Monday, January 26, 2015

Loksins

Við erum loksins flutt. Mér líður eins og ég hafi beðið í mörg ár eftir að fá afhent en í raun og veru var þetta alls ekki svo langur tími. Við ákváðum í september, á afmælisdegi unnustans, að athuga hvort við hefðum möguleika á að gerast svo ráðsett að eignast okkar eigin íbúð í stað þess að ílengjast á leigumarkaðnum. Á afmælisdeginum mínum, í lok nóvember, undirrituðum við síðan skjölin frá bankanum um húsnæðislánin og vorum þannig á ekki nema rúmum tveimur mánuðum að finna okkur nýtt heimili.

Undanfarnir dagar eru búnir að vera kreisí. Íbúðina fengum við afhenda á mánudegi í stað þriðjudags sem var frábært fyrir óþolinmóðu mig. Þriðjudagurinn fór síðan í að spartsla, velja endanlega liti á íbúðina og kaupa málningu. Pabbi kom síðan bæði á miðvikudeginum og fimmtudeginum og gerði íbúðina að því sem hún er. Að mála heila íbúð á tveimur dögum er náttúrulega nett geðveiki og þetta segir í alvöru ekkert um að íbúðin sé eitthvað sérstaklega lítil heldur er þetta allt skrifað á pabba og hversu duglegur hann er.

Ég fékk afskaplega frjálsar hendur varðandi val á málningu og er þess vegna alveg hæstánægð. Grunnliturinn er arkítektúrhvítur og hann er á allri íbúðinni að undanskildum einum veggjanna í stofunni og veggnum fyrir aftan rúmið. Fyrir aftan rúmið er liturinn þangbrúnn sem er samt fjólublár og á stofuveggnum er tinnusvartur. Þessu mun ég birta myndir af eins fljótt og ég get en um þessar myndir sést lítið í fínerí þar sem það eru ennþá kassar út um allt.

Flutningarnir gengu alveg vonum framar og gott betur en það. Við fengum flutningabíl frá Flutningaþjónustunni til þess að keyra draslið okkar á milli bæja og erum afskaplega ánægð með þá þjónustu sem við fengum. Við vorum búin að gera ráð fyrir í það minnsta fjórum tímum í flutningabílinn en svo tók það okkur ekki í raun nema tvo og hálfan tíma fyrir hann að koma til okkar, að fylla hann, keyra í bæinn og tæma hann. Svo voru jú einn eða 50 kassar í tveimur stórum bílum. Það er náttúrulega rugl hvað maður á mikið af drasli. Og samt hentum við heilum helling.

Þetta hefði allt saman ekki verið hægt án hjálpar og hana fengum við sko helling af. Það er frábært að eiga svona mikið af fallegu fólki sem maður getur treyst á þegar á þarf að halda og í raun komust færri að en vildi.

Nú tekur bara við yndislegur (og örlítið þreytandi líka) tími sem mun fara í að taka upp úr kössum og gera allt fínt, við ætlum að skipta út innstungum og fá okkur eðlilegar í staðinn fyrir þessar gömlu ítölsku og dimmi á flestöll ljós (ví!). 

Hlakka til að segja frá meira progressi í næstu færslu, núna er kominn tími á að kúra í fallega unnustann minn og vera væmin með honum :)

- knús -

Wednesday, January 14, 2015

6 dagar

Bara 6 dagar þangað til við fáum íbúðina okkar afhenda. Fyrstu íbúðina okkar saman.

Þegar fyrrum sambýlismaður minn, nú unnusti minn, flutti inn til mín var hann að flytja í íbúð sem ég hafði búið í síðan 2009. Hér hafði ég breytt og skreytt og hagað öllu nákvæmlega eins og ég vildi (og nennti að) hafa í kringum mig án þess að neinn gæti fengið eitthvað við því sagt.

Nema pabbi þegar ég bað hann um aðstoð þegar ég hafði keypt eitthvað sem ég annað hvort gat ekki borið upp stigann sjálf nú eða flutt í alltof litla stelpubílnum mínum.

Unnusti minn hefur að vísu þægilega litlar skoðanir á hlutunum (og vill meina að ég sé með afskaplega góðan smekk). Þannig urðu engir árekstrar við þennan aðflutning hans frá höfuðborginni í Keflavíkina, hans dót rann bara inn og það hefur farið ágætlega um það innan um allt handvalda hönnunar/RúmfatalagersIkeadótið mitt.

Á þessu er ein undantekning.

Á baðherberginu hef ég verið með silfurgrátt sturtuhengi, keypt og sérvalið í Target. Fékk nefnilega á sínum tíma mjög alvarlega þráhyggju fyrir sturtuhengjum, hugsaði varla um annað og svaf varla fyrir þessu vandamáli að eiga ekki nógu kúl en um leið fágað sturtuhengi. Þetta var allt saman afskaplega erfitt í ljósi þess að markaðurinn sturtuhengja er ekkert sérstaklega stór hér á landi. Mögulega er hann ekkert það lítill heldur. Bara ekki nógu stór fyrir mig og mínar afskaplega fjölbreytilegu þarfir og skort á töku til ákvarðanna.

Eftir miklar umveltingar og fylgihlutapælingar varð silfurgráa sturtuhengið sumsé fyrir valinu og vinkona mömmu flutti það inn til landsins. Jebb, ég þurfti að leita út fyrir landsteinana fyrir sturtuhengi því ekkert annað gat mögulega hentað mér. Slíkar og þvílíkar voru kröfurnar.

Ég lifði í ágætis sælu með títtnefndu sturtuhengi, bæði á Eggertsgötunni í alltof litlu stúdentaíbúðinni minni og eins hér á kanavellinum, í alltof stóru leiguíbúðinni minni. 

Í Breiðholtinu fáum við síðan sturtu sem er nýleg og fancy með glervegg (og LED ljósi í sturtuhausnum, omg) og því munu leiðir mínar við sturtuhengið skilja, nema, eins og ég minntist á við unnusta minn eitt kvöldið þegar við vorum á leiðinni heim úr vinnunni, að við veljum að hafa það líka þar því það er alveg hægt. Ef okkur langar sérstaklega mikið að sulla og busla.

Þessari athugasemd minni fylgdi dálítil þögn og svo kom skellurinn, með þvílíkri fyrirlitningu: "átt þú þetta sturtuhengi?! valdirðu það sjálf?! og borgaðiru svo peninga fyrir það?!"

Sérvalda sturtuhengið mitt, innflutt frá Ameríkunni, verður þannig að öllum líkindum ekki brúkað áfram í Breiðholtinu. Og unnustinn verður minntur á akkúrat einmitt þetta ef hann mun nokkurn tímann gefa í skyn að ég sé snobbuð með helst til dýran smekk.

Allavega.

Heimili mitt, mér til mikillar ógleði, er í kössum út um alla íbúð. Mestmegnis. Það getur ekki verið heilbrigt að þurfa 12 kassa undir bækur. Og nú leiðist mér svo hrikalega því allt þetta skemmtilega (vínglös, áðurnefndar bækur, kertastjakar) er komið í kassa svo að þegar við erum ekki að rústa íbúðinni enn frekar í kassaflóði sit ég bara í tölvunni og annað hvort fikta í hárinu á mér eða bora í  nefið (upp á tilbreytingu) og það versta er að ég er orðin alvarlega háð Candy Crush aftur. Að vísu er það öppgreiduð útgáfa, Candy Crush Soda, sem við hjónaleysin kúrum núna yfir öllum stundum bjargandi hlaupböngsum. Ásamt því að reyna að brenna niður alla kertastubbana sem ég á - því ég tími ekki að henda þeim og nenni ekki að flytja þá með mér.

Æj þetta gæti alveg verið verra. Ég einblíni bara á góðu hlutina og ímynda mér að ég sé ekki innra með mér með óviðráðanlega þörf til þess að kasta mér í gólfið og grenja yfir að við séum ekki flutt ennþá.

Til dæmis...
- Það fer nýbökuðum unnusta mínum dásamlega að vera með hring
- Það er til Snickers með hnetusmjöri (eða var það allavega þegar ég hóf skrif á þessari færslu)
- Ég á eftir að horfa á ógeðslega marga þætti af Modern Family
- Við erum alveg að fara að fá alvöru internet
- Á leiðinni til mín er eitt stykki Pyropet kisukerti
- Ég er alveg að fara að mega eyða öllum mína tíma í að mála veggi. Á erfitt með að ímynda mér hvað gæti verið betri afþreying


- knús -

Ps sá sem ýtir hvað ákafast á læktakkann þarna efst við titilinn á færsluna fær engin verðlaun. En það myndi samt gleðja hjartað mitt slatta mikið :)

Saturday, January 3, 2015

ný byrjun

Ég verð alltaf dálítið melankólísk og þenkjandi á áramótunum og þá sérstaklega á gamlársdag. Renni yfir árið í huganum, íhuga hvað hefði mátt fara betur, hvað ég er ánægð með, hvað ég er þakklát fyrir. Eitthvað svoleiðis.

Þetta ár var heldur betur viðburðarríkt. Yndislegt, ljúfsárt, spennandi, sársaukafullt, himneskt, brothætt, skrítið, ástríkt, stuttlangt, kærleiksfullt.

Vá hvað ég kann mörg lýsingarorð.

2015 byrjaði einnig heldur betur með hvelli. Við sambýlismaðurinn eyddum gamlárskvöldinu heima hjá foreldrum mínum en mamma hans kom þangað með okkur. Þetta voru fyrstu áramótin á mínum 29 árum sem bróðir minn var fjarstaddur góðu gamni (hann var að vísu í ágætis yfirlæti hjá heitmeynni sinni og fjölskyldu hennar í Reykjavíkinni) og það var dálítil hola í hjartanu mínu. Og kvöldið óvenju rólegt og ég fékk að sprengja upp langflesta flugeldana í staðinn fyrir að standa kyrr og fá í mesta lagi að halda á blysi. Loksins! Við komum svo heim um tvöleytið eftir að hafa skutlast í bæinn örskamma stund og steinsofnuðum. Vöknuðum allt of seint og það var allt sem ég þurfti. Fátt betra en að þurfa ekki að vakna við vekjaraklukku.

Ég er afskaplega að fresta því að skrifa það sem þessi færsla átti upprunalega að vera um.

Sambýlismaðurinn vaknaði með afar karlmannlega verki í höfðinu og almennt einhver leiðindi, held að hann sé með hita. Hann lá þess vegna uppi í rúmi í herberginu sem kallast í daglegu tali draugaherbergi, en þar erum við með gamla rúmið hans fyrir gesti og fólk sem almennt kemur í heimsókn og þarf á smá kúri að halda. Ég sinnti að sjálfsögðu skyldum mínum og gaf honum vatnsglös, knús og verkjatöflur eftir mætti.

Einhvern veginn endaði sá verknaður á því að hann bað mín.

Ég sagði já.



2015, þú byrjar vel :)



- Ég skrifaði þessu færslu rétt eftir að atburðurinn átti sér stað til þess að festa hann betur í minninu á mér. Birti hana núna eftir að við erum búin að láta foreldra okkar og þá sem eru næstir okkur í hjarta vita -