Saturday, November 16, 2013

saga um stofu




Í dag ætlum við að taka lítinn rúnt um litlu stofuna mína:



Verð að biðja ykkur um að afsaka gæðin á myndunum, birtan hérna er svo fönkí og ég apparently kann ekki að stilla myndavélina í símanum mínum. En þetta gefur ykkur allavega svona almenna hugmynd af því hvernig stofan er. Ég er með tvo þriggja sæta sófa sem ég keypti notaða af vinkonu minni (held alveg örugglega að þeir séu upprunalega úr Tekk Company), massíva kistu á milli þeirra sem ég fann á Barnalandi en er upprunalega úr Míru, Klippan skemil úr Ikea með loðnu áklæði og svarta Expedit hillu. Kertaarinninn yfirgnæfir stofuna dálítið mikið en það var jú tilgangurinn með honum, I like it big :)

Þegar ég flutti hingað fyrst var þetta töluvert einfaldara þó að ég hafi næstum alltaf verið með þetta sófacombo, þ.e. að hafa þá samsíða og á móti hvorum öðrum, stofan er það stór að hún ber það mjög vel. Þessi mynd er tekin um það bil tveimur mínútum eftir að ég flutti inn:



Mjög simpelt, tveir Klippan sófar úr Ikea (annar keyptur notaður, hinn nýr, 5*5 Expedit hilla og Lack borð þarna í horninu. Ég sponsaði Ikea dáldið mikið á þessum tíma, meira að segja gardínurnar. teppin, púðarnir og lampinn eru þaðan líka. Á veggnum á móti stóru hillunni er síðan með sjónvarpið og fylgihlutir þess:


Þarna er skemillinn í horninu, túpusjónvarp sem vinkona mín gaf mér, heimabíóið og það sem fylgdi því (þetta setup krafðist tveggja DVD spilara, good times!) og út af einhverju hélt ég að það væri töff að hafa tvær blómamyndir úr Ikea ofan á Ribba hillunni ásamt DVD hulstri af Anchorman, Fast and the Furious, The Devil's Rejects og Dracula, Dead and Loving It. Ég hef alltaf verið með mjög handahófskenndan smekk á myndum og tónlist... Þarna við hliðina eru svo tveir dásamlegir kertastjakar sem ég keypti notaða á Barnalandi, fullt af bókum og eitthvað af geisladiskum. Finnst alveg ótrúlegt að það séu bara fjögur ár síðan þetta var tekið miðað við allar breytingarnar sem hafa átt sér stað síðan þá.

Þarna urðu litlar breytingar á þangað til að ég keypti sjónvarpið mitt 2011 en þá fyrst svissaði ég einhverjum kertastjökum og bara svona basic dóteríi:



Ég elska sjónvarpið mitt. Og já, þetta er mynd af þremur Macharielum úr Eve Online að fljúga yfir Ísland. Og já, þetta er bleikt jólatré. Bara basic.

Þarna var mig farið að klæja dáldið mikið í nýja sófa og þegar vinkona mín flutti búferlum til Bretlands bauð hún mér að kaupa sófana hennar sem ég greip fegins hendi. Þær breytingar mörkuðu líka upphaf gríðarlegs púðaæðis (sem virðist ekkert vera að fara) en þá keypti ég nýja púða á sófana, púða sem ég þurfti síðan að gefa þegar að upp komst um kattaofnæmið mitt, jeijjj. Á út af einhverju engar myndir af þessum tíma sem er mjög undarlegt því ég virðist hafa tekið myndir af nánast öllu sem hefur verið gert hérna inni.

Allavega. Þarna, í kringum 2012, var komið dálítið eirðarleysi í mig. Mig langaði í nýjan skenk undir sjónvarpið (Expedithillan er bara 1,49 á lengd og því lítið pláss til þess að skreyta) og að eiginlega bara breyta einhverju, stóra hillan var svo yfirþyrmandi og ég komin með ágætis ógeð á henni. Ég fann engan skenk á verði sem mér fannst eðlilegt og í lit sem ég var að fíla og var eiginlega búin að gefa þetta upp á bátinn þangað til að mér datt í hug einn fimmtudagseftirmiðdaginn að pússla hillunum aðeins til:


Ég tók utanumspýturnar af báðum hillunum og einfaldlega svissaði þeim þannig að hillurnar sem áður voru 5*5 og 2*4 urðu 4*5 og 2*5. Semsagt, stóra hillan varð einum kassa lægri og litla hillan varð einum kassa lengri. Ég sleppti síðan tveimur skilrúmum í litlu hillunni þannig að ég var loksins komin með nógu breiða hillu fyrir old fashioned dvd spilarann minn.

Þetta sumarið gerði ég líka tilraun til þess að eiga blóm... það var mjög fallegt í þessar þrjár vikur áður en ég drekkti fallegu orkídeunni minni :(


Ég hef ekki leyft nein blóm í íbúðinni eftir þennan harmleik.

Þessi mynd er síðan tekin núna í mars og sýnir stemmninguna svona ágætlega:


Þarna var ég út af einhverju að reyna aftur DVD myndirnar ofan á hillunni, held að þetta hafi virkað í kannski tvo daga. Þegar ég ákvað síðan að kertaarinninn yrði að raunveruleika fór ég í alþrif á stofunni, færði stóru hilluna inn í draugaherbergi og stofan varð allt í einu RISAstór... í nokkra daga. Þá ákvað ég að vera flippuð og prófa að raða sófunum í vinkil svona eins og flestallt fólk gerir (prófaði líka að snúa þessu um 90° en tók auðvitað enga mynd af því):



Næstum öllum nema mér fannst þetta meant to be en ég var ekki að meika allt þetta gólfpláss og fannst kósýfaktorinn hafa dottið niður fyrir frostmark og varð afar feginn þegar kertaarinninn var kominn á sinn stað og stofan aftur troðin húsgögnum. Sumsé!


Uppáhaldshúsgagnið mitt í íbúðinni fyrir utan kertaarinninn er klárlega kistan sem ég nota fyrir sófaborð. Hún er fyrsta húsgagnið sem ég keypti þegar ég flutti að heiman og mér finnst hún svo ofsalega mikið falleg þó að það sjái töluvert á henni:


Hún er í þannig stíl að það er alltílæ þó að hún sé rispuð. Eini mögulegi gallinn við hana er hvað það er lítið borðpláss á henni svo að þegar ég fæ fólk í heimsókn þarf það alltaf að vera að færa til bakkann sem er ofan á og þá svíður mig í augun. En ég lifi alveg með því.

Sitthvorum megin við sjónvarpsskenkinn (mikið er skenkur annars ljótt orð og ekki falleg íslenska) -hirsluna eru tvær DVD hillur úr Ikea, svartar. Ég á alveg ágætis magn af myndum og hef ekki enn fundið betra möguleika á geymsluplássi fyrir þær, nema ef ég myndi henda þeim í kassa. Horfi samt ennþá á einstaka mynd svo að ég vil geta nálgast þær þegar ég vil. Ribba hillan og sjónvarpshirslan eru akkúrat jafnlöng eftir lengingu hirslunnar svo að með DVD hillunum er þetta dálítið eins og eitt stórt júnit. Er ágætlega sátt með þetta, í bili að minnsta kosti.


Vinstra megin við sjónvarpið er ég með tvo krúttlega kertastjaka, annan úr Púkó & Smart og hinn barasta úr Blómaval. Þar fyrir aftan er karafla sem ég hef ennþá ekkert gert við en langar samt að hafa eitthvað í henni / á henni en hef einhvern vehinn ekki nennt að pæla í því þar sem það er svo stutt í að ég hendist í að taka upp jóladótið. Hægra megin er risastór krukka úr Púkó & Smart ásamt tveimur kertastjökum sem voru einu sinni krukkur undan Mango Chutney:



Bara svona lítið og krúttlegt, ég vil ekki hafa eitthvað áberandi þarna sem truflar sjónvarpsáhorf. Könglarnir eru truflað flottir og mér finnst svo frábært hvað það þarf ekkert að gera nema hella þeim í eitthvað ílát til þess að búa til lítið ævintýri.

Á hillunni fyrir neðan er síðan fallegi myndaramminn minn úr MyConceptstore kominn ásamt nýjum glerkúpli sem ég fann (með mikilli gleði) í Rúmfatalagernum og tveimur stjörnukertastjökum, eins og þeim sem ég er með inni á baðherbergi:


Bastkörfurnar fyrir neðan geyma kertasafnið mitt og þær er ég sérstaklega ánægð með. Þær eru bara plain körfur úr Ikea og passa akkúrat inn í hilluna en til þess að gera þær sérstakari og meira að mínum spreyjaði ég þær hvítar:




Ooog þar sem sést bara framan á þær, verandi eins hagsýn og ég er, þá spreyjaði ég bara framan á þær:


Kemur mjög vel út :)

Á hillunni fyrir ofan eru síðan mjög plain blómamyndir úr Ikea sem hafa verið á dálitlu ferðalagi um íbúðina. Ég er ekkert 100% ánægð með þær en hef ekki fundið neitt annað í staðinn. Svo eru þar líka tvær babúskur sem ég eignaðist þegar ég var lítið peð og stafir sem ég keypti Í sveit og bæ, þeir eru mjög sniðugir af því að þeir standa á spýtu og eru þess vegna mjög stöðugir og svo passa þeir akkúrat á hilluna:



Mjög ánægð með þá! Finnst líka eiginlega allt Í sveit og bæ svo fallegt og gæti alveg hugsað mér að eiga nánast allt þaðan. Læt það samt bíða í bili...

Að sófunum:

Ég er dálítið að vandræðast með púðana í sófunum þessa dagana, er búin að fækka þeim dálítið og núna eru þeir fjórir allt í allt:


Þeir eru allir úr Ikea nema þessi kringlótti sem fannst í The Pier - er nýbúin að færa hann af rúminu og inn í stofu. Planið er síðan að prjóna púða, er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig það á að koma út en hef ekki ennþá fundið tíma til þess að framkvæma það, er svo ógeðslega upptekin og mikilvæg. 

Ofan á kistunni er ég síðan með lítinn bakka sem ég keypti í Ilvu:


Ofan í hann setti ég diskamottu sem ég fann á fimmtíukall í Ikea (like!), ótrúlega skemmtilega og fræðandi bók um jörðina, yndislega Alvar Aalto vasann minn og kertastjakana tvo í stíl. Svo er þarna lítill karl sem afi Frikki gaf mér þegar ég var ponsupons, mér þykir ofsalega vænt um hann. Ég varð náttúrulega að hafa köngla ofan í vasanum þarna líka, þeir eru svo fallegir.


Eruð þið ekki örugglega líka með prjónadót og stoppunálar á stofuborðinu? Trúi ekki öðru sko.

Að lokum eru tveir hlutir í viðbót sem setja punktinn yfir i-ið og ég verð þess vegna að segja ykkur frá. Annars vegar er það ofsalega krúttlega kisumottan sem ég er með við svalahurðina, hana fékk ég í internetverslun sem ég man því miður ekki hvað heitir:


og hins vegar hjartbandið sem ég er með á miðjugardínunni:


Gardínurnar eru mjög plain (mig langar rosalega í aðrar hvítar undir til þess að gera þetta meira kósý, það er á hálfs árs planinu) og þessi hjörtu finnst mér lífga mikið upp á þær - þetta eru sömu hjörtun og ég er með ofan á skenknum við hliðina á borðstofuborðinu mínu, Ikeakjánarnir selja þetta sem pakkaskraut. Oftast þarf ekki mikið til þess að upgrade-a venjulega hluti; smá skraut eins og hér eða sprey eins og á bastkörfurnar.

Er annars farin að hlakka svo mikið til að taka upp smá jólaskraut að það ískrar pínu í mér. Fór á konukvöld í Blómavali á fimmtudaginn og fann nokkra fallega hluti sem ég er mjög spennt að finna heimili fyrir og vona að ég hafi tíma til þess í kvöld. En nú tekur vinna númer tvö við í bili og ég er farin að lesa yfir ótrúlega áhugaverð lokaverkefni verðandi félagsráðgjafa í meistaranámi :)

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)