Saturday, January 3, 2015

ný byrjun

Ég verð alltaf dálítið melankólísk og þenkjandi á áramótunum og þá sérstaklega á gamlársdag. Renni yfir árið í huganum, íhuga hvað hefði mátt fara betur, hvað ég er ánægð með, hvað ég er þakklát fyrir. Eitthvað svoleiðis.

Þetta ár var heldur betur viðburðarríkt. Yndislegt, ljúfsárt, spennandi, sársaukafullt, himneskt, brothætt, skrítið, ástríkt, stuttlangt, kærleiksfullt.

Vá hvað ég kann mörg lýsingarorð.

2015 byrjaði einnig heldur betur með hvelli. Við sambýlismaðurinn eyddum gamlárskvöldinu heima hjá foreldrum mínum en mamma hans kom þangað með okkur. Þetta voru fyrstu áramótin á mínum 29 árum sem bróðir minn var fjarstaddur góðu gamni (hann var að vísu í ágætis yfirlæti hjá heitmeynni sinni og fjölskyldu hennar í Reykjavíkinni) og það var dálítil hola í hjartanu mínu. Og kvöldið óvenju rólegt og ég fékk að sprengja upp langflesta flugeldana í staðinn fyrir að standa kyrr og fá í mesta lagi að halda á blysi. Loksins! Við komum svo heim um tvöleytið eftir að hafa skutlast í bæinn örskamma stund og steinsofnuðum. Vöknuðum allt of seint og það var allt sem ég þurfti. Fátt betra en að þurfa ekki að vakna við vekjaraklukku.

Ég er afskaplega að fresta því að skrifa það sem þessi færsla átti upprunalega að vera um.

Sambýlismaðurinn vaknaði með afar karlmannlega verki í höfðinu og almennt einhver leiðindi, held að hann sé með hita. Hann lá þess vegna uppi í rúmi í herberginu sem kallast í daglegu tali draugaherbergi, en þar erum við með gamla rúmið hans fyrir gesti og fólk sem almennt kemur í heimsókn og þarf á smá kúri að halda. Ég sinnti að sjálfsögðu skyldum mínum og gaf honum vatnsglös, knús og verkjatöflur eftir mætti.

Einhvern veginn endaði sá verknaður á því að hann bað mín.

Ég sagði já.



2015, þú byrjar vel :)



- Ég skrifaði þessu færslu rétt eftir að atburðurinn átti sér stað til þess að festa hann betur í minninu á mér. Birti hana núna eftir að við erum búin að láta foreldra okkar og þá sem eru næstir okkur í hjarta vita -

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)