Monday, January 26, 2015

Loksins

Við erum loksins flutt. Mér líður eins og ég hafi beðið í mörg ár eftir að fá afhent en í raun og veru var þetta alls ekki svo langur tími. Við ákváðum í september, á afmælisdegi unnustans, að athuga hvort við hefðum möguleika á að gerast svo ráðsett að eignast okkar eigin íbúð í stað þess að ílengjast á leigumarkaðnum. Á afmælisdeginum mínum, í lok nóvember, undirrituðum við síðan skjölin frá bankanum um húsnæðislánin og vorum þannig á ekki nema rúmum tveimur mánuðum að finna okkur nýtt heimili.

Undanfarnir dagar eru búnir að vera kreisí. Íbúðina fengum við afhenda á mánudegi í stað þriðjudags sem var frábært fyrir óþolinmóðu mig. Þriðjudagurinn fór síðan í að spartsla, velja endanlega liti á íbúðina og kaupa málningu. Pabbi kom síðan bæði á miðvikudeginum og fimmtudeginum og gerði íbúðina að því sem hún er. Að mála heila íbúð á tveimur dögum er náttúrulega nett geðveiki og þetta segir í alvöru ekkert um að íbúðin sé eitthvað sérstaklega lítil heldur er þetta allt skrifað á pabba og hversu duglegur hann er.

Ég fékk afskaplega frjálsar hendur varðandi val á málningu og er þess vegna alveg hæstánægð. Grunnliturinn er arkítektúrhvítur og hann er á allri íbúðinni að undanskildum einum veggjanna í stofunni og veggnum fyrir aftan rúmið. Fyrir aftan rúmið er liturinn þangbrúnn sem er samt fjólublár og á stofuveggnum er tinnusvartur. Þessu mun ég birta myndir af eins fljótt og ég get en um þessar myndir sést lítið í fínerí þar sem það eru ennþá kassar út um allt.

Flutningarnir gengu alveg vonum framar og gott betur en það. Við fengum flutningabíl frá Flutningaþjónustunni til þess að keyra draslið okkar á milli bæja og erum afskaplega ánægð með þá þjónustu sem við fengum. Við vorum búin að gera ráð fyrir í það minnsta fjórum tímum í flutningabílinn en svo tók það okkur ekki í raun nema tvo og hálfan tíma fyrir hann að koma til okkar, að fylla hann, keyra í bæinn og tæma hann. Svo voru jú einn eða 50 kassar í tveimur stórum bílum. Það er náttúrulega rugl hvað maður á mikið af drasli. Og samt hentum við heilum helling.

Þetta hefði allt saman ekki verið hægt án hjálpar og hana fengum við sko helling af. Það er frábært að eiga svona mikið af fallegu fólki sem maður getur treyst á þegar á þarf að halda og í raun komust færri að en vildi.

Nú tekur bara við yndislegur (og örlítið þreytandi líka) tími sem mun fara í að taka upp úr kössum og gera allt fínt, við ætlum að skipta út innstungum og fá okkur eðlilegar í staðinn fyrir þessar gömlu ítölsku og dimmi á flestöll ljós (ví!). 

Hlakka til að segja frá meira progressi í næstu færslu, núna er kominn tími á að kúra í fallega unnustann minn og vera væmin með honum :)

- knús -

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)