Thursday, October 24, 2013

a little trip to bedfordshire

Þá er komið að tímaflakki um svefnherbergið mitt með áherslu á kommóðurnar þrjár sem eru þar og misnotkun minni á þeim í gegnum tíðina. Tvær þeirra gegna hlutverki náttborða en sú þriðja er stærri og þar geymi ég hluti og föt sem ekki eru hengd á herðartré (Kaninn hefur ekki hillur í fataskápum enda er það eflaust bara óþarfi). Þetta eru allt húsgögn úr Rúmfatalagernum, upphaflega úr ómeðhöndluðum við sem ég er síðan búin að meðhöndla töluvert oft.

Ég hef náttúrulega bæsað náttborðin bæði töluvert oft og annað meira að segja mikið oftar en hitt. Það keypti ég sjálf eftir fermingu minnir mig og hafði inni í herberginu mínu sem hirslu og síðar náttborð. Fyrst í stað var það bæsað karamellubrúnt en þegar ég flutti það með mér á Eggertsgötuna bæsaði ég það aftur palesanderbrúnt. Þegar ég fékk íbúðina hérna uppfrá vantaði mig síðan stóra kommóðu sökum áðurgreindrar ástæðu og hjónin sem ég keypti hana af (í gegnum Barnaland, en ekki hvað) áttu síðan af tilviljun alveg eins kommóðu og ég hafði notað sem náttborð og mig minnir að ég hafi fengið hana aukalega á í kringum þúsundkall. Þau leyfðu mér svo líka að kippa með þriðju kommóðunni sem var töluvert minni til þess að fylla upp í skottið á bílnum. Mjög drjúg ferð þar. Við flutningana hingað bæsuðum við pabbi síðan allar þessar kommóður rauðbrúnar og í fyrstu leit svefnherbergið svona út, það glittir í stærri kommóðuna þarna fremst:



Ekki láta ykkur bregða þó að allt virðist þarna á skakk og skjön miðað við síðustu færslu - íbúðin er nebblega með tvö RISAstór herbergi og í fyrstu svaf ég í því stærra en það er líklegast í kringum 18 fermetrar (er núna nýtt sem hobbíherbergi / herbergið hans Hannesar og nefnist í daglegu tali draugaherbergið). Þetta fyrirkomulag var alveg ágætt en veggirnir gulu byrjuðu strax á degi eitt að pirra mig ákaflega. Ég ákvað þannig að af-gula íbúðina og keypti svart eðalbæs úr Ikea. Bæsið þakti húsgögnin alveg einstaklega illa, sér í lagi kommóðuna sem ég hafði fengið frá hjónunum af Barnalandi þar sem hún var lökkuð fyrir og erfitt að ná því af. Að öðru leyti kom þetta bara ágætlega út, í það minnsta minnkaði sumarbústaðarstemmningin töluvert þegar ég tók vegglímmiðablómin af, hengdi myndirnar upp í staðinn og setti rauð koddaver á miðjupúðana. Þessi mynd er tekin þremur mánuðum eftir innflutning:


Það er nánast óþarfi að taka fram hvaðan allt er - á þessum tíma verslaði ég eingöngu í Ikea og myndirnar, myndarammarnir og lamparnir eru öll ættleidd þaðan. Þetta lúkk hélst í kringum ár en haustið 2010 ákvað ég á þriðjudagskvöldi að svissa herbergjunum, aðallega af því að a) ofnarnir þann veturinn virkuðu illa og stærra herbergið er með tveimur útveggjum á meðan minna herbergið, sem rúmið var fært í er aðeins með einum og þar af leiðandi hlýrra og b) Hjalti hélt að ég gæti ekki fært rúmið sjálf. Að sjálfsögðu var það ekkert mál og ég vippaði húsgögnunum auðveldlega á milli herbergjanna og var búin að raða öllu upp í bókahilluna og tengja tölvuna og allt vel fyrir miðnætti. Feis! Þá leit þetta svona út:



Anar gardínuvængurinn hefur greinilega eitthvað verið fyrir mér í þessum látum þar sem hann virðist vera að detta af. Þetta fyrirkomulag fannst mér strax mikið huggulegra því þó að herbergið sé tæknilega séð ekki mikið minna ef miðað er við stærð á gólfleti virðist það samt vera það og þá fannst mér auðveldara að gera það notalegt. Þetta hélst síðan nánast óbreytt (fyrir utan vegglímmiðann minn sem ég fékk í afmælisgjöf 2011 frá félaga mínum sem þá rak vegglímmiðafyrirtæki) svona allt þar til snemma árs 2012. Þá hafði mikið gengið á, ég neyddist til þess að losa mig við kött sem ég átti vegna ofnæmis og í framhaldi af því þurfti að þrífa íbúðina og allt í henni frá A til Ö (36 bandarískar þvottavélar, takk fyrir takk). Svefnherbergið var því í þvottahúsinu í einn dag á meðan gólfteppin voru djúphreinsuð:


Nú þegar öllu var raðað upp eftir þetta fannst mér í eðlilegu framhaldi ekki geta gengið að hafa herbergið svona eins áfram og í framhaldi af því ákvað ég að lakka allt heila klabbið háglans svart (með sama lakki og ég lakkaði kertaarinninn minn). Hér eru náttborðin tilbúin í meikóverið:


Eins og þið mögulega sjáið eru þær alls ekki eins á litinn og þetta var meginástæða þess að ég ákvað að lakka í stað þess að bæsa (í milljónasta skiptið). Svarta Ikeabæsið var mjög ljótt á kommóðunni sem hafði verið lökkuð fyrir og ég hafði í óþolinmæði- og bræðiskasti meira að segja látið vera að lakka alla leið niður þá hliðina á kommóðunni sem ég vissi að myndi snúa að rúminu og því ekki sjást. Ég tók höldurnar af, pússaði létt yfir þær og eyddi svo einum seinniparti eða svo í að henda lakkinu á. Það er frábært að vinna með þetta lakk, sér í lagi að því leytinu til að það þekur svo vel og auðveldlega og vinnan við þetta var þess vegna mjög skemmtileg.

Nú eftir að lakkið var þornað og allt komið á sinn stað var ég mjög ánægð ... í kannski tvo daga. Fannst ennþá wow-factorinn vanta og íhugaði mikið hvernig ég gæti á praktískan hátt blingað herbergið vel upp á sem auðveldastan máta. Svarið við þeirri spurningu vissi ég innra með mér og hafði vitað það, dreymt það og séð það fyrir mér í langan tíma. Eftir að hafa melt það með mér í nokkra langa og erfiða daga ákvað ég að ég væri tilbúin fyrir alvörufullorðinsfjárfestingu og splæsti í þessum:


Ég hef fengið gríðarlega mikinn mótbyr frá vinum mínum vegna þessara kaupa, eitthvað um að eðlilegt fólk kaupi ekki lampa á svo og svo mikinn pening. MÉR ER ALVEG SAMA! Bourgie fór síðan á sinn stað (vinstra náttborðið), ég smíðaði gafl og keypti nýjar höldur á litlu kommóðurnar. Var í fyrstu að leita að einhverju úberblinguðu eins og þessu sem við Þórdís (Ingunn's Little Helper) fundum í Borð fyrir tvo:


En ég endaði á litlum, plain, glærum höldum úr Snúðar & Snældur í staðinn. Þá var heildarlúkkið komið og ég sátt í bili:


Ofan á kommóðunni má hægra megin sjá mögulega stærsta íslenska BedHead safnið (allt er þetta bráðnauðsynlegt!) ásamt litlum skartgripabakkaturni sem ég fékk í jólagjöf en veit að hann var keypti í Ilva. Vinstra megin er ég með lítinn bakka úr blasti, tvo svarta kertastjaka og eina litla kertakrukku - allt saman keypt í Ilva. Perlufestin kemur frá annarri hvorri ömmu minni, mér finnst fátt fallegra þessa dagana en að skreyta með perlum. Glögg augu sjá síðan mögulega myndina fyrir aftan á speglinum, þetta er nokkurra mánaða Ingunn í fyrstu Ikeaferðinni sinni (af mörgum) :) Spegilinn fékk ég gefins frá fyrri leigjanda íbúðarinnar, alltaf að græða sko. Hef ennþá ekki gert neit við hann annað en að festa á hann sömu fiðrildin og eru á strigakransinum mínum, en er svona að melta það með mér hvort hann þurfi ekki smá meikóver. Lemur í kjós!



Á náttborðinu lampamegin er ég með tvo litla kertasjaka sem ég fékk í jólagjöf á síðasta ári - þeir eru keyptir í Ilvu. Á hinu er ég með tvo stóra kertastjaka sem ég keypti af Barnalandi og lítinn bakka sem ég fann í Kompunni (keflvíski Góði hirðirinn) fyrir einhverjum vikum síðan og er mjög ánægð með, þægilegt að henda af sér skartgripum á hann.

Sjáiði bara hvað þetta er mikill draumur ha! 


Brúnu púðarnir eru eldgamlir, ég held að ég hafi verið í kringum 8 ára þegar ég fékk þá. Þeir voru hræðilega gul/fjólublá/svarskræpóttir (tíundi áratugurinn í hnotskurn) en mamma saumaði utan um þá fyrir mig þegar ég flutti á Eggertsgötuna og notaði til þess afgangsefni úr gardínunum sem ég var með þar og er líka með hér. Hvítu púðarnir eru úr Ikea, rauði hringlaga púðinn er úr The Pier (á annan svartan sem er alls ekki síðri) og langa, mjóa púðann sem sést eiginlega ekkert í keypti mamma handa mér í einhverjum útlöndum. Rúmteppið sést því miður ekki nógu vel en það er úr Ilva og ég er ennþá ruglklikkaðsmegaánægð með það - þó að ég mætti náttúrulega alveg notað það oftar :)

Ég er með plön um að kaupa ný púðaver utan um brúnu púðana því þeir eru orðnir frekar ljótir og dálítið þreytulegir og þá mun ég mögulega skipta á hinum líka þar sem litapallettan mun að einhverju leyti breytast. Mig langar líka rosalega mikið að fá mér þunnar gardínur undir þær brúnu sem eru fyrir - eldhúsglugginn á næstu íbúð er hérna í vinkil við minn glugga og það sést svo auðveldlega inn sem mér finnst ekki alveg vera að gera sig. Að öðru leyti er ég ennþá þónokkuð sátt við þetta eins og er og stefni ekki á neinar stórar breytingar í bili, þó að þannig plön geti auðvitað mjög auðveldlega breyst. Svo er ég náttúrulega líka með smá diy dúllerí á veggnum á móti rúminu - en það ætla ég að sýna ykkur seinna!


Munið eftir like-takkanum!
knús

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)