessum ástæðum verið dálítið vandræðasvæði, innréttingarnar þar eru ekki að gera frábæra hluti fyrir augun og gólfdúkurinn þar orðinn dálítið þreyttur. En allt samt ágætlega með farið og þetta því frekar mikið lúxusvandamál.

Þegar ég flutti hingað inn 2009 var ég með svart, rautt, grátt og hvítt (og stöku brúnt) þema í íbúðinni, baðherbergið varð því svona:


Ekkert eitthvað æðislegt en þetta dugði ágætlega. Silfurlitaða sturtuhengið er úr hinni amerísku (viðeigandi!) Target (berið þið þetta ekki líka fram Tarsjei?), vinkona mömmu keypti það fyrir mig á sínum tíma. Svo var ég með vínrauð handklæði bæði á handklæðahringnum við hliðina á vaskborðinu og á handklæðisstönginni á veggnum þar á móti (sést í speglinum, handklæðið ekki mætt á svæðið þegar myndin var tekin). Litlu rauðu glösin við hliðina á vaskinum eru úr eldhúsdeild Ikea - þau bættust nú fljótlega tvö við, annað fyrir litlar spennur og hárdóterí og hitt fyrir kerti og það var hinum megin við vaskinn. Á veggnum fyrir ofan vaskinn er svo (einstaklega óspennandi) lítil skál fyrir gamaldags sápustykki (notar einhver svoleiðis ennþá í alvöru?!) og svona krókur fyrir glas sem mér fannst heldur óspennandi. Þarna geymi ég meira af dóteríi fyrir hárið, stórar spennur og hárspangir og sona (til þess að leggja áherslu á rauða litinn var ég með eina rauða spöng efst, hinar voru síðan svartar og silfraðar). Á speglinum var ég síðan með lítil plastblóm keypt í Cabo, blómabúð í Keflavíkinni, fest á með sogskálum og því afar hentug fyrir baðherbergi. Meira var það ekki. Dugði ágætlega og var alveg vel krúttlegt.

Þetta hélst svo svotil óbreytt allt þar til núna um daginn, ég var jú einhvern tímann búin að reyna að koma hillu þarna inn til þess að geta haft eitthvað skrautdóterí og handklæði svona til sýnis en það var engan veginn pláss fyrir hana svo hún fékk annað hlutverk síðar. Svo hengdi ég jú mynd á vegginn við hliðina á hurðinni með ljóði um baðferðir eftir Tolkien (Pippin og Merry syngja það að hluta til í Fellowship of the Ring, annars birtist það allt í bókunum). Fannst það mjög við hæfi:



Sing hey! for the bath at close of day 
that washes the weary mud away! 
A loon is he that will not sing: 
O! Water Hot is a noble thing! 

O! Sweet is the sound of falling rain, 
and the brook that leaps from hill to plain; 
but better than rain or rippling streams 
is Water Hot that smokes and steams. 

O! Water cold we may pour at need 
down a thirsty throat and be glad indeed; 
but better is Beer if drink we lack, 
and Water Hot poured down the back. 

O! Water is fair that leaps on high 
in a fountain white beneath the sky; 
but never did fountain sound so sweet 
as splashing Hot Water with my feet!


Ég splæsti þessu í tvö erindi, vona að Tolkien fyrirgefi mér það.

Fyrir breytingarnar hafði ég aðallega hugsað mér að svissa rauða litnum út fyrir fjólubláan sem ég er orðin hrifnari af ásamt hvítu, silfruðu og alls konar glerdóteríi. Útkoman varð þessi:


(já, klósettið er bandarískt með öllu sem fylgir því ;)

Á baðkarinu eru fjórir allskonar kertastjakar bæði silfraðir og úr gleri:



Jebb, fúgan er orðin dáldið mikið óspennandi en kertin koma með rosalega notalega birtu og þetta er allt saman ágætlega huggulegt í fjarska, er svona fjarskafallegt ;)


Öll heimili eru með baðendur - mínar eru svartar dívur ;)

Á borðinu er síðan alveg hellingur af góssi:


Þriggja hæða krukkan er úr Blómaval. Í næstu krukkunni eru skeljar og dót sem ég týndi í fjörunni keypti í Ikea, miðjukrukkan geymir bómullarhnoðra og í þeirri efstu eru eyrnapinnar (passa að kaupa hvíta í staðinn fyrir bláa, oj). Ofan á krukkunni batt ég perlur á vír bara með gúmmíteygju og ofan á festi ég afmæliskertahring frá Bility sem ég vann í facebook leik (já, það er hægt að vinna svoleiðis!):


Gerir mikið fyrir glamúrinn. Svo eru þarna tveir kertastjakar, önnur stjarna eins og er á baðkarinu og annar fjólublár sem ég elska með öllu hjartanu mínu og krukka á fæti úr Ikea fyrir litla hárdóteríið, kemur með loki en ég sleppti því bara, fannst það óþarfi.


Bara draumur sko! Ég svissaði rauðu hárspönginni út fyrir fjólubáa, tannburstaglasið er úr jóladeild Ikea með þykjustu rókókómunstri, fjólubláa kertið og skálin sem það er í er líka úr Ikea og Bathe stafina fékk ég gefins en þeir eru úr Primark, voru hvítir en ég spreyjaði þá svarta. 

Í staðinn fyrir sogskálablómin á speglinum eru þar núna litlu fiðrildin mín, þau sömu og ég skreytti strigakransinn minn og spegilinn inni í svefnherbergi með (ég á endalaust af þeim!). Handklæðin eru síðan fjólublá og fengust í Rúmfatalagernum, einfaldara gat það ekki verið.

Lokapunkturinn yfir i-ið er líklegast sætasta kanna í heiminum sem ég er með í láni frá vinkonu minni, hún er ofan á skápnum með lítilli glærri seríu að knúsa sig:


Ljósaseríur eru náttúrulega brill, sérstaklega þegar þú getur annað hvort haft kveikt á öllum ljósunum og háværustu viftu í heiminum eða bara engum ljósum. Þá kýs ég engin ljós og seríu, takk.

Mér fannst þetta herbergi orðið svo agalega óspennandi en er svona nokkurn veginn búin að taka það í sátt núna, í það minnsta er ég að fara í gegnum þriðja umganginn af kertum þarna inni síðan ég breytti þessu og það hlýtur að þýða eitthvað!

Framundan er svo huggulegt kvöld með henni Önnu minni og einhverjum velvöldum héðan. Hún kemur eftir klukkutíma svo að það er eins gott að ég fari að standa upp til þess að kveikja á öllum kertunum. Hafið það sem allra best yfir helgina :)

knús

6 comments:

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)