Wednesday, January 14, 2015

6 dagar

Bara 6 dagar þangað til við fáum íbúðina okkar afhenda. Fyrstu íbúðina okkar saman.

Þegar fyrrum sambýlismaður minn, nú unnusti minn, flutti inn til mín var hann að flytja í íbúð sem ég hafði búið í síðan 2009. Hér hafði ég breytt og skreytt og hagað öllu nákvæmlega eins og ég vildi (og nennti að) hafa í kringum mig án þess að neinn gæti fengið eitthvað við því sagt.

Nema pabbi þegar ég bað hann um aðstoð þegar ég hafði keypt eitthvað sem ég annað hvort gat ekki borið upp stigann sjálf nú eða flutt í alltof litla stelpubílnum mínum.

Unnusti minn hefur að vísu þægilega litlar skoðanir á hlutunum (og vill meina að ég sé með afskaplega góðan smekk). Þannig urðu engir árekstrar við þennan aðflutning hans frá höfuðborginni í Keflavíkina, hans dót rann bara inn og það hefur farið ágætlega um það innan um allt handvalda hönnunar/RúmfatalagersIkeadótið mitt.

Á þessu er ein undantekning.

Á baðherberginu hef ég verið með silfurgrátt sturtuhengi, keypt og sérvalið í Target. Fékk nefnilega á sínum tíma mjög alvarlega þráhyggju fyrir sturtuhengjum, hugsaði varla um annað og svaf varla fyrir þessu vandamáli að eiga ekki nógu kúl en um leið fágað sturtuhengi. Þetta var allt saman afskaplega erfitt í ljósi þess að markaðurinn sturtuhengja er ekkert sérstaklega stór hér á landi. Mögulega er hann ekkert það lítill heldur. Bara ekki nógu stór fyrir mig og mínar afskaplega fjölbreytilegu þarfir og skort á töku til ákvarðanna.

Eftir miklar umveltingar og fylgihlutapælingar varð silfurgráa sturtuhengið sumsé fyrir valinu og vinkona mömmu flutti það inn til landsins. Jebb, ég þurfti að leita út fyrir landsteinana fyrir sturtuhengi því ekkert annað gat mögulega hentað mér. Slíkar og þvílíkar voru kröfurnar.

Ég lifði í ágætis sælu með títtnefndu sturtuhengi, bæði á Eggertsgötunni í alltof litlu stúdentaíbúðinni minni og eins hér á kanavellinum, í alltof stóru leiguíbúðinni minni. 

Í Breiðholtinu fáum við síðan sturtu sem er nýleg og fancy með glervegg (og LED ljósi í sturtuhausnum, omg) og því munu leiðir mínar við sturtuhengið skilja, nema, eins og ég minntist á við unnusta minn eitt kvöldið þegar við vorum á leiðinni heim úr vinnunni, að við veljum að hafa það líka þar því það er alveg hægt. Ef okkur langar sérstaklega mikið að sulla og busla.

Þessari athugasemd minni fylgdi dálítil þögn og svo kom skellurinn, með þvílíkri fyrirlitningu: "átt þú þetta sturtuhengi?! valdirðu það sjálf?! og borgaðiru svo peninga fyrir það?!"

Sérvalda sturtuhengið mitt, innflutt frá Ameríkunni, verður þannig að öllum líkindum ekki brúkað áfram í Breiðholtinu. Og unnustinn verður minntur á akkúrat einmitt þetta ef hann mun nokkurn tímann gefa í skyn að ég sé snobbuð með helst til dýran smekk.

Allavega.

Heimili mitt, mér til mikillar ógleði, er í kössum út um alla íbúð. Mestmegnis. Það getur ekki verið heilbrigt að þurfa 12 kassa undir bækur. Og nú leiðist mér svo hrikalega því allt þetta skemmtilega (vínglös, áðurnefndar bækur, kertastjakar) er komið í kassa svo að þegar við erum ekki að rústa íbúðinni enn frekar í kassaflóði sit ég bara í tölvunni og annað hvort fikta í hárinu á mér eða bora í  nefið (upp á tilbreytingu) og það versta er að ég er orðin alvarlega háð Candy Crush aftur. Að vísu er það öppgreiduð útgáfa, Candy Crush Soda, sem við hjónaleysin kúrum núna yfir öllum stundum bjargandi hlaupböngsum. Ásamt því að reyna að brenna niður alla kertastubbana sem ég á - því ég tími ekki að henda þeim og nenni ekki að flytja þá með mér.

Æj þetta gæti alveg verið verra. Ég einblíni bara á góðu hlutina og ímynda mér að ég sé ekki innra með mér með óviðráðanlega þörf til þess að kasta mér í gólfið og grenja yfir að við séum ekki flutt ennþá.

Til dæmis...
- Það fer nýbökuðum unnusta mínum dásamlega að vera með hring
- Það er til Snickers með hnetusmjöri (eða var það allavega þegar ég hóf skrif á þessari færslu)
- Ég á eftir að horfa á ógeðslega marga þætti af Modern Family
- Við erum alveg að fara að fá alvöru internet
- Á leiðinni til mín er eitt stykki Pyropet kisukerti
- Ég er alveg að fara að mega eyða öllum mína tíma í að mála veggi. Á erfitt með að ímynda mér hvað gæti verið betri afþreying


- knús -

Ps sá sem ýtir hvað ákafast á læktakkann þarna efst við titilinn á færsluna fær engin verðlaun. En það myndi samt gleðja hjartað mitt slatta mikið :)

2 comments:

  1. Þetta stutuhengismál!...... shit hvað tók langan tíma og mörg tár að finna það eina rétta!

    ReplyDelete
  2. Já! Og núna er það bara inni í geymslu, aleitt og yfirgefið Ætti kannski að reyna að selja það á Notaðar hönnunarvörur :D

    ReplyDelete

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)