Monday, November 4, 2013

inn og út um gluggann

Ég er í einhvern tíma búin að vera með dálítið blæti fyrir "gluggum" sem búið er að skreyta með myndum og ljósum - svona svipuð og þessi hér sem frú Skreytum hús gerði (ég vísa mögulega oft í hana en það er bara af því að ég idolize-a hana). Hef nokkrum sinnum farið í Góða hirðinn og svipaðar búðir í leit að skáphurð en ekki gert neina lukku. Var svona eiginlega næstum því búin að ákveða að fara bara í Ikea og kaupa skáphurð af eldhúsinnréttingu - en svoleiðis prójéct hefði kostað í kringum tíuþúsundkall og ég ekki alveg að tíma því. Svo að ég brainstormaði lengilengilengi og íhugaði í smástund að stela b útgáfu af glugganum hennar Soffíu en fannst hann ekki nógu stór (surprise surprise) svo að ég ákvað að ég hlyti að geta bara fest saman tvo ramma og gert eitthvað úr þeim.

Það verkefni átti sér síðan stað á laugardaginn á milli þess sem ég þreif íbúðina í drasl (já, það er hægt) þar sem yndislegu samstarfskonurnar mínar ætla að mæta hingað til mín á fimmtudaginn ásamt Siggu Kling og mikið sem ég hlakka til þess! Deginum áður hafði ég nefnilega farið í smá leiðangur í Reykjavíkina með tveimur af þessum áðurnefndu yndislegu samstarfskonum og við duttum í smá versl: 



(þetta er ekki það mikið í alvuru, bíllinn er bara svo lítill)

Eftir þessa frábæru verslunarferð var ég svo full af innblæstri og fannst pínu eins og ég gæti bara allt. Þegar ég vaknaði svo daginn eftir hress og kát byrjaði ég á að finna til það sem ég þurfti - og já, það besta við þetta var að ég átti til allt sem þurfti í þessa dásemd:

- Afgangur af kverklistum úr kertaarni
- Tveir myndarammar úr Ikea
- Garn
- Sprey
- Lím (ég notaði trélím)
- Svart einangrunarteip
- Málband
- Youtube playlisti með Bing Crosby jólalögum (þó ekki nauðsynlegt)

Meira og flóknara var það ekki! Ég byrjaði á að líma rammana langsum saman og batt þá lauslega með garni svo að þeir myndu ekki detta í sundur og leyfði líminu að þorna í smástund. Þegar þeir voru orðnir ágætis vinir og fóstbræður skar ég kverklistana til, límdi þá á líka og batt utan um þá meira af garni. Ég hefði tekið myndir af þessu ferli en ég hélt í alvöru að þetta myndi bara alls ekki heppnast og þess vegna gerði ég það ekki.

Nújæja. Þegar límið var allt saman þornað klippti ég af garnbútana og batt í staðinn (fallega) garn utan um samskeytin á hornunum - bæði til þess að óbeint skreyta og líka svo að þetta myndi örugglega allt haldast saman af því að kverklistarnir eru bara úr frauðplasti og mega því ekki við miklu hnjaski. Það tók ágætan tíma og þurfti alveg töluverða þolinmæði til - sér í lagi þar sem ég var þegar þarna var komið við sögu orðin heldur skeptísk á að það kæmi eitthvað fallegt út úr þessu. Nú þegar garnið var komið á sinn stað lagði ég gluggann ofan á föndurborðið mitt og spreyjaði og spreyjaði og spreyjaði og spreyjaði. Beið svo í smástund, kannski hálftíma, og spreyjaði svo aðeins meira. Þetta átti sér allt saman stað hérna inni í draugaherberginu, ég lokaði bara og vonaði svo að ég myndi ekki deyja úr einhvers konar eitrun (ég virðist stálslegin eftir allt saman). Þegar ég tók fyrstu myndina sá ég samt að loftið hérna inni var mögulega ekki það allra heilnæmasta:


En það blæddi ekkert úr augunum á mér eða neitt svo að allt fór vel. Þarna var farin að koma ágætis mynd á verkið og ég farin að öðlast að minnsta kosti smávegis trú á þessu svo að ég tók þessa mynd til þess að setja á Instagram og láta umheiminn vita að ég væri að gera eitthvað kúl, því alltaf þegar maður gerir eitthvað kúl lætur maður internetið vita af því:


Þarna eru semsagt límið, spreybrúsinn og garn í krukku að leika saman og bíða eftir að fyrri umferðin af spreyinu þornaði. Á meðan ég beið eftir að seinni umferðin þornaði tók ég síðan glerið úr römmunum (það var að vísu bara plast, en ókei), þreif það ofsa ofsa vel og festi síðan einangrunarteipið í kross. 

Nú þegar allt var komið á sinn stað var ég komin með þetta:


Var samt ekki aaalveg viss um þetta, og sá svolítið eftir að hafa vafið garninu svona þétt á milli rammanna (þorði ekki öðru því ég nennti ekki að það myndi allt detta í sundur) þó að það væri mjög fallegt fyrir augun. Þessi flúorljósasería er líka ekkert að gera neina frábæra hluti - ég mátaði hana bara við til þess að sjá hvernig það kæmi út. 

Áðan fann ég síðan nokkrar fallegar myndir með einföldu gúggli, prentaði þær út og klippti til. Þá hafði ég ákveðið að glugginn ætti að vera inni í svefnherbergi og þess vegna valdi ég dömulegar myndir af perlum og englum ásamt einu hreindýri sem var svo kjút eitthvað að það varð að fá að vera með (leitarorð t.d. "vintage pearls"). Ég festi myndirnar síðan bara með límbandi, mjög simpelt, og auðvelt að skipta þeim út ef maður fær ógeð.

Þegar hér er komið við sögu verð ég að segja ykkur aðeins frá litla Mírustofuborðinu mínu. Það fékk ég gefins af Barnalandinu góða - meira að segja úr Innri Njarðvík svo að ég gat nánast skokkað og náð í það (right). Það hafði verið lakkað háglans svart (mjög líklega með sama eða að minnsta kosti svipuðu lakki og ég lakkaði allt dóteríið mitt) svo að það var mjög í stíl við allt hérna. Samt tókst mér aldrei almennilega að finna rétta staðinn fyrir það, það eyddi einhverjum tíma hér inni í draugaherbergi þegar ég var með sófa hérna ásamt tölvunni minni og það sem tilheyrir henni, en eftir að ég breytti draugaherberginu í föndurherbergi (samt heitir það ennþá draugaherbergi) og skilaði af mér sófanum hafði það ekkert hlutverk lengur. Ég ákvað þá að (pabbi myndi) saga það í tvennt:

<3

Þannig eignaðist ég skóhillu og lágt hliðarborð svoleiðis algjörlega fríkeypis. Og hef meira að segja notað miðjustykkið til þess að tylla hlutum á þegar ég er að mála eða spreyja eitthvað. Hef sjaldan vitað eitt lítið borð með jafngott notagildi.

Semsagt, á þessu litla hliðarborði hefur glugginn nú eignast heimili:


Með honum eru (eðlileg) glær ljósasería, vasi sem ég fékk í jólagjöf fyrir löngu en er úr The Pier, tveir klassískir kertastjakar úr Ilva og gerviblóm sem gott ef ekki var ættleitt úr Ilva líka. Ég verð að segja að ég er bara dáldið mikið sátt við þetta fyrirkomulag. 

Glugginn er samt ágætis dæmi um hlutir sem eru fallegri í fjarska og rökkri og ég hefði hugsanlega gert þetta öðruvísi hefði ég vita að þetta kæmi svona vel út (mjög lógískt). Hér má t.d. sjá samskeyti í birtu og með úberflassi:

 

... á mögulega eftir að fara betur yfir hér og þar með svörtum tússpenna

Hér sést svo miðjuspýtan, vafin léttlopa:



Ég hefði miðjukverklistabútinn viljandi svona mikið ofar - ef maður lætur listann alls staðar sitja akkúrat ofan á myndarammanum eru þeir staðsettir svona og mér fannst fallegra að láta endalistana ekki ná alveg upp. Íhugaði í smástund að skera 45° samskeyti þannig að þau myndu sjást minna en ákvað svo að ég hefði ekki þolinmæði í það.

En hey, fyrir hálfsdagsprójéct sem kostaði "ekkert" hef ég ákveðið að vera barasta hæstánægð með gripinn:


með flassi ...


... og ekki með flassi

Það er náttúrulega nánast alltaf slökkt á ljósunum hérna nema ef ég er að prjóna eitthvað sérstaklega viðkvæmt því mér finnast ljós frá lömpum svo mikið notalegri - hef fengið athugasemdir um að ég búi í helli oftar en einu sinni - en það er alltílæ, það er mjög kósý í hellinum mínum :)

Að lokum kemur síðan mynd af Hannesi, afmælisbarni dagsins:
(ókei, hann átti afmæli á laugardaginn)


Eins og glöggir sjá er myndin tekin í Ikea en við fórum þangað rétt eftir afmælið mitt á síðasta ári, þegar jólin mín þar voru nýbyrjuð. Eins og glöggir mögulega sjá líka finnst Hannesi ekki gaman í Ikea né hefur hann gaman af jólunum, hvað þá jólunum í Ikea. Þrátt fyrir að jólin og Ikea séu svona um það bil hnotskurn alls þess sem er skemmtilegt í heiminum að mínu mati höfum við nú samt náð að gera ýmislegt skemmtilegt saman (oftast er hún Anna hans með) og hann hefur kennt mér mjög margt - án hans myndi ég til dæmis ekkert vita af hverju Unnur er svona blá (mögulegur einkahúmor) og þess vegna get ég ekki hugsað mér betri leið til þess að enda þessa færslu.

Munið að gefa mér læk :)

knús

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)