Sunday, February 16, 2014

gamalt og yndislegt

Í tilefni flutninga Vilbergs frænda míns og Hildar konunnar hans komu í ljós tveir kassar af dóti í skúrnum hans í Háaberginu sem fólk virtist hafa gleymt að væri til. Í þeim leyndist nebblega 12 manna sparistellið sem amma Inga og afi Kalli áttu. Og nema hvað, þar sem það eiga allir stell nema ég fékk ég að eiga það. Og orð fá því sko ekki lýst hvað ég er glöð í hjartanu mínu yfir þessari fallegu gjöf.

Fór loksins til mömmu og pabba áðan og náði í það, plataði Þórdísi til þess að bera það með mér upp (því eins og allir vita brýt ég hluti), tók svo skemmtilegasta uppvask ever og raðaði því beint inn í skáp. Og hér er þetta:



Stellið er 12 manna, það vantar nokkra bolla og undirskálar og eins eru einhver skörð hér og þar en ég gæti held ég ekki verið sáttari. Finnst svo yndislegt að hafa fengið að eiga þetta og þykir svo mikið vænt um það.


Í efri hilluna setti ég 6 diska, 6 skálar  og 6 undirskálar ásamt 6 bollum. Svo eru þarna sósukanna, rjómakanna, sykurkar, tarína og tvö föt. Í hillunni fyrir neðan fá síðan afgangsdiskarnir að vera ásamt einni stórri skál.





Annars er ég búin að vera óttalegur aumingi undanfarna daga með hor og einhver óskemmtilegheit og á meðan hafa Ben & Jerry's og Marian Keys bækur af handahófi verið frekar vinsælar (ef einhver annar er tilbúinn til þess að viðurkenna að hann kaupi ís á þúsundkall væri það alveg vel metið). Ég er meira að segja búin að læra að drekka te og allt, vá hvað ég hlýt að vera orðin fullorðin!

Svo er ég líka búin að vera að föndra dáldið kúl og sniðugt sem ég fer alveg að fara að nenna að skrifa eitthvað um. Óttaleg leti í manni svona á nýja árinu ... en það er alltílæ, þetta kemur allt með kalda vatninu :)

ps ... við skulum ekkert ræða hvað var líka í öðrum kassanum, ég er næstum því búin að jafna mig á frekjukastinu yfir að hafa ekki fengið að eiga það líka (hóst mánaðarbollar hóst)


- knús -

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)