Wednesday, February 4, 2015

ef ég nenni

Smá update af ruslahaugnum í Breiðholtinu. Já, þetta er ennþá ruslahaugur. Já, ég hlakka til að þetta verði ekki ruslahaugur. Já, ég nenni ekki að taka upp úr fleiri kössum.

Sem er afar sérstakt í ljósi þess að það eru eiginlega bara skemmtilegir kassar eftir. Þið vitið, kassar merktir Random House Doctor dót og Kertastjakar og Hnettir og Fleiri kertastjakar og og og (Iittala dótið var sko borið hingað inn fyrst af öllu og er sko löngu komið upp inn í glerskáp).

Það eina sem ég nenni að gera er að þvo þvott. Þvottavélin okkar og (nýi) þurrkarinn eru í sameignarþvottahúsinu sem er á sömu hæð og við og bara sex skref í burtu. Allar hinar íbúðirnar eru með tengi fyrir þvottavél svo að þetta er í raun mitt eigið 20 fermetra þvottahús með milljón snúrum. Bjóst við því að ég myndi ekki sofa fyrir því að vita af blautum þvotti í allra augnsýn en þetta vandist afskaplega fljótt. Fyrir utan að ég einhvern veginn efast ákaflega um að fólk hafi almennt áhuga á að skoða annarra manna handklæði og boli (ég fer sko með nærfötin hingað inn og skelli þeim bara á næsta ofn, það er alltílæ).

Svo að það er allt saman mjög spennandi.

Ég myndi birta myndir af ástandinu en það er of depressing og ég skammast mín dálítið fyrir það. Sér í lagi fyrir sængurnar úr gestarúminu sem eru alveg óvart búnar að finna sér stað í öðrum sófanum (hinn er ennþá fullur af kössum) - þær eru samt löglega afsakaðar þar sem verðandi húsbandið er veikt og skelfur af kulda sama hvaða hitastig er hérna inni.

Síðast þegar hann varð veikur - fyrir rétt rúmum mánuði síðan - bað hann mín.

Ég bíð spennt eftir að sjá hvað gerist núna.

- knús -

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)