Sunday, October 27, 2013

borðstofukósýheit: framhald

Við annan enda borðstofuborðsins er ég með dökkbrúnan, ágætlega massívan skenk sem er líklega upprunalega fenginn í Míru (eða einhverri sambærilegri búð) en ég keypti hann notaðan á Barnalandi á fimmþúsundkall. Klárlega ein bestu kaup sem ég hef gert. Ég plataði litla bróður minn til þess að fara með mér í bæinn að ná í hann á jeppanum sem mamma og pabbi áttu þá, Nissan Patrol. Stuttu síður var hann svo seldur fyrir mikið minni jeppa og síðan þá hefur stórum breytingum á innbúinu mínu snarfækkað ... ekkert má maður.

Skenkurinn stendur uppi við vegg og fyrir ofan hann hanga tvær myndir keyptar í 1928, búð sem ég sakna mikið. Verð að viðurkenna að ég er komin með nett ógeð á þessum myndum og langar dálítið mikið í spegil í staðinn, sona langan og mjóan. Held að það gæti orðið dáldið kúl. En þangað til hanga Marilyn og Audrey þarna ennþá í góðum fíling. 

Í gær sýndi ég ykkur þessar myndir af borðstofuborðinu og á henni glittir í ævintýralandið fyrir aftan borðið:



(ég gleymdi náttúrulega að segja frá lampaskerminum sem að er fyrir ofan borðið. Þegar ég flutti hingað var þarna viðbjóðslegur gulhvítur skermur úr plasti, grútdrullugur. Á síðasta ári skipti ég honum síðan (loksins) út fyrir þennan einfalda og stóra skerm úr Ikea og munurinn var þvílíkt mikill. Ljós geta haft svo mikil og góð áhrif á umhverfi sitt).

En aftur að máli málanna

Skenkurinn býður semsagt upp á mikla möguleika í skreytingum og venjulega eru uppstillingarnar á honum og borðinu tengdari. Ég var bara svo æst fyrir því að skreyta með strigaböndunum og skrapp&gaman dótinu og fannst það einhvern veginn ekki passa með mjúku litunum og rómantísku stemmningunni sem er á skenknum:



Er súpersátt við þetta eins og þetta er í dag og efast um að ég breyti þessu eitthvað að ráði fyrr en ég fer að jólast (dreym). Þarna er mikið í gangi og því betra að skoða hvað actually er þarna með nærmyndum:

Þarna er ég með aftast glervasa keyptan í Garðheimum, í honum er risastórt hvítt blóm og perlur (lovely). Undir öllu kertastjakaflóðinu er ég með tvær geymslubækur, sú stærri er úr Blómaval og sú minni úr MyConceptstore. Blúndukertin ofan á keypti ég í Ilva - hafði lengi ætlað mér að gera eitthvað svipað sjálf en fann þau svo þarna tilbúin á 70% afslætti og gat ekki ekki keypt þau. Kertastjakarnir tveir aftast eru úr Púkó & smart - var heillengi að ákveða hvort ég ætti að kaupa þá eða ekki, keypti þá ekki og fór. Þegar ég átti síðan leið þar aftur (alveg óvart) einhverjum vikum síðar voru þeir ennþá til og þá á 50% afslætti. Og auðvitað keypti ég þá í það skiptið. Ég batt síðan utan um þá gráa litla flauelsborða úr Skrapp & gaman (sakn). Litlu styttuna af fallegu, góðu börnunum sem eru að lesa saman fékk ég í skóinn þegar ég var bara lítið pons, kannski 8 ára, og þykir ótrúlega vænt um hana. Svo er ég þarna með litla batterísseríu til þess að fullkomna kósýheitin. Þarna er að vísu, ólíkt aðstæðunum á borðinu, alveg hægt að vera með hefðbundna seríu en ég er nýbúin að færa þá sem var þarna annað. Svo að batterísserían verður að duga í bili, og hún stendur sig alveg ágætlega.


Hægra megin á borðinu er ég með tvo stjaka úr Ikea (fann þá í skilavöruhorninu góða svo að þeir voru hundódýrir). Hef oft verið að vandræðast með hvar ég á að hafa þá, mér finnst þeir mjög fallegir en a) þeir eru hvítir og ég er hálfóvön því að eiga hvíta hluti og b) þeir eru jafnháir og koma því að mér finnst stundum hálfundarlega út saman. Þarna setti ég annan þeirra ofan á tvær bækur (og það mjög skemmtilegar bækur nota bene) og við það breytist allt. Bækurnar gefa andrúmsloftinu á borðinu mikið líf, sérstaklega þessi grænbláa. Ég er venjulega ekki mikið fyrir liti eins og þessa sem eru á borðinu, ljósgræna, ljósbláa og ljósbleika en þarna finnst mér þetta virka fullkomlega og rammast vel í eina heild. Ég leyfði svo húsastyttunni minni að vera með þarna - mig minnir endilega að mamma hafi keypt hana einhvern tímann handa mér þegar ég var lítil, ég hef alltaf verið svo skotin í svona húsum og fundist hálfleiðinlegt að eiga ekki heima í svoleiðis. Við hliðina á húsinu er síðan kerti sem að ég fékk í fermingargjöf - það var annað rautt glas innan í sem brotnaði náttúrulega en þetta hvíta nýtur sín ágætlega eitt og sér. Utan um allt saman vafði ég að lokum hjartabandi (veit ekki hvað annað ég ætti að kalla þetta) sem lafir líka dálítið út af borðinu, þau eru til í Ikea í silfruðu og gylltu og eru upprunalega ætluð sem pakkaskraut. Hjá mér hafa þau fengið ýmsan tilgang, ég er til dæmis með á einum stað hangandi í gardínu og finnst það koma mjög vel út.

Svo eru þarna undir borðplötunni tvær skúffur sem nýtast afskaplega illa því þær eru svo litlar (ég hef sjaldan verið mikið fyrir að pæla í praktískum hliðum hluta sem ég kaupi þegar mér finnast þeir fallegir, það er augljóslega óþarfi) EN þar undir kemur síðan hilla og hana er vel hægt að nota í marga sniðuga hluti. Núna er ég með þar stóra körfu sem ég keypti í Ilva og kassa undan vínflöskum sem pabbi fékk gefins og ég fékk að eiga:



Í körfunni eiga heimili allir dúkar, löberar og diskamottur sem ég á. Þessir hlutir áttu sér fyrir engan sérstakan samastað og voru hálfpartinn dreifðir út um allt - í skúffum og skápum - þangað til ég átti mig á þessari lausn. Mjög þægilegt að hafa allt saman og svona við höndina svo að kona áttar sig betur á hvað er til. Maður á ekki að fela fallega hluti ofan í skúffum :)



(sorrí mamma, ég lofa að skila þessum bleikrauðgulfjólubláröndótta asap)

Hérna er svo kassinn úr vínbúðinni sem er eiginlega meira eins og stór bakki. Hann er hægt að nota í marga sniðuga hluti en þarna er hann í raun bara hirsla. Ég breiddi ofan á hann klukkustreng sem ég fékk frá mömmu til þess að fela það sem er í honum, finnst litirnir svo fallegir og finnst þetta sniðugt. Bakkakassinn er upprunalega bara ómeðhöndlaður, ljós viður en ég penslaði hann með blöndu af te-i, stálull og balsamikediki  (passið að hafa vel loftað út við þess háttar framkvæmdir, lyktin af þessari blöndu er viðbjóður) til þess að fá gamalt lúkk á hann. Finnst þetta voðalega kósý:



Vinstra megin við borðstofuborðið er ég með glerskáp sem ég keypti notaðan af systur vinkonu minnar og gerði hann að mínum með svörtu lakki og nýjum höldum. En fannst ekki hægt að hafa færslu eftir færslu með frásögnum af því hvernig ég lakka alla hluti í heiminum svarta svo að ég kem mögulega betur að því síðar!


Munið eftir að læka mig :)

knús

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)