Monday, December 30, 2013

eitt lítið jólatré... og fjögur önnur

Þegar ég var lítil fór ég oft með pabba að selja jólatré fyrir jólin, hann var þá í Kiwanisklúbbnum hérna í Keflavík. Mögulega hafa þetta bara verið ekkert svo mörg skipti en í minningunni var þetta eitthvað sem við gerðum saman og áttum saman. Og þess vegna verð ég alltaf dáldið væmin og krúttleg þegar kemur að jólatrjám og það er fátt sem ég elska meira en lykt af greni.

Og þess vegna er ég með fimm jólatré heima hjá mér.

Þetta hljómar kannski dálítið mikið en er það í rauninni alls ekki og sum þeirra gætu vel gengið sem heilsárstré! ... í alvöru.

Þegar ég var ponsupeð, bara svona átta ára kannski, þá var ég ótrúlega mikið spennt fyrir því að eignast mitt eigið jólatré. Það þurfti ekkert að vera stórt, bara að ég ætti jólatré. Ég hélt alltaf að það væri fjarlægur draumur og alltof mikið til að biðja um þangað til að ég kom heim úr skólanum einn daginn og þá var pabbi búinn að kaupa handa mér oggulítið jólatré, mitt eigið tré! Með skrauti og seríu á og allt! Þetta tré á ég ennþá (það sem er eftir af því) og þykir ótrúlega mikið vænt um það. Í dag set ég það alltaf upp inni í eldhúsi - pabbi er matreiðslumaður svo það er bara viðeigandi:



Á því er ég með litlar grænar og bláar kúlur úr Ikea, litla heimatilbúna engla sem ég fékk í afmælisgjöf frá vinnunni og tvö kúlubönd úr Ikea. Slaufan ofan á var á einhverjum pakka fyrir löngu síðan og mér finnst hún svo krúttleg og passar í litaþemað. Ég var með jóladúk undir trénu en hann er eitthvað að fela sig núna svo að ég skellti bara rauðri diskamottu undir það og finnst það koma ágætlega út. Þess ber væntanlega að geta að ég elda mjög sjaldan um jólin (ólíkt öðrum dögum, hóst) svo að þó að jólatréð missi barrið nánast stanslaust yfir eldavélina er ég alveg tilbúin til þess að leyfa því að slæda og þurrka það bara af þegar ég sé það.

Næsta tré á dagskrá er "aðal"tréð, en bara af því að það er stærst. Ég á í töluverðu ástar- og hatursambandi við það af því að mér finnst það ekki vera nógu stórt til að vera "stórt" jólatré, en samt er það ekki nógu lítið til að vera lítið - ég hef reynt að útskýra þetta fyrir þónokkuð mörgum og það virðist enginn skilja mig þegar kemur að þessu! En hérna er semsagt gripurinn:



Þetta er annað árið í röð sem ég er með hvíta seríu á því og ég er mjög ánægð með það. Kemur með gott ballans á móti öllu rauða dótinu. Kúlurnar eru flestallar Ikeakúlurnar góðu, þær sömu og ég notaði í jólakúlukransinn minn, er svo agalega mikið skotin í þeim. Svo er þarna hitt og þetta, bæði af litla trénu frá því að ég var lítil (yngri), fallegir hlutir sem hafa komið á eða í pökkum og eitthvað af skrauti sem ég fékk í skóinn og þykir svo ótrúlega vænt um.




Ég ætti líklega að taka það fram að heima hjá mömmu og pabba vorum við aldrei með topp á trénu, hann var samt til minnir mig en var samt aldrei settur á heldur var bara eitthvað efst sem við völdum hverju sinni. Og oftast eitt ljós af seríunni (bleikt ef ég fékk að ráða (semsagt alltaf)). Ég hef átt nokkra toppa en þeir hafa alltaf brotnað og ég veit ekki hvað (það má ekkert koma við þetta!) svo að ég hef bara sleppt því eða bundið fallega slaufu og látið það duga. Svo eru mamma og pabbi núna komin með fína Georg Jensen toppinn, ég ætti kannski að fara að safna fyrir einhverju svoleiðis, ég hlýt að geta farið að nota topp ef hann er til í fancy merki.

Stóra (en litla) tréð var keypt önnur jólin mín á Eggertsgötunni í Reykjavík þegar ég var í háskólanum. Fyrstu jólin lét ég litla tréð duga en fannst samt eitthvað rangt við að vera með pakka við það sem voru stærri en tréð...


Æj þetta var yndislegt :)

Þriðja tréð - sem er samt eiginlega ekki alvöru tré, allavega ekki svona sem maður skreytir - fékk ég gefins frá föðurömmu minni og afa, það er úr keramík:


Þegar ég fékk það var bleik stjarna ofan á því en hún brotnaði af fyrir löngu, ég á hana einhvers staðar og hef stundum reynt að líma hana á en hún vill adrei tolla fallega á trénu. Þetta tré hefur eitt mesta tilfinningalega gildið af öllu því sem ég á og ef það kviknaði í myndi ég reyna (ásamt símanum mínum og nýja, rándýra hárburstanum mínum) að kippa því með, það gæti aldrei neitt komið í staðinn fyrir það. Fyrir einhverjum árum síðan fúnaði fóturinn undan því en ég gat sem betur fer fengið fót af öðru tré og sett hann undir mitt. Bjargaði jólunum alveg það árið :)

Fjórða tréð er það tré sem hefur fengið hvað mesta athyglina. Mögulega af því að það er bleikt:


Það er á ganginum svo að það er dálítið erfitt að taka mynd af því. Venjulega hefur það verið í stofunni en kertaarinninn tekur allan fókusinn þar svo að ég ákvað að prófa þetta og finnst þetta bara kjút. Á trénu eru fjólubláar Ikea kúlur, bæði mattar og glansandi, og litlar silfurlitaðar. Svo er ég með svart kúluband, svarta litla slaufu og hvíta seríu. Það þarf ekkert meira á þessa (óneitanlegu) dásemd.

Þetta jólatré fékk pabbi gefins handa mér á Menningarnótt 2009. Það sumarið bjó ég hjá þeim mömmu á meðan ég var að bíða eftir íbúðinni minni hérna upp frá og hann kom svo glaður með það heim handa mér eftir að hafa borið það á bakinu út um allan miðbæ, innan um hundruði þúsunda af fólki. Ég viðurkenni alveg að ég var ekki viss um dásemdir trésins þegar ég sá það fyrst og þess vegna eyddi það fyrstu jólunum sínum heima hjá þeim að hluta til, en þegar ég sá það skreytt með seríu inni í herbergi áttaði ég mig á því og tók það með mér heim (með seríunni á sér og allt, týpísk ég, stel öllu!)

Þegar hér er komið við sögu vil ég minna á að pabbi hefur gefið mér meirihluta trjánna, og þess vegna er þetta ekki bara ég hlaupandi út um allan bæ að kaupa öll jólatré sem ég sé. Sverða!

Fimmta jólatréð verð ég samt að viðurkenna að hafa keypt alveg sjálf, og bara af því að mig langaði það. Og af því að ég sá fyrir mér að það gæti orðið geðveikislega glamúrus. Og það var á 70% afslætti. Þetta eru fyrstu jólin sem ég á það og þess vegna er ég ennþá pínu að læra á það og líklega verður það allt öðruvísi á næsta ári.


Ókei það lítur dálitið mikið ut fyrir að vera bara hrúga af hvítum fjöðrum á myndinni en það er í alvöru flott! Og já, það er semsagt hvítt. Á það setti ég það litla Georg Jensen skrautið sem ég á, afmæliskertahringi frá Bility (sem ég vann í facebook leik hjá þeim í vetur, því það er sko víst hægt að vinna í facebook leikjum!) og yndislegt hjarta fra Rosendahl sem Vala mín og Jana mín gafu mér i afmælisgjöf. Svo eru á því silfurlitað og fjólublátt kúluband.

Ég var búin að sjá fyrir mér ýmsa aðra hluti sem ég gæti gert við það og fyrir það en það bara var ekki alveg tími til þess, ég setti það ekki einu sinni upp fyrr en 28. desember og það var meira bara til að geta séð það almennilega og leyfa því að anda aðeins. En það er ofsa fallegt skraut við hliðina á því sem bætir það töluvert upp og litleysið á trénu meikar meira sens í því samhengi, lofa!

Þetta var semsagt sagan af eðlilegasta jólatrésfjölda í einni íbúð sem ein manneskja býr í. Stay tuned for more!

- knús -

No comments:

Post a Comment

Mundu að skrifa nafnið þitt undir svo ég geti gefið þér fæv fyrir kvittið :)