Sunday, January 24, 2016

húsráð

... en samt ekki húsráð. Meira svona, hvað virkar fyrir mig til þess að halda heimilinu mínu sæmilega fínu. Ekki endilega hreinu, heldur fínu.

Í 73 fermetra íbúð stútfullri af dóti er jú mjög auðvelt að detta í einhvern kaospytt. Ég las einhvers staðar nokkur ráð sem ég hef reynt að fara eftir og bætti eftir þörf mínum eigin:

- Að ganga frá í eldhúsinu hvert einasta kvöld, helst á meðan ég er að elda og moppa gólfið
- Að búa um rúmið. Ef ég nenni því ekki fyrir vinnu er það yfirleitt það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim úr vinnunni á meðan sambýlismaðurinn gengur frá inni í eldhúsi ef við fórum í búð á leiðinni heim. Um leið geng ég frá fötum sem vilja safnast saman í kringum rúmið, við erum hvorugt á leiðinni í NBA svo að við hittum ekki alltaf í óhreina tauið þegar við köstum af okkur þangað. Hér er líka mikilvægt að opna glugga svo að við köfnum ekki úr loftleysi.
- Að ganga alltaf frá í sófanum eftir kósýkvöld. Þetta hljómar kannski kjánalega en ég kýs að hafa ótalpúða og teppi og krúserí og þegar það er ekki á sínum stað er sófinn ekkert að virka.
- Að ganga alltaf jafnóðum frá þvotti. Mjög erfitt að standa 100% við þetta en ég er samt að reyna.
- Að ganga frá leirtaui úr stofunni/tölvuherberginu inn í eldhús á hverju kvöldi. Ég er alls ekki manneskja til þess að ganga frá jafnóðum, mér finnst það ógeðslega leiðinlegt og ég nenni því aldrei.
- Að taka af og til aukalega hreingerningu ef ég sé að það þarf. Við þrífum alla íbúðina á laugardögum en þá er það "bara" að þurrka af öllu, þrífa baðherbergið og eldhúsið, ryksuga (mér finnst ryksjúga ljótt orð) og skúrum og skiptum á rúminu. Þá er ég ekki að nenna að gera neitt aukalega eins og að þrífa skápinn undir vaskinum þar sem ruslið er eða taka til í skúffum. Betra að gera það á öðrum tímum.
- Að passa að allir hlutir eigi sinn stað. Ef hlutur á ekki sinn stað er það bókað að hann er alltaf fyrir. Allir þurfa að eiga heimili, líka hlutir.

Þetta eru alls ekki atriði sem ég fer stöðugt eftir en ég hef nú samt rekið mig á það að mér líður alltaf betur ef að heimilið er sæmilega fínt. Ef allt er gert reglulega og kemst í rútínu verður það strax minna mál.

Vá hvað þetta var leiðinleg færsla. Ætti kannski ekkert að vera að birta hana. Oh fokkit.