Saturday, December 27, 2014

"jólagjöfin mín í ár...

... ekki metin er til fjár." Þetta söng ég hástöfum fyrir verðandi eiginmann minn einhvern daginn á leiðinni heim úr vinnunni. Fannst þögnin sem kom á eftir heldur óþægileg og leit á hann (þó að ég væri við stýrið) og uppskar óvenjulegan vantrúarsvip af hans hálfu. Æj, þessi elska sko.

Við fengum afskaplega mikið fallegt í jólagjöf. Er hálfsvekkt yfir að vera að fara að flytja og nenna ekki að koma öllu almennilega fyrir, við ætlum að byrja að pakka niður strax eftir áramót svo að það verði allt tilbúið svo að ég sé hálfpartinn ekki tilganginn í því að vera að breyta öllu núna fyrir nokkra daga. En mikið sem það verður gaman að búa okkur til fallegt heimili í lok janúar og mikið sem ég hlakka til þess :)


Einum hlutnum varð ég þó að koma á fallegan stað strax, enda er hann frægur með eindæmum og líklega sá umdeildasti í desember. Jú, ég er að tala um Omaggio vasann frá Kähler. Yndislega fallegan Omaggio vasann með brassröndunum. Ég var auðvitað alltof sein með þetta og missti algjörlega af stærri vasanum en sá litli rataði hingað heim á Þorláksmessu (ég vil meina að ég hafi fengið hann í skóinn) og kúrir núna ofan á sófaborðinu með vinum sínum frá Iittala (þeim virðist koma vel saman).




Ofan í Aalto vasanum eru, rétt eins og fyrri jól, gamlar jólakúlur frá ömmu Ingu sem mamma leyfði mér að fá. Þykir endalaust vænt um þær og finnst þær svo fallegar, sérstaklega þessar sem eru óvenjulegar í laginu :)


Á borðstofuborðinu er síðan skreyting af ýmsum hlutum héðan og þaðan. Hnöttunum hef ég náð að safna öllum á þessu ári, Iittala kertastjakarnir eru afmælisgjöf frá Rut vinkonu (sá rauði), og sambýlismanninum (sá grái og þeir glæru). Bjallan er gömul frá ömmu minni og mér þykir afskaplega vænt um hana.



Þarna má meðal annars sjá tvíburabróður afmælisvasans sem mér finnst alveg æðislegur - er alveg hrikalega skotin í þessum röndum og vonast til þess að bæta stóra bróður hans við fljótlega (innflutningsgjöf omg?!)



 Á eldhúsborðinu er síðan lítill bakki með jólatréi sambýlismannsins. Mér fannst svo endalaust sniðugt að hann ætti svona tré þar sem ég alveg eins líka. Mitt fær þess vegna að vera inni í svefnherbergi og hans þarna á bakkanum. Fyrir aftan eru svo Ultima Thule skálarnar sem við fengum flestar í jólagjöf núna í ár og eru gott dæmi um hlut sem ég nenni ekki að finna stað fyrir á þessu millibilstímabili. Er afskaplega ánægð með að eiga núna fleiri en fjórar desertskálar. Hrikalega er maður orðinn fullorðins eitthvað.



Skreytingarnar á íbúðinni í ár voru óvenju casual. Ég til dæmis festi ekki seríurnar í gluggann þannig að hver og ein pera væri fest með límbandi heldur eru nokkrar sogskálar sem halda þeim uppi og þær eru hálfwild. Og það er samt bara yndislegt. Og ég missti ekki geðheilsuna við að festa ljósin upp. Skemmtileg tilbreyting sem ég reyni mögulega að gera að hefð á komandi jólum.

Mér finnst samt nauðsynlegt að skreyta öll herbergin, líka þessi sem fólk pælir að mér finnst almennt ekki nógu mikið í á jólunum. Af þeim sökum er ég að sjálfsögðu með seríu í pínulitla glugganum í þvottahúsinu mínu, hana glittir í hér, hún er þessi rauða:


Ef það er ekki kjörinn tími til þess að byrja á Arnaldi núna þá hreinlega veit ég ekki hvað sko. Tvær færslur á dag er augljóst persónulegt met, ég vonandi held þessu eitthvað áfram eftir því sem ég nenni. Hafið það yndislegt :)

- knús -

lang í...

Er búin að eiga svo yndisleg jól með mínum að ég er ekki viss um að það megi hreinlega.

Margt búið að gera síðan síðasta færsla var skrifuð. Sem er svosem eðlilegt í sjálfu sér þar sem hún var skrifuð í lok október og því tveir mánuðir síðan. Stóru fréttirnar eru jú þær að við hjónaleysin höfum fest kaup á íbúð í Reykjavíkinni. Erum afskaplega spennt fyrir flutningunum, að komast af leigumarkaðnum og að komast nær vinnunum okkar o.þ.h. Erum líka afskaplega spennt fyrir því að þurfa ekki að keyra Reykjanesbrautina lengur og vera komin heim úr vinnu á fjölskylduvænni tíma.

Íbúðin okkar er í Breiðholtinu, 3ja herbergja og alveg ofsalega fín. Þurfum ekkert að leggjast í neinar stórframkvæmdir en stefnum jú á að mála og skipta út innstungunum, þær eru af gömlu ítölsku gerðinni og við erum ekki alveg að nenna því.

Eins mikið og ég hlakka til að vera flutt (lykilorð: vera flutt) hlakka ég aðeins minna til að pakka niður og um leið týna öllu dótinu mínu og þurfa síðan að flytja það á milli bæjarfélaga. Að flytja kertaarinninn tá milli bæjarfélaga virðist ekki vera eins eftirsótt verkefni og ég hefði haldið og foreldrar mínir eru búnir að lofa því að þau verði bara erlendis á meðan. En sem betur fer eigum við bæði bræður og vini sem koma eflaust hlaupandi þegar við hóum.

Já það verður bjór. Fullt af bjór!

Annars er ég búin að fá fjölda fyrirspurna varðandi innflutningsgjafir (og jólagjafir líka en það er víst of seint að fara að leggja fram óskalista varðandi það) og datt í hug að nýta bloggið sem vettvang fyrir það. Ég skil samt ekki alveg svona innflutningsgjafir og finnst þær dálítil óþarfi, sér í lagi eftir að hafa fengið þvílíkt flóð af gjöfum bæði á afmælinu mínu í lok nóvember og svo núna um jólin. En það er víst ekki nóg að æpa "ég vil bara eitthvað Iittala". Til þess að spara mér allar ferðirnar í Líf & list (og sambærilegar búðir) til þess að skila og skipta kemur hér stuttur óskalisti :)

Með stellinu sem ég fékk frá ömmu fylgdu engir meðlætisdiskar og engar skálar, það annað hvort brotnaði eða var hreinlega ekki til. Í staðinn langar mig að hafa meðlætisdiskana fallegu frá Kastehelmi, bæði glæra og gráa:



Í stíl myndi ég vilja eiga litlu skálarnar, bæði á fæti og ekki





Á eina af hverju nú þegar og mér finnst þær hreinlega æðislegar. Til viðbótar og framtíðar langar mig líka í stóru kökudiskana í glæru, bæði á fæti og án fótar:



og eins stóru skálinu í glæru:


Til viðbótar er ég afskaplega skotin í Marimekko skálunum, bæði stórum og litlum. Við eigum nú þegar nokkra liti til og það eru einna helst sá sítrónuguli, laxableiki, vatnsgræni, ljósblái og eplagræni sem koma til greina ásamt frost (yes please). Er minna hrifin af cranberry litnum á skálunum en ég hefði haldið, eins mikið og ég er fyrir rautt. Á að vísu cranberry kertastjaka sem ég elska en finnst hann koma mun betur út þar heldur en á skálunum. Festivo kertastjökum eigum við nóg af í bili, Ultima Thule hlutirnir finnast mér æðislegir líka, við eigum 6 litlar skálar og ég væri alveg til í að eiga fleiri. Stóru hlutirnir þaðan mega alveg bíða aðeins betri tíma. Til viðbótar er ég agalega skotin í Essence vatnsglösunum.

Annars langar mig alveg í hluti sem ekki eru merktir Iittala líka sko, það er enginn dauði og djöfull ef það kemur eitthvað inn á heimilið sem er ekki frá finnska móðurskipinu. Sambýlismanninn langar í skjávarpa (eða myndvarpa, hann er ekki alveg viss), heimsfrið (alveg agalegt hvað maðurinn er nægjusamur á meðan konan hans er með stanslaust kaupæði) og náttbuxur.

Mögulega mun ég nenna að skrifa aðra færslu þar sem ég fjalla betur um yndislegu jólin mín og hvað við fengum fallegt. Læt þetta duga í bili :)

- knús -

ps á meðan ég skrifaði þennan póst um hvaða dýra dót mig langaði í eldaði sambýlismaðurinn handa mér mat. orðlaus yfir hvað ég er heppin prinsessa :)

Saturday, October 25, 2014

aftur?

Er búin að vera að íhuga undanfarna daga og vikur (ekki stöðugt, en samt af og til) hvort það væri ekki ágætis hugmynd og spark í framkvæmdarass að fara að blogga aftur. Finnst tilhugsunin dálítið spennandi og hef eiginlega enga afsökun fyrir því að gera það ekki.

Frá því að ég skrifaði síðustu færslu hafa milljón hlutir gerst. Ég er orðin ljóshærð, komin í sambúð og frá og með mánudeginum mun ég vinna í Reykjavíkinni (þó í sömu vinnu og ég hef verið í undanfarin ár). Þetta er mikið af breytingum í lífi einnar stelpukonu og ég hef ekki gefið mér nógu mikinn tíma í að breyta og skreyta eins og ég gerði áður. Og svo óttaðist ég pínu hvað sambýlismaðurinn myndi segja þegar hann sæi mig draga kassa (í fleirtölu) af kertastjökum út úr geymslunni og eyða heilu föstudagskvöldi í að stara á borðstofuborðið bæði standandi og sitjandi við það því bæði sjónarhornin þurfa að virka. Augljóst mál.

En það er síðan akkúrat það sem ég gerði síðasta föstudag. Ég eyddi heilu föstudagskvöldi (og smá af laugardeginum) í að raða kertastjökum, það var yndislegt og virtist bara falla í góðan jarðveg. Svo að ég kannski fer að hætta að nota þetta sem afsökun og actually sinna þessu áhugamáli mínu :)

Mér finnst held ég alltaf skemmtilegast að raða dóti á kertaarinninn:



Hann var búin að standa dálítið í stað, eins og allt hitt, síðastliðið hálft ár. Þegar ég eignaðist síðan fallega glerkassakertastjakann frá House Doctor fyrir kertin fjögur fékk ég óvænta þörf til þess að breyta. Ofan í hann setti ég þrjá litla hnetti sem mér finnst koma einstaklega vel út. Þar við hliðina eru Bloomingville kertabollar ofan á Nietzsche - I-ið átti ég fyrir en G-ið fann ég eftir afar þráláta leit eftir að sambýlismaðurinn flutti inn. Fór næstum að grenja þegar ég fann það, mjög svalt móment. Þar við hliðina er svo Aalto vasinn minn með litlu kertastjakabræðrunum sínum ofan á bók um jörðina - einhvern veginn endar þessi vasi alltaf ofan á þessari bók. Þar við hliðina kemur svo týpískt glerbox með perlufestum í, keypt í MyConcept store og kertastjakana stóru á endanum fann ég á bland.is fyrir löngu.

Ég eeeeelska orðaborðann sem ég keypti í Mjólkurbúinu. Finnst eini gallinn eiginlega vera að það er ekki nóg af stöfum því mig langar að gera of mikið. Og að það eru engir tölustafir.

Glögg augu sjá mögulega að ég er með risaútgáfuna af Ikeabæklingnum á stofuborðinu mínu. Já, ég tók þátt í leik. Og vann! Finnst ég sjaldan hafa átt jafnmikið skilið að vinna eitthvað. Og þess vegna fær hann að vera þarna undir Festivo stjökunum mínum.

Glögg augu sjá jafnvel líka að tækjaeign heimilisins hefur aukist til muna frá því að ég birti síðast mynd af stofunni minni, miðað við fjarstýringaflotann þarna á borðinu. Það er mikið púsluspil þegar tveir fullorðnir (?) einstaklingar hefja sambúð en við tókumst á við allar hindranir sem upp komu með stillingu og virðingu. Ég fékk þrefalt stærra skápapláss en hann, hann fékk að hafa alltof stóra sjónvarpið sitt áfram og við seldum mitt (minna, eldra og með færri tengimöguleikum) í staðinn. Ég fékk að halda öllum húsgögnunum mínum í nánast algjörlega óbreyttri mynd og varla lyfta fingri við flutningana svo ég myndi ekki brjóta nögl, hann flutti til Keflavíkur og fer með rútu og strætó í Reykjavíkina á hverjum degi til að vinna. Mjög sanngjörn skipti.

Ég hlýt að hafa gert eitthvað afskaplega göfugt í fyrra lífi.

Að öllu gríni sleppt er ég dáldið spennt fyrir því að byrja að blogga aftur. Gerði mér meira að segja ferð í Ikea í gær, keypti í föndur og er búin að framkvæma það og allt og held ég sé bara sátt. Vonandi finn ég nenn til þess að búa til aðra færslu og segja frá því.


- Góða helgi :) -

Ps - ef einhver hefur löngun á að búa til síns eigins kertaarinn þá hef ég sett teikningarnar mínar að mínum hingað: gussi.is/kertaarinn/mál.pdf og hér er skýringarmynd sem hjálpaði mér mikið: http://gussi.is/kertaarinn/kertaarinn.jpg - frekari upplýsingar um hvernig ég (með aðstoð annarri mér færari) bjó gripinn til má finna í færslu frá 18. október 2013. Ég bið ykkur um að dreifa ekki teikningunum heldur benda fólki frekar á að þær séu hér svo að ég fái ókeypis flettingar í staðinn og þá verða allir ofsaglaðir :)

Tuesday, February 18, 2014

nýr glerkúpull og borðstofa

Er ekki kominn tími á að deila smá skreytingum og uppstillingu?



Er búin að vera með þetta settöpp í borðstofunni núna næstum því óbreytt frá því að ég tók jólin (loksins) niður einhvern tímann seint í janúar á þrettándanum. Þemað á borðinu er doldið kvenlegt og gert í kringum geymslubók sem ég fann í Rúmfatalagernum rétt fyrir jól, hún er með svona chic old fashioned Parísarþema, með alls konar krúttlegum myndum á. Dálítið ólík því sem ég fell venjulega fyrir en það var samt dáldil ást við fyrstu sýn þegar ég sá hana.



Í kringum hana eru Festivo kertastjakarnir mínir sem ég keypti á ljósanæturtilboði hjá Gogga Hannah með fjólubláum kertum í (pakkinn á 99 krónur í Ikea einhvern tímann fyrir löngu, svo að eðlilega keypti ég milljón pakka). Ofan á bókinni eru síðan kertakórónan mín og mánaðarbollinn minn sem amma gaf mér í afmælisgjöf þegar ég var 13 ára (að ég held).



Á skenknum er síðan að finna ýmislega skemmtilega hluti:



Uppáhaldið þar akkúrat núna er þessi glerkúpull. Mamma gaf mér hann í kringum jólin, þetta er agalega sniðugt að því leytinu til að ef maður snýr tréplattanum við er lítil hola í honum sem glerkúpullinn getur setið í og þá er hann skál. Hann er upprunalega úr ljósum við sem náttúrulega gekk alls ekki upp í mínum augum svo að ég spreyjaði hann háglans svartan:



Ég setti í hann skó frá því að ég var lítil (nei Hannes, þeir passa ekki á mig lengur og eru því augljóslega ekki partur af skósafninu mínu), lét krúttlega jólastjörnu hanga á honum og er bara nokkuð sátt með þetta.


Aðrir skemmtilegir hlutir á skenknum eru síðan þessi fallegi bakki sem ég rétt náði að kaupa frá Í sveit og bæ áður en hún fór í frí. Á honum eru kubbakertisstjaki sem hefur alltaf verið í pari þangað til núna (ég er bara algjörlega komin á skreytingarbrúnina hérna, er svo villt), karafla með oggulitlum könglum í, Home kertastjaki úr Blómaval og lítil sandlituð Marimekko skál (jólagjöf frá Rut) með M-i ofan í (M fyrir mamma?).



Svo er þarna Aalto vasinn minn með hnetti ofan í og hann stendur ofan á bók um jörðina og með honum eru litlu Aalto stjakarnir mínir (finnst þessir þrír helst alltaf þurfa að leika saman). Stóra krukkan mín úr Púkó & smart er þarna líka, ennþá full af könglum og svo er þarna líka postulínsX standandi ofan á Sjálfstæða fólkinu hans Laxness. Jólahjartað hengur ennþá á speglinum og ég er svona eiginlega farin að hallast á að það sé ekkert jólahjarta, heldur bara hjarta. Þetta er allt í eðlilegu framhaldi af því sem er á kertaarninum svo að það er alveg alltílæ í bili að minnsta kosti, verður kannski örlítið minna viðeigandi þegar það fer að vora aðeins meira. En þangað til held ég fast í þessi notalegheit sem fylgja myrkrinu - kertaljós og teppakúr og horfa á myndir og prjóna <3





Semsagt, kósýheit per exelans á þessu heimili - að minnsta kosti í stofunni ;)


- knús - 

update 20.02.14: óvart orð, óvart mynd

Sunday, February 16, 2014

gamalt og yndislegt

Í tilefni flutninga Vilbergs frænda míns og Hildar konunnar hans komu í ljós tveir kassar af dóti í skúrnum hans í Háaberginu sem fólk virtist hafa gleymt að væri til. Í þeim leyndist nebblega 12 manna sparistellið sem amma Inga og afi Kalli áttu. Og nema hvað, þar sem það eiga allir stell nema ég fékk ég að eiga það. Og orð fá því sko ekki lýst hvað ég er glöð í hjartanu mínu yfir þessari fallegu gjöf.

Fór loksins til mömmu og pabba áðan og náði í það, plataði Þórdísi til þess að bera það með mér upp (því eins og allir vita brýt ég hluti), tók svo skemmtilegasta uppvask ever og raðaði því beint inn í skáp. Og hér er þetta:



Stellið er 12 manna, það vantar nokkra bolla og undirskálar og eins eru einhver skörð hér og þar en ég gæti held ég ekki verið sáttari. Finnst svo yndislegt að hafa fengið að eiga þetta og þykir svo mikið vænt um það.


Í efri hilluna setti ég 6 diska, 6 skálar  og 6 undirskálar ásamt 6 bollum. Svo eru þarna sósukanna, rjómakanna, sykurkar, tarína og tvö föt. Í hillunni fyrir neðan fá síðan afgangsdiskarnir að vera ásamt einni stórri skál.





Annars er ég búin að vera óttalegur aumingi undanfarna daga með hor og einhver óskemmtilegheit og á meðan hafa Ben & Jerry's og Marian Keys bækur af handahófi verið frekar vinsælar (ef einhver annar er tilbúinn til þess að viðurkenna að hann kaupi ís á þúsundkall væri það alveg vel metið). Ég er meira að segja búin að læra að drekka te og allt, vá hvað ég hlýt að vera orðin fullorðin!

Svo er ég líka búin að vera að föndra dáldið kúl og sniðugt sem ég fer alveg að fara að nenna að skrifa eitthvað um. Óttaleg leti í manni svona á nýja árinu ... en það er alltílæ, þetta kemur allt með kalda vatninu :)

ps ... við skulum ekkert ræða hvað var líka í öðrum kassanum, ég er næstum því búin að jafna mig á frekjukastinu yfir að hafa ekki fengið að eiga það líka (hóst mánaðarbollar hóst)


- knús -

Friday, January 24, 2014

the winner takes it all...

Ég á mjög auðvelt með að finna mér ástæður til þess að kaupa hluti. Dagurinn í dag var engin undantekning á því, ég fór í frammistöðuviðtal í vinnunni og í framhaldi af því varð ég augljóslega að fá verðlaun. Eftir að hafa fengið boð frá Þórdísi, kærastanum mínum, á Kaffitár kíktum við í Húsasmiðjuna / Blómaval þar sem allt virtist vera á afslætti. Ég birgði mig því upp af glæru seríunum (40% afsláttur) sem ég elska ásamt þessari hér (30% afsláttur):




Hún er dásamleg! Nær mér ca upp í mitti - það var mjög áhugavert að draga bera hana út í bíl og svo aftur upp stigann heima. Þórdís sá sig tilneydda til þess að taka myndir af mér að drösla henni um (lugtinni þ.e.) og ef ég liti ekki út eins og lítið barn að labba út úr nammibúð á þeim myndi ég hiklaust birta þær. Sorrí...




Hef töluvert betri hugmyndir um hvað ég ætla að hafa í lugtinni en þangað til skellti ég í hana fjórum kertum - það stærsta er eldgamalt og búið að veltast um í kertakassanum mínum (svona eins og ég eigi bara einn kertakassa en ekki þrjá, lol!) í eitt og hálft ár frá því að ég mod podge-aði mynd á hana þegar ég var að byrja að prófa mig áfram í því, það hefur brotnað töluvert upp úr því en stærðin hentaði einstaklega vel svo að ég leyfi því að vera þarna svona til að byrja með. Hin þrjú eru bara þessi venjulegu, hvítu kubbakerti úr Ikea, svona eins og allir eiga.

Seríuna setti ég svo ofan á með það í huga að ég gæti skellt henni inn í lugtina þegar það er ekki kveikt á kertunum - hún stendur nebblega upp við svalahurðina og það vill gjósta dálítið inn um hana þegar hún er opin, aldrei lognmolla í Keflavíkinni sko.

Og hérna var ég búin að slökkva á ljósunum til þess að fullkomna kósýtæmið mitt:




Mig er búið að langa SVO lengi í svona stóra lugt og verð að viðurkenna að ég hreinlega gæti ekki verið ánægðari!

Það stefnir annars allt í yndislega helgi, annað kvöld er ég að fara út að borða og á uppistand með Mið-Íslandi ásamt Vagínunum mínum og ég hlakka svo mikið til að gera mig sæta(ri) og kósýast með þeim :)




- knús -


ps það virðast vera einhverjar ósættir um hvort þetta er skrifað lugt eða lukt - MÉR finnst lugt vera rökréttara þar sem þetta hlýtur að koma af orðinu logi. Læt þetta liggja milli mála í bili en verandi sjálftitlaður prófarkalesari þætti mér kjánalegt að vera með svona áberandi stafsetningarvillur á Internetinu.

Wednesday, January 22, 2014

skilti

Hæ krakkar!

Í dag ætlum við að skoða skiltið mitt sem ég bjó til einhvern tímann á síðasta ári. Ég er búin að eiga í miklu ástar- og hatursambandi við það og fannst það ekkert fallegt fyrst svo að ég faldi það bara inni í svefnherbergi. Þegar ég bjó til gluggann minn missti skiltið hins vegar heimilið sitt svo að ég ákvað að finna því nýtt heimili og þá endaði það inni í stofu við hliðina á stól sem ég fékk gefins til að leika við:


Þegar ég bjó skiltið til vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í. Ég var með fjórar spýtur sem ég var búin að negla saman og mála hvítar, stensil sem ég fann í Púkó & Smart og svarta málningu:


Ég komst eiginlega strax að því að ég var ekki að fara að nota málninguna til þess að stensla með því hún lak út um allt. Eftir að hafa íhugað þetta smá endaði ég á að fylla út í stenslana hreinlega með svörtum tússpenna. Varð alveg dolfallin á hversu vel það kom út og svo var það líka mjög fljótt að þorna. Ég er örvhent svo að ég á mjög erfitt með að vinna með mjög blauta penna þegar ég er að skrifa svo að þetta var mikill kostur. EN verandi ég, að þessu um miðja nótt því ég á svo erfitt með að hætta ef ég fæ góðar hugmyndir og þarafleiðandi hálfsofandi, ruglaðist ég á því sem ég var að gera og skrifaði part af orði vitlaust. Og við það hófst þetta ástar- og haturssamband:


Það liðu margir mánuðir þangað til ég nennti að laga þetta og þegar ég loksins gerði það átti ég enga hvíta málningu að ráði svo að þetta er alls ekki fullkomið. En það er dáldið rústik fyrir svo að þegar ég ákvað að þetta yrði bara allt í lagi varð ég bara ánægð með afraksturinn:



Stólinn við hliðina fékk ég, eins og ég sagði, gefins frá vinkonu minni. Hann var ljósbrúnn, úr eins konar basti, en ég lakkaði hann hvítan - með afgangslakki úr kertaarninum mínum og gerði fæturna svarta, með sams konar lakki. Hér liggur hann á föndurborðinu mínu tilbúinn í action:


Og hér er hann tilbúinn!


Lugtirnar mínar úr Ikea eru mjög krúttlegar þarna fyrir framan, sú stærri er með sjálftíndum könglum og litla krúttlega hnettinum mínum úr Púkó & Smart. Ég á mjög erfitt með að segja skilið við jólin svo að það eru glærar seríur ennþá út um alla íbúð (og rauðar í stofuglugganum, USS!), þessi er 20 ljósa og ég stakk bút af henni inn í stærri lugtina og svo hangir litli unginn minn þarna utan á.


Allt í allt bara ágætlega huggulegt :)

hafið það yndislegt og ekki gleyma like-takkanum efst í færslunni!

- knús -

Today you are you
that is truer than true
there's no one alive
who is youer than you

Be who you are
and say what you feel
because those who mind
don't matter
and those who matter
don't mind

- dr. Seuss