Sunday, April 26, 2015

AB mjólk á óhefðbundinn hátt

Á síðasta ári urðu í föndurgrúppu sem ég er í á feisbúkk miklar og heitar umræður um hversu sniðug hugmynd það væri að mála rúður með AB mjólk og að útkoman yrði í raun eins og sandblásin filma. Bara milljón sinnum ódýrari.

Mér fannst tilhugsunin mjög spennandi og var strax ákveðin í því að prófa þetta á einhverjum glugganum í nýju íbúðinni og á endanum varð svalahurðin valin í verkefnið. Við erum jú á fyrstu hæð við hliðina á inngangi í stigaganginn og fólk gengur þarna framhjá oft á dag.

Eins og er höfum við ekki keypt neinar gardínur í íbúðina (góðir hlutir gerast hægt!) svo að í stofuglugganum, sem er samvaxin svalahurðinni, eru breiðar, dökkbrúnar tréstrimlagardínur sem duga alveg ágætlega. Svalahurðin er hins vegar allsnakin eftir að ég tók úr henni rúllugardínuna sem var þar, enda passaði hún ekki alveg í gatið og var að mínu mati ekki að gera neitt sérstaklega góða hluti.

Við byrjuðum á að teipa hringinn í kringum hurðina, því ég vildi hafa örmjóa rönd þar sem sæist í gegn. 





Eins og sjá má er útsýnið okkar afskaplega fallegt, gefandi og veitir mér innblástur á hverjum degi.


Hér má sjá aðrar græjur sem þarf til verksins. Ég nota svamprúllu og mér finnst það dálítið lykilatriði, hún er mjög góð til þess að gefa fallega áferð og jafna úr þar sem það þarf.


Eins er líka afskaplega nauðsynlegt að gera þetta íklædd náttbuxum. Og helst eftir klukkan 10, því þá gerast allir bestu hlutirnir.


Svo bara role away! Það þarf slatta af þolinmæði til þess að fara yfir, best er að byrja á að passa að það sé svipað mikið á öllum fletinum og svo er smám saman hægt að jafna það út. Betra að eyða örlítið meiri tíma í þetta heldur en minni því það er ógeðslega fúlt að þurfa að gera þetta aftur. Mér finnst líka dálítið lykilatriði að fara ekki of fast yfir gluggann því þá bæði safnast AB mjólkin í rúlluna og lagið verður þynnra og eins verður maður þreyttari í hendinni og þá hættir maður að nenna að gera þetta vel.

Þetta er samt sem áður í alvöru mjög auðvelt - ef rúllan rennur örlítið til:



... þá er bara að fara yfir aftur til þess að jafna það út:)

Ég gerði þetta daginn eftir að við fluttum inn, en þá var misfagur (en um leið nauðsynlegur) Securitas límmiði í glugganum. Við (ókei ég) báðum um að hann yrði fjarlægður og settur í gluggann við hliðina því okkur fannst hann ... ljótur. Þá komst ég jú að því að það kemur ekki vel út að bletta í ef eitthvað fer úrskeiðis. En það er ekkert mál að þrífa þetta af og kostnaðurinn við þetta er náttúrulega nánast enginn því maður á rúlluna eftir fyrsta skiptið.


Hér má sjá áferðina á meðan AB mjólkin er enn blaut. Það er alveg hægt að sjá rúlluförin á myndinni en þau voru alveg búin að jafna sig daginn eftir. Ég setti þetta á gluggann að kvöldi til og eftir hádegi daginn eftir var þetta algjörlega þornað.

Þetta hélst algjörlega á hjá okkur þangað til að sambýlismaðurinn hleypti óvart ketti inn í íbúðina. Við það að reka hann út (köttinn sko, ekki sambýlismanninn) rak ég (eða kötturinn) mig aðeins í gluggann og þá kom afskaplega pirrandi puttafar (skottfar) neðarlega á hurðina. Þá var augljóslega fátt annað í stöðunni en að taka heitt vatn og tusku, þrífa hurðina og skella annari umferð á.

Hér má svo sjá afraksturinn - mynd tekin um hábjartan dag svo að birtuskilyrðin verða hreinlega varla betri. Ég fékk sambýlismanninn til þess að standa fyrir utan hurðina og eins og sjá má veitir þetta alveg fínt prævasí og bara allir sáttir.


Ég get þannig óhikað mælt með þessari aðferð. Auðvitað er ekki hægt að gera þetta í herbergjum þar sem er af og til raki og bleyta þannig að eldhús og baðherbergi ganga því miður ekki upp - nema að fólk sé spennt fyrir súrmjólk sem híbýlailm. Persónulega mæli ég ekki með því. Svo er auðvitað hægt að hugsa út fyrir kassann og nota til dæmis jarðarberjamjólk í stelpuherbergi (og auðvitað strákaherbergi líka) eða jafnvel setja matarlit út í. Óteljandi möguleikar :)


- knús -

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)