Tuesday, February 18, 2014

nýr glerkúpull og borðstofa

Er ekki kominn tími á að deila smá skreytingum og uppstillingu?



Er búin að vera með þetta settöpp í borðstofunni núna næstum því óbreytt frá því að ég tók jólin (loksins) niður einhvern tímann seint í janúar á þrettándanum. Þemað á borðinu er doldið kvenlegt og gert í kringum geymslubók sem ég fann í Rúmfatalagernum rétt fyrir jól, hún er með svona chic old fashioned Parísarþema, með alls konar krúttlegum myndum á. Dálítið ólík því sem ég fell venjulega fyrir en það var samt dáldil ást við fyrstu sýn þegar ég sá hana.



Í kringum hana eru Festivo kertastjakarnir mínir sem ég keypti á ljósanæturtilboði hjá Gogga Hannah með fjólubláum kertum í (pakkinn á 99 krónur í Ikea einhvern tímann fyrir löngu, svo að eðlilega keypti ég milljón pakka). Ofan á bókinni eru síðan kertakórónan mín og mánaðarbollinn minn sem amma gaf mér í afmælisgjöf þegar ég var 13 ára (að ég held).



Á skenknum er síðan að finna ýmislega skemmtilega hluti:



Uppáhaldið þar akkúrat núna er þessi glerkúpull. Mamma gaf mér hann í kringum jólin, þetta er agalega sniðugt að því leytinu til að ef maður snýr tréplattanum við er lítil hola í honum sem glerkúpullinn getur setið í og þá er hann skál. Hann er upprunalega úr ljósum við sem náttúrulega gekk alls ekki upp í mínum augum svo að ég spreyjaði hann háglans svartan:



Ég setti í hann skó frá því að ég var lítil (nei Hannes, þeir passa ekki á mig lengur og eru því augljóslega ekki partur af skósafninu mínu), lét krúttlega jólastjörnu hanga á honum og er bara nokkuð sátt með þetta.


Aðrir skemmtilegir hlutir á skenknum eru síðan þessi fallegi bakki sem ég rétt náði að kaupa frá Í sveit og bæ áður en hún fór í frí. Á honum eru kubbakertisstjaki sem hefur alltaf verið í pari þangað til núna (ég er bara algjörlega komin á skreytingarbrúnina hérna, er svo villt), karafla með oggulitlum könglum í, Home kertastjaki úr Blómaval og lítil sandlituð Marimekko skál (jólagjöf frá Rut) með M-i ofan í (M fyrir mamma?).



Svo er þarna Aalto vasinn minn með hnetti ofan í og hann stendur ofan á bók um jörðina og með honum eru litlu Aalto stjakarnir mínir (finnst þessir þrír helst alltaf þurfa að leika saman). Stóra krukkan mín úr Púkó & smart er þarna líka, ennþá full af könglum og svo er þarna líka postulínsX standandi ofan á Sjálfstæða fólkinu hans Laxness. Jólahjartað hengur ennþá á speglinum og ég er svona eiginlega farin að hallast á að það sé ekkert jólahjarta, heldur bara hjarta. Þetta er allt í eðlilegu framhaldi af því sem er á kertaarninum svo að það er alveg alltílæ í bili að minnsta kosti, verður kannski örlítið minna viðeigandi þegar það fer að vora aðeins meira. En þangað til held ég fast í þessi notalegheit sem fylgja myrkrinu - kertaljós og teppakúr og horfa á myndir og prjóna <3





Semsagt, kósýheit per exelans á þessu heimili - að minnsta kosti í stofunni ;)


- knús - 

update 20.02.14: óvart orð, óvart mynd

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)