Saturday, October 26, 2013

borðstofukósýheit

Ég er búin að fá eitthvað af fyrirspurnum og athugasemdum um hvort að ég geri ekkert annað en að föndra, smíða, breyta og skreyta þar sem undanfarnar færslur ýta mögulega undir þá ímynd af mér. Það er alls ekki þannig (því miður), heldur eru þetta allt hlutir sem ég er búin að gera á töluvert löngum tíma. Í dag ætla ég hins vegar að sýna ykkur eitthvað nýtt og einfalt - uppstillingar í borðstofunni.

Eldhúsið mitt gerir ekki ráð fyrir borði inni svo að borðstofuborðið mitt er í rauninni líka eldhúsborð. En þar sem ég bý ein (og er löt) er aldrei borðað við það nema eitthvað sé um að vera og gestir í heimsókn. Dagsdaglega stendur það þess vegna bara hreint og fínt og hálftilgangslaust nema að vera fallegt fyrir augun. Og fallegt er það! Týpískt pinnaborð, upphaflega í eigu Ingunnar Sigríðar móðurömmu minnar og Karls afa míns, frá þeim fór það til Vignis frænda míns og Guðbjargar konunnar hans alla leið til Danmerkur og frá þeim fékk ég það síðan, fyrir sex árum síðan. Ef að borð gætu talað...

Ég er yfirleitt með týpískt löber- og bakkacombó á því en skipti reglulega um löber og hlutir í bakkanum fá sjaldan að vera þar mikil lengur en viku, hálfan mánuð. Bakkinn, keyptur í Ilva, er hins vegar nánast alltaf á borðinu þar sem hann er það stór að ég get ekki notað hann annars staðar. Í dag lítur það svona út:





Í staðinn fyrir týpísku stólana sem fylgja borðinu er ég með stóla sem ég keypti notaða af vinkonu minni þegar hún flutti til Bretlands og er mjög ánægð með þá þó að þeir séu sumir dálítið illa farnir. Ólíkt þessum upprunalegu er mjög þægilegt að sitja í þeim sem að mér finnst skipta miklu máli.

Uppstillingin ofan á borðinu er síðan svona:


Bakkinn var heldur ljótur þegar ég keypti hann og ég er búin að mála hann að innan tvisvar. Finnst sniðugt að setja diskamottu í botninn á honum bæði til þess að verja hann og eins til þess að set the mood. Ég vildi hafa hlutleysi á móti gleri og silfri og valdi þess vegna frekar daufa diskamottu, á myndinni virðist hún að vísu allt of mikið út í grænt (ég er ekki mikið fyrir græna og gula liti) en í raun er hún meira út í hermannabrúnt. Sumsé, hlutlaus og í raun meira eins og akkerri fyrir það sem kemur ofan á.

Svo koma þarna með fimm karöflur keyptar bæði í Góða hirðinum og Kompunni (keflvíska Góða hirðinum) á slikk. Þær skreytti ég með bandi úr striganum sem ég notaði á strigakransinn minn og litlum fallegum hlutum sem komu saman úr Skrapp og gaman (æææðisleg búð sem er því miður búið að loka) og á einum þeirra hanga eyrnalokkar sem Ingunn amma átti. Mér finnst skemmtilegast að nota í svona hluti sem ég á til fyrir og innihalda jafnvel góðar minningar:



Sem upphækkun nota ég fjórar Laxness bækur - mér finnst frábært að nota bækur í uppstillingar og skreytingar þar sem hæðamunur getur oft gert mikið fyrir augun og eins eru þær oft fallegar á litinn. Glerið skreytir mikið svo að bækurnar eru hálfhlutlausar undir en samt ekki alveg því gyllingin á kiljunum blingar allt vel upp (ég vona að fólk taki ekki mjög illa í að ég tali um Laxness og noti svo orð eins og bling í sömu málsgrein). Nú, svo er ég með fimmarma kertastjakann minn þarna með (hann fékkst að sjálfsögðu í Ilva) og á honum tjillar lítill ungi sem bróðir minn fékk utan á pakka þegar hann stúdentaðist í vor. Okkur mér fannst tilvalið að ég fengi hann í láni þar sem ég held mikið upp á rautt og eins af því að ég hef sökum smæðar oft verið kölluð ungi (Ingunn -> Unginn). Síðast en ekki síst er þarna lítið djásn sem ég keypti í sumar, rammi úr einni af uppáhaldsbúðunum mínum, MyConceptstore:



Í rammanum eru myndir teknar i ferð með Þórdísi vinkonu minni á jökulsárlónið núna í ágúst, þangað förum við árlega til þess að kíkja á flugeldasýninguna sem frændur mínir í björgunarsveit Austur-Skaftfellinga halda (þessi sýning er möst fyrir alla sem hafa fanatískan áhuga á flugeldum!). Að lokum er þarna ég með litla batterísseríu úr Ikea sem umvefur allt og gefur öllu svo fallegan ljóma. Alveg magnað hvað seríur geta gert mikið og maður felur svo bara batteríin á bakvið.

Í heildina (þið verðið að afsaka léleg gæði myndanna, ég er ennþá að læra hvernig á að taka myndir fyrir blogg):


Vonandi gefur þetta einhverjum hugmyndir um fleiri hugmyndir að fallegum hlutum (hugmyndception)!

knús

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)