Tuesday, October 22, 2013

to the bedmobile

Þá er komið að litlum rúnti um svefnherbergið mitt. Það er líklega ekkert herbergi í íbúðinni sem hefur fengið jafnmikla athygli og þó að breytingarnar þar inni séu kannski ekki áberandi fyrir eðlilegt fólk finnst mér litlir hlutir eins og nýr púði eða vegglímmiði geta gert kraftaverk. Í dag kemur frásögnin af því hvernig ég bjó til gordjössgordjöss rúmgaflinn minn.

Rúmið mitt, keypt notað á barnalandi (já það má og er ekkert endilega ógeðslegt svo lengi sem heimilið sem það er ættleitt af er reyklaust og snyrtilegt), er frá RB og er 180*200 cm (ég er gróflega 162 á hæð svo að þetta rétt dugir mér). Ég keypti það þegar ég flutti hingað árið 2009 og er hæstánægð með það. Þó hef ég alltaf slefað yfir rúmum með einhvers konar himnasæng eða stólpum eða bara einhverju dúlleríi yfirhöfuð:


Já, ég er dáldið mikil miðaldaprinsessa inn við beinið.

Rúmið mitt er upprunalega mjög plain, stór boxdýna og tvær dýnur ofan á sem eru renndar saman og fjórir fætur úr ljósum við. Með pífulaki og ágætis úrvali af púðum varð það smám saman svona (ég mun koma með nánara ferli af þeim breytingum síðar so stay tuned!):


Bara frekar huggó sona - en mér fannst samt vanta punktinn yfir i-ið. Er alls ekki hrifin af málningunni sem er hérna á allri íbúðinni, sama hversu praktísk hún er, svo því minna sem sést í veggina - því hamingjusamari verð ég. Og já, þetta er Kartell lampi með skökkum skermi ;)

Ég fór þess vegna á stúfana út um allan bæ til þess að nálgast hitt og þetta sem myndi vanta við framkvæmdirnar. Innkaupalistinn minn varð eftirfarandi:

- 2 cm MDF plata
- Svampdýna eða sæng
- Gervileður
- Pabbi og heftibyssan hans

Byko seldi mér MDF plöturnar (þær sömu og ég notaði í kertaarinninn minn) - þær eru í tvennu lagi, 90*140 cm. Pabba til mikillar gleði kom ég þeim náttúrulega alls ekki inn í litla stelpubílinn minn svo að hann kom með:


TIl þess að gaflinn verði ekki hrikalega ókósý og harður er æskilegt að hafa eitthvað utan um plöturnar áður en klæðningin er sett á. Ég hafði séð fullt af fólki setja svampdýnur sem er náttúrulega kjörið en þær voru dálítið fyrir ofan budget-ið mitt svo að ég skrapp í Ikea og keypti tvær sumarsængur hjá þeim á í kringum þúsundkall stykkið. Þær eru 150*200 cm svo að þær ná vel utan yfir MDF-plöturnar.

Þá tók við verðkönnun á gervileðri og ég hringdi út um allan bæ til þess að athuga málin (þessi símtöl áttu sér stað í vinnunni og samstarfskona mín sagði mér eftir á að henni hefði alltaf heyrst ég vera að spyrjast fyrir um gervilimi en ekki gervileður og var mjög gáttuð á öllu saman). Gervileðrið reyndist ódýrast í Föndru svo að þangað var förinni heitið næst. Ég keypti tvo metra af því og það rétt dugði.

Þá var komið að því að allir þessir hlutir yrðu góðir vinir með heftibyssunni. Við lögðum leðrið á gólfið og pössuðum að það væri allt slétt og fínt. Þar ofan á komu síðan sængurnar og ofan á þær komu MDF plöturnar: 


(Takið sérstaklega eftir fallega fallega gólfteppinu mínu sem var nýdjúphreinsað þegar þetta var tekið)

Nú pabbi mundaði síðan heftibyssuna af stakri snilld og örskotstund síðar var kominn gafl á rúmið mitt:


Rúmið er hátt en gaflinn er MJÖG hár og mætti eiginlega ekki vera hærri. En eins og alltaf þegar ég fer út í framkvæmdir vildi ég gera þetta almennilega og miðaði þess vegna bara við að gaflinn yrði eitthvað fyrir neðan vegglímmiðann. Það er mjög auðvelt að þrífa gervileðrið og ég mæli mjög með því einmitt þess vegna.

Þetta er eina myndin sem ég á af rúminu tekin þennan sama dag og hún lýsir stemmningunni mjög vel, ég mátti ekki vera að því að laga til áður en ég tók myndina því ég var svo spennt yfir öllu saman. Til þess að bæta fyrir þessi gríðarlegu óreiðu ætla ég að enda þetta á nýjustu myndinni sem er tekin af því en hún er tekin bara áðan. Ég ætla ekki að fara í smáatriði um það sem er á myndinni strax heldur er þetta meira eins og tease fyrir næstkomandi færslur og mér finnst hún meira að segja hálfvegis ekkert í samhengi við það sem ég er búin að vera að tala um því það er eitt og hálft ár frá því að myndin fyrir ofan var tekin. Kertastjakarnir hægra megin eru að vísu nýkomnir þangað aftur og þess vegna virðist breytingin ekki mikil en fyrir mér er þetta næstum því allt annað herbergi (vona að ég sé ekki að uppljóstra of mikið hvað ég á auðvelt með að tapa allri lógík yfir svona löguðu).


Það væri mjög auðveldlega hægt að skreyta gaflinn á einhvern hátt með því að sauma í hann hnappa eða eitthvað þvíumlíkt en ég ákvað að gera það ekki, vildi frekar hafa hann plain og bæta skrauti við síðar meir ef ég fengi leið á honum. Enn sem komið er hefur það ekki gerst og ég er mjög sátt við hann.

ps. Ég er búin að uppgötva af hverju það er ekki hægt að commenta. Málið er að maður virðist þurfa að vera með google+ til þess að allt ui-ið virki almennilega og google hefur bitið það í sig að nafnið mitt sé ekki alvöru nafn og vill þess vegna ekki skrá mig. Er að vinna í þessu! Þangað til megið þið endilega like-a færslurnar mínar :)

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)