Monday, December 7, 2015

Óskalisti fyrir Gussa

Ákvað að henda í smá óskalista, bæði fyrir aðra og eins fyrir sjálfa mig


AW171

All is pretty plakat.
Búin að vera hrikalega skotin í þessum lengi og fattaði ekki fyrr en í gær að þau eru seld á Íslandi. Jeij! 
Fæst hér.



ILNP naglalakk
Langar auðvitað í þau öll en þessi kitla mig einna mest:
Diablo, Missed Calls og Mega.
Fæst hér.
E15 Flat Definer - KOPARE10 Small Eyeliner - KOPAR
E36 Blending - KOPARE20 - Short Shader KOPAR
Sigma beauty burstar
E36, E20, E15 og E10 í kopar af því að ég elska kopar.
Fást hér.

MB30 Deluxe Flat ContourMB7 - Angle Buffer
Morphe burstar
MB7 og MB30
Fást hér.

Lukkutröll - þetta er bara of gordjöss.
Fæst hér.

Fallegu glervörunum frá Kastehelmi er ég að safna bæði í glæru og gráu, það fylgdu engir diskar í kaffistærð með stellinu mínu frá ömmu svo að ég læt þessa fylla í skarðið. Glösin finnst mér ótrúlega falleg líka og við eigum enginn fínni vatnsglös.
Fást hér.

Marimekkoskálarnar frá Iittala finnst mér dásamlegar. Ég á nokkra liti en langar líka í t.d. sítrónugula, laxableika, frost og cranberry. Myndi heldur ekki segja nei við fallegu ljósbláu og -grænu. 
Fást hér.

Matte Lipgloss - FleurMatte Lipgloss - Black Currant
LA Girl Matte Lipgloss í Fleur og Black Currant.
Fást hér og hér.

LA Girl Gel Glide Eyeliner í white og champagne.
Fást hér og hér.

Lancome Grandiose maskarinn - langar svo bilað að prófa hann.
Fæst hér.

Menu POV kertastjakinn er dásemd í svörtu og gylltu.
Fæst hér.

[Alternative text][Alternative text][Alternative text]
Iittala Festivo kertastjakar - ég á númer 2, 3, 4 og 5 en væri afskaplega til í þessa þrjá líka.
Fást hér eða hér.

Kastehelmi kertastjakar í desert eða skógargrænum
Fást hér.


Thursday, August 20, 2015

Hárlengingar: já eða nei?

Ég hef lengi átt í innri umræðum við sjálfa mig (augljóslega) þar sem ég læt mig dreyma um að vera með sítt, þykkt og fallegt hár. Ég vissi af hárlengingum en hafði í rauninni ekki hugmynd um hvernig það virkaði og hvort að svoleiðis væri yfirhöfuð fyrir aðra en fitnessgellur. Þegar pælingarnar mínar um áðurnefnda síða, þykka og fallega hárið ágerðust (ég er jú að fara að gifta mig á næsta ári) fór ég að gúggla hárlengingar og reyna að kynna mér eitthvað um þar. Ég fann undarlega lítið af "alvöru" fróðleik, bara frásagnir kvenna sem voru annað hvort rosalega ánægðar eða mjög ósáttar. Mér fannst vanta frásagnir frá alvöru fólki úti í bæ sem hafði prófað þetta þar sem ég gat lesið um hvernig þetta virkar í raun og vera.

Svo að hér kemur semsagt ein slík, jei!

Ég fæddist með ljósrautt hár sem með árunum hefur orðið sífellt fíngerðara. Þegar ég varð 15 ára fór ég að láta setja í mig strípur frekar reglulega og þegar ég varð 17 ára byrjaði ég að heillita á mér hárið, fyrst brúnt, svo dökkbrúnt og á endanum var það svart (ég sakna þess pínulítið ennþá). Rótin sem kom með dökku litunum var að sjálfsögðu hryllileg og ég var á endanum farin að lita það á þriggja til fjögurra vikna fresti. Látum alveg vera þó að ég hafi oft inn á milli bara litað rótina þar sem hún sést hvað helst.

Snemma árið 2014 langaði mig í breytingu og ákvað að trappa hárið rólega niður í eitthvað ljósara. Þá fór ég ca. fimm sinnum í strípur og endaði í lit sem var svo nálægt mínum eigin að ég gat hætt að lita það. Ótrúlega mikill lúxus. Þá hætti ég samt alfarið að nenna að hugsa um hárið á mér og oft komu margir dagar þar sem ég greiddi mér ekki einu sinni og var bara með druslulegan snúð. Eftir heilt ár af því ásamt því að hafa nánast aldrei látið særa endana var hárið orðið einstaklega ljótt og slitið og ég vissi að ég yrði að gera eitthvað í þessu áður en að fólk myndi fara að kalla mig fuglahræðu eða hætta að tala við mig. Hvoru tveggja hræddi mig.

Ég pantaði tíma í klippingu og strípur á stað sem samstarfskonur mínar mæltu með og læt þær vita að hárið á mér væri eins og fjaðrir og að það yrði að gera eitthvað í þessu og bara klippa þetta og reyna að gera eitthvað gott úr þessu. Fór síðan heim ógeðslega fúl því það var ekkert það sem ég vildi. Ég vil hafa sítt hár - ég fæ ekki að hafa dökkt (án þess að lita það í drasl) svo að ég vil þá allavega fá að hafa það sítt! Eftir fjölskyldufund fékk ég síðan grænt ljós á að athuga hárlengingarnar, hvort að það væri ekki bara málið.

Í framhaldi af því hafði ég samband við facebook-síðu harlengingar.is og þær svöruðu eiginlega alveg strax sem var frábært því um leið og ég ákveð að gera eitthvað þarf það að gerast strax. Þar sem mér lá einna helst á að vita var hversu mikið þetta kostar og hvort að það mætti þvo hárið daglega. Verðið sem mér var gefið var 35 þúsund krónur fyrir 100 lokka (ég reyndist þurfa 68) og já, það má þvo hárið daglega. Þetta verður bara alveg eins og manns eigið hár, það má lita, krulla og slétta og gera allan andskotann (þær mæla samt ekki með því að lita það ljóst og það er auðvitað bara óþarfi, þú færð þér bara ljósa lokka).

Mér til mikillar ánægju fékk ég tíma tveimur dögum seinna. Ásetningin sjálf tók ca 45 mínútur og leið mjög hratt (nema í lokin þegar ég var orðin óþreyjufull á að komast út og sýna fólki nýja fína hárið mitt). Ég keypti síðan sjampó og hárnæringu á staðnum ásamt hitavörn því að það má ekki nota hvað sem er með festingunum (bæbæ tigihárvörusafnið mitt). Ég splæsti líka í gormateygjunum víðfrægu því mér fannst rökrétt að nota góðar teygjur í dýrt hár. Þær sendu svo á mig leiðbeiningar um hvað mætti og mætti ekki gera, þetta eru virkilega ítarlegar leiðbeiningar og segja í rauninni allt sem segja þarf.

Festingarnar sjálfar sjást mjög lítið en skiptingarnar á milli þeirra sjást að sjálfsögðu. Hárið á mér blandast lengingunum ágætlega en mitt er svo mikið fíngerðara en lengingarnar að ég greiði það nokkrum sinnum yfir daginn til þess að það sjáist enn minna. Að setja blautt hárið í tagl endar yfirleitt með mínu hári krumpuðu við hnakkann og lengingunum fallegum á sínum stað.

Ég var mjög fljót að venjast þessu - þær töluðu um að eftir fjóra daga yrði þetta eins og mitt eigið hár og ég er sammála því. Fyrst fannst mér mjög skrítið að sofa á hárinu og var hrædd um að slíta það. Eins var ég hrædd um að slíta hárið af þegar ég greiddi mér (mæli með tangle tweeser eða sambærilegu). Hárið flækist nánast ekkert sem er mjög mikill kostur - maður er jú að greiða það af og til yfir daginn og gætir þess að það verði ekki úfið. Svo bara lærir maður handtökin við að greiða og verður smám saman öruggari. Ég sef alltaf með fléttu.




Í leiðbeiningum kemur fram að eðlilegt sé að einn og einn lokkur detti úr eftir 6 til 8 vikur. Eftir 3 vikur datt einn úr hjá mér. Það var ekkert vont eða óþægilegt, ég tók bara eftir því einn morguninn að á einum stað virtist einn lokkurinn síðari en hinir. Ég tók í hann og hann kom bara með, var greinilega laus. Ég hef oft leitað að staðnum sem hann var á en finn hann hvergi, það kom enginn skallablettur eða neitt þannig. Hinir eru enn allir á sínum stað og hárið lítur svo til nákvæmlega eins og út og á degi 1, ef ekki betur.

Almennt þarf síðan að koma í lagfæringu á ca 3 mánaða fresti og lagfæringin kostar 15 þúsund krónur. Þetta er þannig rándýrt í byrjun en að borga síðan 15 þúsund á þriggja mánaða fresti finnst mér algjörlega ásættanlegt og læt það alveg vera, sérstaklega þar sem ég lita ekki á mér hárið.

Það eina sem ég myndi setja út á það er að ég hefði viljað fá þessar leiðbeiningar fyrirfram og aðeins meira svona face-to-face spjall á undan ásetningunni ásamt því að sjá festingarnar í öðrum. Mér var bent á að allar stelpurnar á stofunni væru með hárlengingar og þær litu allar mjög vel út svo að ég sló bara til. Hárið á mér er mjög raunverulegt, ekkert óeðlilega þykkt og liturinn (sem var valinn fyrir mig) stemmir algjörlega við raunverulega litinn minn. Það hefur enginn tekið eftir því að ég sé með lengingar að fyrra bragði, fólk verður bara hissa á hvað hárið á mér er allt í einu sítt og það trúir því almennt ekki að þetta séu lengingar fyrr en ég sýni því festingarnar.

Sumsé, mæli klárlega með þessu :)

- knús -

ps ég er ekki að fá pening fyrir þessa færslu ... væri samt alveg til í það!

Tuesday, April 28, 2015

langíapríl

Mér datt í hug að það gæti verið sniðugt að búa til ~mánaðarlega óskalista yfir hluti sem mig langar í. Veit að maðurinn minn myndi þiggja svoleiðis og eins þætti mér gaman að sjá hvernig smekkurinn minn þróast. Hef undanfarið tekið eftir breytingum, til dæmis er ég allt í einu farin að fíla gyllta og brasslitaða hluti rosalega mikið og litapallettan í íbúðinni er frekar róleg með málmlitunum, svörtu, gráu, brúnu og hvítu. Er mikið búin að minnka aðra liti; blátt, grænt og gult hefur aldrei verið áberandi hjá mér en rautt og fjólublátt nær þó einhverjum vinsældum.

Sumsé - hér kemur langí í apríl :) ... athugið að listinn er alls ekki tæmandi.


Lítill Aalto vasi


Kastehelmi í nýja fallega desert litnum

Kastehelmi í skógargrænu


Kollur til þess að hafa inni á baðherbergi - Ilva


Stigi til þess að hafa inni á baðherbergi - Ilva


Svört kerti, nom! - Ilva

Sunday, April 26, 2015

AB mjólk á óhefðbundinn hátt

Á síðasta ári urðu í föndurgrúppu sem ég er í á feisbúkk miklar og heitar umræður um hversu sniðug hugmynd það væri að mála rúður með AB mjólk og að útkoman yrði í raun eins og sandblásin filma. Bara milljón sinnum ódýrari.

Mér fannst tilhugsunin mjög spennandi og var strax ákveðin í því að prófa þetta á einhverjum glugganum í nýju íbúðinni og á endanum varð svalahurðin valin í verkefnið. Við erum jú á fyrstu hæð við hliðina á inngangi í stigaganginn og fólk gengur þarna framhjá oft á dag.

Eins og er höfum við ekki keypt neinar gardínur í íbúðina (góðir hlutir gerast hægt!) svo að í stofuglugganum, sem er samvaxin svalahurðinni, eru breiðar, dökkbrúnar tréstrimlagardínur sem duga alveg ágætlega. Svalahurðin er hins vegar allsnakin eftir að ég tók úr henni rúllugardínuna sem var þar, enda passaði hún ekki alveg í gatið og var að mínu mati ekki að gera neitt sérstaklega góða hluti.

Við byrjuðum á að teipa hringinn í kringum hurðina, því ég vildi hafa örmjóa rönd þar sem sæist í gegn. 





Eins og sjá má er útsýnið okkar afskaplega fallegt, gefandi og veitir mér innblástur á hverjum degi.


Hér má sjá aðrar græjur sem þarf til verksins. Ég nota svamprúllu og mér finnst það dálítið lykilatriði, hún er mjög góð til þess að gefa fallega áferð og jafna úr þar sem það þarf.


Eins er líka afskaplega nauðsynlegt að gera þetta íklædd náttbuxum. Og helst eftir klukkan 10, því þá gerast allir bestu hlutirnir.


Svo bara role away! Það þarf slatta af þolinmæði til þess að fara yfir, best er að byrja á að passa að það sé svipað mikið á öllum fletinum og svo er smám saman hægt að jafna það út. Betra að eyða örlítið meiri tíma í þetta heldur en minni því það er ógeðslega fúlt að þurfa að gera þetta aftur. Mér finnst líka dálítið lykilatriði að fara ekki of fast yfir gluggann því þá bæði safnast AB mjólkin í rúlluna og lagið verður þynnra og eins verður maður þreyttari í hendinni og þá hættir maður að nenna að gera þetta vel.

Þetta er samt sem áður í alvöru mjög auðvelt - ef rúllan rennur örlítið til:



... þá er bara að fara yfir aftur til þess að jafna það út:)

Ég gerði þetta daginn eftir að við fluttum inn, en þá var misfagur (en um leið nauðsynlegur) Securitas límmiði í glugganum. Við (ókei ég) báðum um að hann yrði fjarlægður og settur í gluggann við hliðina því okkur fannst hann ... ljótur. Þá komst ég jú að því að það kemur ekki vel út að bletta í ef eitthvað fer úrskeiðis. En það er ekkert mál að þrífa þetta af og kostnaðurinn við þetta er náttúrulega nánast enginn því maður á rúlluna eftir fyrsta skiptið.


Hér má sjá áferðina á meðan AB mjólkin er enn blaut. Það er alveg hægt að sjá rúlluförin á myndinni en þau voru alveg búin að jafna sig daginn eftir. Ég setti þetta á gluggann að kvöldi til og eftir hádegi daginn eftir var þetta algjörlega þornað.

Þetta hélst algjörlega á hjá okkur þangað til að sambýlismaðurinn hleypti óvart ketti inn í íbúðina. Við það að reka hann út (köttinn sko, ekki sambýlismanninn) rak ég (eða kötturinn) mig aðeins í gluggann og þá kom afskaplega pirrandi puttafar (skottfar) neðarlega á hurðina. Þá var augljóslega fátt annað í stöðunni en að taka heitt vatn og tusku, þrífa hurðina og skella annari umferð á.

Hér má svo sjá afraksturinn - mynd tekin um hábjartan dag svo að birtuskilyrðin verða hreinlega varla betri. Ég fékk sambýlismanninn til þess að standa fyrir utan hurðina og eins og sjá má veitir þetta alveg fínt prævasí og bara allir sáttir.


Ég get þannig óhikað mælt með þessari aðferð. Auðvitað er ekki hægt að gera þetta í herbergjum þar sem er af og til raki og bleyta þannig að eldhús og baðherbergi ganga því miður ekki upp - nema að fólk sé spennt fyrir súrmjólk sem híbýlailm. Persónulega mæli ég ekki með því. Svo er auðvitað hægt að hugsa út fyrir kassann og nota til dæmis jarðarberjamjólk í stelpuherbergi (og auðvitað strákaherbergi líka) eða jafnvel setja matarlit út í. Óteljandi möguleikar :)


- knús -