Saturday, December 27, 2014

lang í...

Er búin að eiga svo yndisleg jól með mínum að ég er ekki viss um að það megi hreinlega.

Margt búið að gera síðan síðasta færsla var skrifuð. Sem er svosem eðlilegt í sjálfu sér þar sem hún var skrifuð í lok október og því tveir mánuðir síðan. Stóru fréttirnar eru jú þær að við hjónaleysin höfum fest kaup á íbúð í Reykjavíkinni. Erum afskaplega spennt fyrir flutningunum, að komast af leigumarkaðnum og að komast nær vinnunum okkar o.þ.h. Erum líka afskaplega spennt fyrir því að þurfa ekki að keyra Reykjanesbrautina lengur og vera komin heim úr vinnu á fjölskylduvænni tíma.

Íbúðin okkar er í Breiðholtinu, 3ja herbergja og alveg ofsalega fín. Þurfum ekkert að leggjast í neinar stórframkvæmdir en stefnum jú á að mála og skipta út innstungunum, þær eru af gömlu ítölsku gerðinni og við erum ekki alveg að nenna því.

Eins mikið og ég hlakka til að vera flutt (lykilorð: vera flutt) hlakka ég aðeins minna til að pakka niður og um leið týna öllu dótinu mínu og þurfa síðan að flytja það á milli bæjarfélaga. Að flytja kertaarinninn tá milli bæjarfélaga virðist ekki vera eins eftirsótt verkefni og ég hefði haldið og foreldrar mínir eru búnir að lofa því að þau verði bara erlendis á meðan. En sem betur fer eigum við bæði bræður og vini sem koma eflaust hlaupandi þegar við hóum.

Já það verður bjór. Fullt af bjór!

Annars er ég búin að fá fjölda fyrirspurna varðandi innflutningsgjafir (og jólagjafir líka en það er víst of seint að fara að leggja fram óskalista varðandi það) og datt í hug að nýta bloggið sem vettvang fyrir það. Ég skil samt ekki alveg svona innflutningsgjafir og finnst þær dálítil óþarfi, sér í lagi eftir að hafa fengið þvílíkt flóð af gjöfum bæði á afmælinu mínu í lok nóvember og svo núna um jólin. En það er víst ekki nóg að æpa "ég vil bara eitthvað Iittala". Til þess að spara mér allar ferðirnar í Líf & list (og sambærilegar búðir) til þess að skila og skipta kemur hér stuttur óskalisti :)

Með stellinu sem ég fékk frá ömmu fylgdu engir meðlætisdiskar og engar skálar, það annað hvort brotnaði eða var hreinlega ekki til. Í staðinn langar mig að hafa meðlætisdiskana fallegu frá Kastehelmi, bæði glæra og gráa:



Í stíl myndi ég vilja eiga litlu skálarnar, bæði á fæti og ekki





Á eina af hverju nú þegar og mér finnst þær hreinlega æðislegar. Til viðbótar og framtíðar langar mig líka í stóru kökudiskana í glæru, bæði á fæti og án fótar:



og eins stóru skálinu í glæru:


Til viðbótar er ég afskaplega skotin í Marimekko skálunum, bæði stórum og litlum. Við eigum nú þegar nokkra liti til og það eru einna helst sá sítrónuguli, laxableiki, vatnsgræni, ljósblái og eplagræni sem koma til greina ásamt frost (yes please). Er minna hrifin af cranberry litnum á skálunum en ég hefði haldið, eins mikið og ég er fyrir rautt. Á að vísu cranberry kertastjaka sem ég elska en finnst hann koma mun betur út þar heldur en á skálunum. Festivo kertastjökum eigum við nóg af í bili, Ultima Thule hlutirnir finnast mér æðislegir líka, við eigum 6 litlar skálar og ég væri alveg til í að eiga fleiri. Stóru hlutirnir þaðan mega alveg bíða aðeins betri tíma. Til viðbótar er ég agalega skotin í Essence vatnsglösunum.

Annars langar mig alveg í hluti sem ekki eru merktir Iittala líka sko, það er enginn dauði og djöfull ef það kemur eitthvað inn á heimilið sem er ekki frá finnska móðurskipinu. Sambýlismanninn langar í skjávarpa (eða myndvarpa, hann er ekki alveg viss), heimsfrið (alveg agalegt hvað maðurinn er nægjusamur á meðan konan hans er með stanslaust kaupæði) og náttbuxur.

Mögulega mun ég nenna að skrifa aðra færslu þar sem ég fjalla betur um yndislegu jólin mín og hvað við fengum fallegt. Læt þetta duga í bili :)

- knús -

ps á meðan ég skrifaði þennan póst um hvaða dýra dót mig langaði í eldaði sambýlismaðurinn handa mér mat. orðlaus yfir hvað ég er heppin prinsessa :)

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)